Velkomin í norrænan stjörnufans í Ósló

19.10.18 | Fréttir
Woman at War, regi Benedikt Erlingsson.

Islands bidrag till Nordiska rådets filmpris 2018 är Woman at War, regisserad av Benedikt Erlingsson.

Ljósmyndari
Slot Machine
Alls eru 53 einstaklingar tilnefndir til hinna fimm verðlauna Norðurlandaráðs 2018. Hægt verður að hitta flesta þeirra í Ósló dagana fyrir verðlaunaafhendinguna þann 30. október.

Á dagskrá eru málþing, upplestrar, umræður og fleiri viðburðir til heiðurs þeim verkum, verkefnum og listafólki frá öllum Norðurlöndunum sem hafa hlotið tilnefningu til verðlaunanna í ár. 

Dagskráin er öllum opin og er aðgangur ókeypis á flesta viðburðina, en á sumum er takmarkaður sætafjöldi og er þá krafist aðgöngumiða eða skráningar. Sjá meðfylgjandi tengil fyrir nánari upplýsingar sem verða uppfærðar þegar nær dregur.

Norræn kvikmyndahelgi

Norræn kvikmyndahátíð þar sem sýndar verða þær fimm myndir sem tilnefndar eru í ár: Vetrarbræður, Góðhjartaði drápsmaðurinn, Kona fer í stríð, Thelma og Korparna. Á eftir kvikmyndasýningunum fara fram umræður og fyrirlestrar.

Átak fyrir lífríki sjávar – umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2018

Þema umhverfisverðlaunanna að þessu sinni eru verkefni sem vernda lífríki sjávar. Á þessu málþingi verða kynntar þær hugmyndir að sjálfbærum lausnum sem þóttu mest spennandi og nýskapandi í ár og hlutu því tilnefningu.

Stefnumót við áhugaverðustu raddir norrænna bókmennta 

Allir höfundarnir sem tilnefndir eru til bókmenntaverðlaunanna í ár lesa úr verkum sínum. Norrænir bókmenntagagnrýnendur kynna verkin.   

Hittið höfundana sem tilnefndir eru til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir 2018

Upplestrar og umræður ásamt þeim höfundum og myndskreytum sem tilnefndir eru til barna- og unglingabókmenntaverðlaunanna í ár.

Hittið hin tilnefndu og kynnist tónlistinni þeirra!

Tónskáldin sem tilnefnd eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2018 kynna verk sín í samtali við Hild Borchgrevink, dómnefndarmeðlim. Verkin verða flutt í þeim tilvikum sem hægt er.

 

 

Glæsilegasta hátíð Norðurlanda

Verðlaunahafarnir verða kynntir á stjörnum prýddri verðlaunahátíð í Óperunni í Ósló. Verðlaunin verða afhent af Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, Mette-Marit krónprinsessu, Gunillu Bergström rithöfundi, Jakob Oftebro leikara og Sofiu Jernberg tónskáldi.  

Hver verðlaunahafi hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 350 þúsund danskar krónur.

Norska ríkissjónvarpið, NRK 1, sendir beint frá verðlaunaafhendingunni. Kynnar eru Linda Eide og Hans Olav Brenner og meðal annarra sem fram koma eru Susanne Sundfør, Dagny Norvoll Sandvik, Jan-Erik Gustafsson, norski óperukórinn og Kringkastingsorkesteret, hljómsveit norska ríkisútvarpsins.

 

Um verðlaun Norðurlandaráðs

Verðlaun Norðurlandaráðs eru á meðal virtustu verðlauna Norðurlanda og hljóta jafnan mikla alþjóðlega athygli. Verðlaunin eru fimm talsins og eru bókmenntaverðlaunin þeirra elst. Þau voru veitt í fyrsta sinn árið 1962. Á eftir þeim fylgdu tónlistarverðlaunin (1965), umhverfisverðlaunin (1995), kvikmyndaverðlaunin (2002) og barna- og unglingabókmenntaverðlaunin (2013). Fimm dómnefndir sjá um að tilnefna verk og útnefna verðlaunahafana.

Verðlaun Norðurlandaráðs verða veitt í tengslum við 70. þing Norðurlandaráðs í Ósló þar sem þingmenn, forsætisráðherrar og fleiri ráðherrar auk leiðtoga stjórnarandstöðu frá öllum Norðurlöndunum koma saman og ræða stjórnmál og stefnumótun.