Minnkuð skriffinnska greiðir fyrir flutningum til Noregs

10.04.19 | Fréttir
Mænd flytter skriveborde
Ljósmyndari
Yadid Levy/Norden.org
Að mati margra Norðurlandabúa sem hafa flutt til Noregs til náms eða vinnu felst stjórnsýsluhindrun í því að verða að skrá sig í norsku þjóðskrána. Að undangengnum þrýstingi frá Stjórnsýsluhindranaráðinu hafa norsk skattayfirvöld nú slakað á kröfum sínum varðandi slíka skráningu.

Sá möguleiki að geta stundað nám og vinnu hvar sem er á Norðurlöndum er helsti kosturinn við norrænt samstarf, að mati íbúa landanna.

Starf Stjórnsýsluhindranaráðsins felst í því að þrýsta á ríkisstjórnir landanna um að afnema hindranir sem torvelda frjálsa för. Slíkar hindranir geta myndast þegar lög og reglur landanna stangast á.

Strangar kröfur vegna skráningar í þjóðskrá

Norðurlandabúar sem hyggjast dvelja í Noregi lengur en í sex mánuði vegna vinnu eða náms þurfa að skrá sig í þjóðskrá í landinu. Norsk skattayfirvöld hafa hingað til krafist þess að við skráningu í þjóðskrá sé framvísað bæði leigusamningi og ráðningarsamningi eða staðfestingu á skólavist.  Danmörk, Finnland og Svíþjóð hafa ekki gert sömu kröfur vegna skráningar í þjóðskrá.  Eftir aðgerðir Stjórnsýsluhindranaráðsins hafa norsk skattayfirvöld nú mildað kröfur sínar um framvísun gagna.  

Mikilvægur árangur

„Fjöldi einstaklinga hefur snúið sér til upplýsingaþjónustunnar Info Norden og sagst upplifa það sem vandamál að yfirvöld krefjist þessara gagna. Því er það mikilvægur árangur að nú sé orðið einfaldara að skrá sig í norsku þjóðskrána,“ segir Siv Friðleifsdóttir, formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins. 

Samkvæmt því pólitíska umboði sem Stjórnsýsluhindranaráðið hefur frá ríkisstjórnum norrænu landanna á ráðið að beita sér fyrir því að þremur til tólf stjórnsýsluhindrunum sé rutt úr vegi árlega.  Á fundi Stjórnsýsluhindranaráðsins í Kaupmannahöfn þann 9. apríl lá fyrir að þrjár hindranir hefðu verið afnumdar á fyrstu mánuðum ársins.

Ein þessara hindrana sneri að réttinum til starfsleyfis til að sinna pólitísku starfi í öðru norrænu landi. Sú hindrun hefur verið afnumin hvað Noreg varðar. Önnur hindrun sneri að viðurkenningu á grænlenskum ökuskírteinum í Danmörku.

Kortlagning á virðisaukaskatti og tollum

Einnig ákvað ráðið að kortleggja þær viðskiptahindranir sem reglur norrænu landanna um tolla og virðisaukaskatt geta orsakað fyrir fyrirtæki í löndunum.  „Þetta er alveg í takt við umboð okkar til að greiða fyrir hjólum atvinnulífsins þvert á landamæri. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki,“ segir Siv Friðleifsdóttir.  

Tengiliður