Ólík áhrif loftlagsmála á konur og karla
Sem stendur starfa 25% Norðurlandabúa í grænum störfum, sem er góð tala í samanburði við önnur OECD-lönd.
Þetta er mælikvarði á hve langt á veg löndin eru komin í grænum umskiptum og hve vel hefur heppnast að færa þekkingu úr geirum sem eru háðir jarðefnaeldsneyti yfir í hina sem sjálfbærari eru.
Fleiri karlar í koldíoxíðþungum greinum – og líka grænum störfum
Karlar hafa lengi verið í meirihluta í atvinnugreinum með mikilli losun – flutningum og samgöngum, orkugeira, landbúnaði og byggingariðnaði. Þess vegna hafa umskipti þessara atvinnugreina mest áhrif á vinnulíf karla. Það getur verið krefjandi að neyðast til að endurmennta sig til þess að missa ekki vinnuna.
Græn störf snúast um að framleiða vörur og þjónustu á nýjan hátt sem kemur í stað fyrri þarfar okkar fyrir jarðefnaeldsneyti – til dæmis með því að byggja orkusparneytin hús, vinna málma fyrir rafhlöður rafbíla, festa sólarorkuþil og reisa vindorkuver.
Karlar eru 70% þeirra sem sinna þessum störfum á Norðurlöndum.
„Nú er tækifæri til að ráða konur“
„Til þessa hefur þetta hefur ekki verið rætt með beinum hætti í stjórnmálaumræðu á Norðurlöndum. Með aukinni vitund um græn umskipti í stjórnmálum gætu umskiptin skapað tækifæri fyrir vinnuveitendur til að auka nýsköpunarkraft sinn með því að vinna að því að ráða fleiri konur – oft bæði hámenntaðar og meðvitaðar um loftlagsmál – í þessar atvinnugreinar, og um leið brjóta upp hinn afar kynjaskipta vinnumarkað,“ segir Kristinn Hróbjartsson, framkvæmdastjóri íslenska nýsköpunarfyrirtækisins Running Tide, sem vinnur að því þróa aðferðir til að binda kolefni í hafi.
Vaxtarsproti orkugeirans
Ef við missum af þessu tækifæri er hætta á að grænu umskiptin festi í sessi eða auki kynjaskiptingu á vinnumarkaði, samkvæmt einni af skýrslunum í þekkingargrunninum, „Bridging the Green Jobs Divide“.
Umskiptin yfir í sjálfbær orkukerfi eru vaxtarsproti í græna hagkerfinu en aðeins fimm prósent lykilstjórnenda í norrænum orkufyrirtækjum eru konur, og konur telja einn þriðjung af heildarstarfsmannafjölda orkufyrirtækjanna.
Það er því hætt við því að þessi litla þátttaka kvenna í orkugeiranum auki launabilið milli karla og kvenna.
Þörf á lífsstílsbreytingum
Samtímis eru viðhorf til grænna starfa að taka breytingum og fyrirtæki sækjast nú eftir annarri færni en þeirri tæknilegu, það er að segja þekkingu á því hvernig við breytum lífsstíl, venjum og hegðun fólks.
Samkvæmt milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC, geta lífsstílsbreytingar dregið úr losun á heimsvísu um 40–70 prósent fram til ársins 2050 að því gefnu að nauðsynlegar reglur, innviðir og tækni sé fyrir hendi.
Matar- og ferðavenjur kvenna eru sjálfbærari
Kolefnisfótspor karla sem hóps er stærra en kvenna sem hóps, sérstaklega að því er varðar neyslu matvæla og samgöngur.
Þekkingargrunnurinn inniheldur nýtt norrænt rannsóknaryfirlit frá Gautaborgarháskóla sem sýnir að einstaklingar sem bera mikla ábyrgð á að annast aðra – óháð kyni – láta sig málefni sjálfbærni og loftlags almennt varða meira en aðrir.
Þess vegna eru konur meðvitaðri um loftslagsmál
„Sömu kynjaviðhorf og fela konum til dæmis höfuðábyrgð á ólaunuðum heimilisstörfum og umönnun hafa afleiðingar í för með sér fyrir ólík áhrif einstaklinganna á loftslagið. Ef stuðlað yrði að því karlar sinntu umönnun og heimilinu, börnum og gamalmennum, hefði það að öllum líkindum áhrif á kolefnisfótspor þeirra,“ segir Jimmy Sand, skýrsluhöfundur á kynjarannsóknastofu Gautaborgarháskóla.
Loftlagsráðherra Íslands opnar þekkingargrunninn
Þekkingargrunnurinn verður opnaður og ræddur á loftlagsráðstefnunni COP28 í Dubai hinn 8. desember.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis og loftslagsmálaráðherra Íslands, segir jafnréttismál hingað til hafa verið hluti af velgengni Norðurlandanna.
„Til að grænu umskiptin skili árangri þurfum við að nýta allt hugvitið, ekki aðeins helminginn. Til að það takist þurfa allir að taka þátt. Jafnrétti er ávinningur fyrir alla,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.
Norrænn þekkingargrunnur um jafnréttis- og loftlagsmál
Árið 2022 ákváðu norrænir ráðherrar jafnréttismála og málefna LGBTI-fólks að afla þekkingar um tengslin milli jafnréttis og loftlags á Norðurlöndum.
Nokkrum mánuðum síðar fengu jafnréttismálaráðherrarnir víðtækan pólitískan stuðning frá ríkisstjórnum Norðurlandanna fyrir markmiðin í A Green and Gender-Equal Nordic Region um að norrænt samstarf þurfi að afla þekkingar til að geta samþætt jafnréttismál í loftlagsmálapólitík.
Þekkingargrunnurinn inniheldur nýja norræna þekkingu um jafnréttismál í grænum störfum, orkugeira, í neysluvenjum, bláum og grænum hagkerfum og í loftslagspólitík.