Þannig má efla aðlögun á Norðurlöndum

06.10.21 | Fréttir
integration
Photographer
Mads Schmidt Rasmussen / norden.org
Ef þú ert ungur flóttamaður sem dvelur á Norðurlöndum eru miklar líkur á að þú búir við lakari líkamlega og andlega heilsu, minni menntun og meira atvinnuleysi en meirihluti íbúa í landinu. Fræðafólk sem stendur að stórri norrænni rannsókn hefur greint umtalsverðan ójöfnuð bæði innan og á milli norrænu landanna, auk einhverra af þeim breytum sem þar virðast vera að verki.

„Það er lykilatriði að eftirfylgni við mál flóttafólks sé hröð og snemmbær, bæði hvað varðar tungumálanám, skólagöngu og sálfélagslegan stuðning. Umgangist ungt flóttafólk auk þess jafnaldra sína úr hópi meirihlutans hefur það mun betri forsendur til að eiga giftusamlegt lífshlaup, bæði hvað snertir menntun, starfsferil og persónulega velferð,“ segir Allan Krasnik prófessor.

Krasnik hefur verið við stjórnvölinn í rannsóknarverkefninu Coming of Age in Exile (CAGE). Að sögn Krasniks og kollega hans Signe Smith Jervelund, sem bæði starfa í Kaupmannahafnarháskóla, sýnir flóttafólk sem kemur til Norðurlanda á barnsaldri lakari frammistöðu í skóla og fær verri störf en fólk sem tilheyrir meirihluta íbúa í landinu. Þetta á við um innflytjendur í öllum fjórum löndunum sem skoðuð voru, þó að miklu geti munað á aðstæðum innflytjenda innbyrðis.

Aðgerðir til að efla aðlögun

Á grundvelli niðurstaðnanna úr rannsóknarverkefninu leggja rannsakendurnir til eftirfarandi aðgerðir:

1. Byrja skal snemma á kennslu í norrænum málum, tryggja gæði kennslunnar og tengsl við jafnaldra úr hópi meirihlutans, og veita jafnframt andlegan stuðning.

2. Nálgast nýtt flóttafólk á þess forsendum, einkum með hliðsjón af:

  • þörf þeirra fyrir andlegan stuðning við komuna til landsins, kynningu á heilbrigðisþjónustu og áframhaldandi sálfélagslegan stuðning, einkum við flóttabörn sem eru ein á ferð
  • þörfinni fyrir að vinna að aðlögun í skólanum – tungumál, almenn samskipti við jafnaldra úr hópi meirihlutans
  • að tryggja flóttafólki sem kemur á táningsaldri gott gengi í framhaldsnámi
  • kynningu á norrænni vinnumarkaðsmenningu, aftur með áherslu á að ungt flóttafólk tileinki sér þekkingu á norrænum tungumálum (sem skiptir miklu fyrir tengingu inn á vinnumarkaðinn)

3. Bæta þekkingu og hæfni varðandi fjölbreytileika meðal fagfólks hjá norrænum velferðarstofnunum (skólakennara, félagsráðgjafa, heilbrigðisstarfsfólks o.s.frv. hjá skólum, heilbrigðiskerfi, sveitarfélögum) – reynsla kemur að gagni, en þörf er á kerfisbundinni fræðslu fyrir fagfólk.

„Kenning okkar er að auka megi menntunarstig þessa hóps og efla þar með tengingu hans við vinnumarkað og aðlögun hans almennt. Það mun auka vellíðan meðal ungs flóttafólks, sem myndi draga úr ójöfnuði hvað varðar heilsufar og velferð á Norðurlöndum,“ segir Jervelund.

Til fróðleiks: CAGE-verkefnið

CAGE-verkefnið er einstakt í norrænu samhengi. Fræðafólk frá fjórum norrænum löndum – Danmörku, Finnland, Noregi og Svíþjóð – og í ólíkum fögum hefur leitt saman hesta sína til að rannsaka heilsufars-, menntunar- og vinnumarkaðsmál með sameiginlegri nálgun.

Norræn gögn um heilsufars-, menntunar- og vinnumarkaðsmál hafa gegnt lykilhlutverki fyrir vinnuna að CAGE. Þau gögn eru fengin úr opinberum skrám. Að auki hafa pólitískar greiningar og eigindlegar rannsóknir veitt frekari innsýn í þýðingarmikil gangvirki að baki hinum megindlegu niðurstöðum.