Ný hlaðvarpsþáttaröð: Kynning á fremstu tónskáldum Norðurlanda

07.10.22 | Fréttir
nomierade musikpris 2022
Photographer
norden.org
Í dag er hleypt af stokkunum nýrri hlaðvarpsþáttaröð þar sem nokkur af áhugaverðustu tónskáldum Norðurlanda eru kynnt til sögunnar. Blaðamaðurinn og tónlistargagnrýnandinn Andrew Mellor fer með hlustendur í tónlistarferðalag þar sem hann fjallar um fólkið sem er tilnefnt til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2022.

Í nýju hlaðvarpsþáttaröðinni kynnist þið tónskáldunum tólf sem eru tilnefnd til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Þættirnir eru tólf talsins og í hverjum þeirra er sagt frá einu tilnefndu verki og tilurð þess, auk þess sem dregin er upp persónuleg nærmynd af höfundi verksins. 

„Þegar ég bý til listaverk um hræðilegt fyrirbæri eins og heimsendi gæti ég látið það hljóma eins og háa nótu eða [sprengingu] eða undarlegt suð, en ég gæti líka gert eitthvað úr því sem er einhvern veginn fallegt,“ segir Sóley Stefánsdóttir, sem er tilnefnd fyrir Íslands hönd fyrir plötuna Mother Melancholia (2021).

Hlustaðu á það sem þér hugnast best

Hlustaðu á alla þættina í hlaðvarpsappi að eigin vali:

Frá hefðbundinni tónlist til tilraunatónlistar

Listafólkið sem er tilnefnt í ár er fulltrúar margvíslegra tónlistarstefna, allt frá heimstónlist og óperu til raftónlistar og þjóðlagatónlistar. Mikil áhersla er á röddina, en á meðal verkanna eru kórverk, verk fyrir sönghópa, einsöngsverk og óperur þar sem tekist er á við umfjöllunarefni á borð við fjölbreytileika, framtíð mannkyns, lífshamingjuna og depurð. Tilnefnda listafólkið spjallar við þáttastjórnandann Andrew Mellor, sem spilar líka brot úr tilnefndu tónverkunum. 

„Það er búið að vera ánægjulegt að skyggnast inn í hugar- og hljóðheim þessa frábæra tónlistarfólks. Hér höfum við tólf listamenn sem skapa tónlist af djúpri þörf fyrir að tjá sig og reyna að átta sig á umheiminum. Verkin sem tilnefnd eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs í ár, hvort sem það er framúrstefnuópera, danstónlist eða ævaforn þjóðlagatónlist í nútímabúningi, eiga það sameiginlegt að vera í fremsta gæðaflokki og samin af einlægni. Hvert þeirra er heimur út af fyrir sig og það var heiður að hitta höfundana og kafa enn dýpra í heimana sem þeir sköpuðu,“ segir blaðamaðurinn og gagnrýnandinn Andrew Mellor, sem stýrir þessari nýju hlaðvarpsþáttaröð.

 

Andrew Mellor er blaðamaður og gagnrýnandi. Hann hefur skrifað um arkitektúr, hönnun, tónlist og menningarmál fyrir blöð og tímarit um allan heim. Hann er einnig gagnrýnandi fyrir Gramophone og The Financial Times og höfundur bókarinnar The Northern Silence: Journeys in Nordic Music and Culture (Yale).

Hlaðvarpsþáttaröðin var unnin í samvinnu við Ane Skak og Niels Bjørn frá Immersive Stories.

Um tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs

Tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs, sem voru fyrst veitt árið 1965, er ætlað að verðlauna tónlistarsköpun og -flutning sem þykir skara fram úr að listrænum verðleikum. Verðlaunin eru veitt annað hvert ár til tónlistarmanna eða -hópa eða, eins og í ár, fyrir tónverk eftir lifandi tónskáld.    

Tilkynnt verður um handhafa tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2022, ásamt handhöfum annarra verðlauna Norðurlandaráðs, í Helsinki 1. nóvember næstkomandi.