Nýr fulltrúi Svía í norræna Stjórnsýsluhindranaráðinu

26.09.23 | Fréttir
Sveriges representant i Gränshinderrådet, Anders Ahnlid.
Photographer
Jonathan Nackstrand/AFP/Ritzau Scanpix

Anders Ahnlid er nýr fulltrúi Svía í Stjórnsýsluhindranaráðinu.

Anders Ahnlid, framkvæmdastjóri Kommerskollegium, hefur verið skipaður fultrúi Svía í norræna Stjórnsýsluhindranaráðinu. Skipun Ahnlids tekur gildi í dag.

Ahnlid er skipaður í Stjórnsýsluhindranaráðið af Jessiku Roswall sem er norrænn samstarfsráðherra og ESB-ráðherra Svíþjóðar. Skipun hans nær frá 27. september 2023 til og með 31. desember 2026.

Verkefni Stjórnsýsluhindranaráðsins er að vinna að frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda. Markmiðið er að það verði eins vandræðalaust og kostur er að flytja til annars norræns ríkis og ferðast yfir landamæri vegna vinnu eða náms eða að reka fyrirtæki handan landamæra.

„Við verðum að gefa í þegar kemur að því að ryðja stjórnsýsluhindrunum úr vegi ef framtíðarsýn okkar um Norðurlönd sem samþættasta svæði heims á að verða að veruleika. Þetta er forgangsmálefni ríkisstjórnarinnar, ekki síst á komandi formennskuári Svíþjóðar í Norrænu ráðherranefndinni 2024. Yfirgripsmikil reynsla og þekking Anders Ahnlids mun koma að miklu gagni í Stjórnsýsluhindranaráðinu,“ segir Jessika Roswall.

Með alþjóðlega reynslu

Með Anders Ahnlid fær Stjórnsýsluhindranaráðið til liðs við sig mann með mikla alþjóðlega reynslu. Ahnlid hefur gegnt ýmsum stjórnunarstörfum innan sænsku utanríkisþjónustunnar. Hann hefur meðal annars stýrt sendiskrifstofu Svía hjá ESB í Brussel, og sendinefnd þeirra hjá OECD í París og verið skrifstofustjóri á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Ahnlid var einnig sendiherra í Finnlandi á árunum 2016-2020.

„Vinnan við að ryðja stjórnsýsluhindrunum úr vegi snýst í grunninn um að tryggja að Norðurlöndin séu samkeppnishæf. Það skiptir miklu máli, einnig fyrir Svíþjóð. Ég er afar þakklátur traustinu og hlakka til að stuðla að því að einfaldara verði fyrir fólk og fyrirtæki að starfa alls staðar á Norðurlöndum.“

Vill auka norrænt samstarf á sviði viðskipta

Ahnlid þekkir til starfa Stjórnsýsluhindranaráðsins. Í maí 2022 kynnti hann ráðinu skýrslu sem unnin var af Kommerskollegium og fjallaði um tækifæri til aukins norræns samstarfs á sviði viðskipta. Við það tækifæri sagði Ahnlid:

„Við viljum að framtíðarsýn norrænu forsætisráðherranna um að Norðurlönd verði samþættasta og sjálfbærasta svæði í heimi verði að raunveruleika. Því eru ríkar ástæður til þess að auka enn frekar þungann í vinnunni að því að greiða fyrir viðskiptum milli Norðurlandanna og ryðja úr vegi þeim stjórnsýsluhindrunum sem enn fyrir hendi, þrátt fyrir allt.“

Stjórnsýsluhindranaráðið er skipað tíu fulltrúum. Þeir koma frá öllum norrænu löndunum ásamt Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi. Ríkisstjórnir landanna skipa fulltúa í ráðið en það er óháð pólitískt. Framkæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar situr einnig í ráðinu og einn fulltrúi Norðurlandaráðs.

Anders Ahnlid tekur sæti Sven-Eriks Bucht, fyrrum landsbyggðaráðherra Svíþjóðar, í Stjórnsýsluhindranaráðinu.