Samfélagið leikur lykilhlutverk í aðlögun

17.08.20 | Fréttir
.
Photographer
Yadid Levy/norden.org
Samfélagið leikur mikilvægt hlutverk í því að tryggja aðlögun flóttamanna og innflytjenda, einkum með tilliti til tengslamyndunar sem er grundvöllur nýrra félagslegra sambanda. Það eykur atvinnumöguleika og styrkir tenginguna við hið nýja heimaland samkvæmt norrænni skýrslu, Learning to live in a new country – everyday social integration.


Aðlögunaráætlun Norrænu ráðherranefndarinnar stuðlar að og styður við þróun aðferða og aukinni vitund um þátt samfélagsins í aðlögun á Norðurlöndum. Skýrslan Learning to live in a new country – everyday social integration, sem nú liggur fyrir og unnin er af Nordregio fyrir Norrænu velferðarmiðstöðina, er árangurinn af því starfi.

Samfélagið skiptir miklu

Fyrri hluti skýrslunnar fjallar um þýðingu og fjölbreytileika samfélagslegra aðgerða sem stuðla að aðlögun. Samtök á borð við Rauða krossinn standa fyrir ólíkum aðgerðum svo sem tungumálahittingum, leiðbeinendaáætlunum og aðstoð við hagnýt atriði. Saman stuðla samtökin að því að til verði fleiri vettvangar þar sem fólk getur hist og efli þannig samheldni. Þetta hefur sérstaka þýðingu fyrir aðlögun á strjálbýlli svæðum þar sem kostur er að aðilar sem til staðar eru beri ábyrgð á félagslegri aðlögun.

 

Samstarf stjórnvalda og samfélagsins

Annar hluti fjallar um hvernig samfélagið og stjórnvöld geta unnið saman að aðlögun og hvað það er sem einkennir samstarfið í hverju hinna norrænu landa. Í sumum þeirra er áhersla lögð á virka þátttöku flóttamanna í samfélaginu á meðan önnur leggja áherslu á aðkomu samtaka til að draga úr félagslegri einangrun.