Norrænn vinnumarkaður þarf einfaldari skattareglur

19.09.23 | Fréttir
Arbetsliv och arbetsmarknad.
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Einfalda þarf norræna tvísköttunarsamninginn ef auka á frjálsa för vinnandi fólks innan Norðurlanda. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu þar sem einnig eru tillögur að því hvernig það megi gera.

Fyrir fjórum árum ákváðu norrænu forsætisráðherrarnir að Norðurlönd skyldu verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Nauðsynleg forsenda þessa er að norrænn vinnumarkaður sé lipur með eins fáum skrifræðishindrunum og kostur er, bæði fyrir atvinnurekendur og launafólk.

Til að svo megi verða þarf að einfalda norræna tvísköttunarsamninginn, segir í nýrri greiningu sem ráðgjafafyrirtækin KPMG og Resonans Nordic unnu að beiðni norræna stjórnsýsluhindranaráðsins.

Í greiningunni er bent á fjögur svið sem nú eru til trafala á norrænum vinnumarkaði. Það eru reglur um vinnu að heiman, skráningarskyldu atvinnurekenda í fleiri en einu landi og sköttun launatekna og lífeyrisgreiðslna þegar starfað er í öðru norrænu landi.

Tillögur

En það eru til lausnir á vandanum. Í greiningunni eru eftirfarandi fjórar tillögur:

  • Norðurlönd ættu að vera með sameiginlegar reglur um það hvenær vinna í búsetulandi, þar með talið frá heimaskrifstofu, telst vera svo kölluð föst starfsstöð;
  • staðgreiðsluskattur skal framvegis eingöngu talinn fram og innheimtur í landi atvinnurekanda þannig að hann þurfi ekki lengur að fara að löggjöf fleiri en eins lands varðandi sömu launatekjur;
  • launatekjur skulu skattleggjast í ráðningarlandinu og vinna að heiman í búsetulandi skuli til dæmis lögð að jöfnu við vinnu í landi atvinnurekandans. Til að það geti orðið þarf fyrsta tillagan að raungerast;
  • iðgjöld í lífeyrissjóð vegna lífeyris sem stofnað er til í öðru norrænu landi skal viðurkenna gagnkvæmt sem frádráttarbær og eingöngu skattleggja greiðslur úr lífeyrissjóði samkvæmt lögum þess lands þar sem stofnað var til lífeyrisins.

 

Margir samningar í gildi nú

Á Norðurlöndum gilda nú ýmsir samningar um fjarvinnu og vinnu yfir landamæri. Sameiginlegt með þessum samningum er að þeir miðast við þörf landanna fyrir að vernda skattstofninn. Þetta greiðir ekki fyrir samþættum vinnumarkaði á Norðurlöndum. Auka verður áherslu á almenna borgara og fyrirtæki í lagasetningu ef Norðurlönd eiga á ná markmiði sínu um aukinn hreyfanleika.

Nú leiðir skriffinnska í versta falli til þess að atvinnurekendur hika við að ráða starfsfólk og launafólk hikar við að taka starfi í öðru norrænu landi. Ólíkar skattareglur og stjórnsýsla í löndunum verða þannig hindrun fyrir frjálsa för starfsfólks.

Öflugur vinnumarkaður er arðsamur

Öflugur vinnumarkaður þvert á landamæri er arðsamur. Útreikningar fyrir Eyrarsundssvæðið sýna til dæmis að algerlega samþættur vinnumarkaður gæti skilað árlegum þjóðhagslegum hagnaði sem næmi allt að 2,9 milljörðum danskra króna samanlagt í Svíþjóð og Danmörku.

„Það er til mikils að vinna fyrir löndin okkar að sameiginlegur vinnumarkaður sé lipur. Það getur leyst skort á færni í einu landi og dregið úr atvinnuleysi í öðru. Það er því, með öðrum orðum, mikill efnahagslegur hvati fyrir löndin að hafa vinnumarkaðurinn öflugan,“ segir Siv Friðleifsdóttir sem gegnir formennsku í Stjórnsýsluhindranaráðinu 2023.

Heimsfaraldurinn dró sérstaklega fram galla núverandi kerfis þegar stór hluti vinnuferðalanga vann heiman frá sér. Þá varð hættan á tvísköttun að veruleika, í mismunandi skattþrepum og með aukinni skriffinnsku, bæði fyrir einstaklinga og stjórnvöld.

„Norræni tvísköttunarsamningurinn fylgir ekki þeirri þróun sem átt hefur sér stað nú þegar sífellt fleiri vinnustaðir gefa starfsfólki kost á að vinna að heiman. Ég vona að þessi greining verði tilefni til samtals sem leiðir til einföldunar og minni skriffinnsku. Hreyfanleikinn á að vera í brennidepli en hann léttir einnig vinnuna að markmiðum Framtíðarsýnar okkar fyrir 2030,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs.

Skýrslan er enn aðeins til á dönsku en verður þýdd á sænsku, norsku, finnsku, íslensku og ensku haustið 2023.

 

Stjórnsýsluhindranaráðið er pólitískt skipuð og óháð nefnd sem stjórnvöld landanna hafa falið að greiða fyrir fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda.