Nýr yfirmaður samskipta í norrænu samstarfi

16.12.21 | Fréttir
porträtt av niina aagaard
Photographer
Nordic Innovation

 

 

Niina Aagaard verður yfirmaður samskipta- og upplýsingasviðs Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs. Hún er frá Finnlandi en býr í Kaupmannahöfn og starfaði síðast sem framkvæmdastjóri rekstrar hjá Nordic Innovation í Noregi.

Niina Aagaard hefur störf í Húsi Norðurlanda í Kaupmannahöfn strax á nýju ári. Þar tekur hún við af Mary Gestrin sem látið hefur af störfum eftir að hafa gegnt starfi yfirmanns samskipta- og upplýsingasviðs í sjö ár.


Niina tekur við sem yfirmaður á upplýsingasviði sem samanstendur af undirdeild túlka og þýðenda, útgáfusviði, teymi sem vinnur með stafræna miðla og hópi samskiptaráðgjafa. 

Norræn starfsreynsla

Hún er menntuð í samskiptum og retórík og hefur einkum unnið að samskipta- og upplýsingamálum hjá stofnunum innan stjórnsýslunnar.

„Ég hef unnið að norrænu samstarfi allan minn feril, bæði í einkageiranum og á pólitíska sviðinu. Ég veit hversu miklu máli hin norrænu gildi um menntun, jafnrétti, félagslegt réttlæti og verndun menningarinnar skipta varðandi það að gera okkur samkeppnishæf og klár í að takast á við umskipti,“ segir Niina Aagaard.

Samstarfið á að stuðla að grænum umskiptum

Hið opinbera norræna samstarf sem stýrt er frá skrifstofunni í Kaupmannahöfn hefur undanfarin ár snúist um að raungera þá framtíðarsýn að árið 2030 verði Norðurlönd sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.

Með því að leggja áherslu á sameiginlegar rannsóknir og aðgerðir sem þjóna því markmiði á norrænt samstarf að ýta undir græn og félagslega sjálfbær umskipti í löndunum.

 

„Djörf framtíðarsýn“

„Þetta er djörf framtíðarsýn þar sem hún snýst um kerfislegar breytingar. Ég myndi vilja sjá þann góða árangur sem næst í norrænu samstarfi fá meiri athygli. Þingmenn á Norðurlöndum, stjórnvöld og frjáls félagasamtök, norræn fyrirtæki og einstaklingar vinna að því alla daga að leysa hnattræn úrlausnarefni,“ segir Niina Aagaard.

 

Hún er ráðin samkvæmt norrænum kjörum sem þýðir að samningurinn er til fimm ára með möguleika á framlengingu til þriggja ára.

Niina Aagaard er 48 ára, á þrjú börn og býr ásamt fjölskyldu sinni í Kaupmannahöfn.