Áhyggjur af rafrænni auðkenningarskipan norrænu landanna

15.04.21 | Fréttir
Pyry Niemi
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin hefur áhyggjur af framgangi NOBID-verkefnisins. Gagnkvæm viðurkenning á hinum rafrænu auðkennum landanna er háð því að öll norrænu löndin tryggi að hægt verði að tengja rafræn auðkenni þeirra hinum löndunum í sameiginlegu kerfi. Nefndin hefur áhyggjur af að löndin stefni ekki i sömu átt í þessum efnum.

Í samþykkt norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar frá 13. apríl kemur fram að nefndin hafi áhyggjur af að eitt af helstu verkefnum norræns samstarfs sé að steyta á skeri. Landsdeild Finnlands í Norðurlandaráði tók málið upp þegar í október 2020 og kallaði eftir aðkomu Norðurlandaráðs. Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin hefur fylgst með þróun verkefnisins gegnum árin. Formaður nefndarinnar, Pyry Niemi, talar skorinort.

„Að greiða fyrir frjálsri og snurðulausri för yfir landamæri Norðurlanda, bæði fyrir almenning og atvinnulíf, er helsta verkefni norræns samstarfs. Skilvirkt og öruggt rafrænt auðkenni sem nota má þvert á landamæri norrænu landanna mun þjóna bæði almenningi á Norðurlöndum og atvinnulífinu. Við getum ekki verið þekkt fyrir að mistakast að leysa slíkt verkefni,“ segir Pyry Niemi.  

Skilvirkt og öruggt rafrænt auðkenni sem nota má þvert á landamæri norrænu landanna mun þjóna bæði almenningi á Norðurlöndum og atvinnulífinu. Við getum ekki verið þekkt fyrir að mistakast að leysa slíkt verkefni.

Pyry Niemi, formaður Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar

NOBID

Norræna ráðherranefndin hleypti norræn-baltneska verkefninu um sameiginleg rafræn auðkenni (NOBID) af stokkunum í janúar 2018. Hugmyndin kom upphaflega frá Norðurlandaráði. Markmiðið var að skapa tæknilausnir sem gerðu það mögulegt að rafræn auðkenni landanna yrðu viðurkennd þvert á landamæri Norðurlanda. Tæknilausnirnar eru nú tilbúnar og í framhaldinu er komið undir ríkisstjórn hvers lands að sjá til þess að hægt sé að tengja auðkenni þeirra við kerfið. Eins og er hefur starfið stöðvast.

Áhyggjur af framgangi verkefnisins og samræmingu

Á meðan hefur landsdeild Finnlands í Norðurlandaráði áhyggjur af því að verið sé að þróa lausnir sem ekki verði unnt að samstilla við hin löndin, sem gæti tafið framgang verkefnisins og aukið kostnað. Hún hefur því sent Norðurlandaráði eftirfarandi tillögu:

Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin leggur til að Norðurlandaráð beini tilmælum til ríkisstjórna á Norðurlöndum um að samræma rafræn auðkenniskerfi landanna (e-ID), með tilliti til upplýsingaöryggis og hagkvæmni, í anda þeirrar framtíðarsýnar forsætisráðherranna fyrir árið 2030 að efla frjálsa för íbúanna og ryðja úr vegi stjórnsýsluhindrunum.

Tillagan var samþykkt einróma af norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndinni.

„Við deilum áhyggjum finnsku landsdeildarinnar og viljum jafnframt vekja athygli á því pólitíska metnaðarmáli að NOBID-verkefnið gangi að óskum. Það er eiginlega ekki í boði að mistakast á þessu sviði. Almenningur og aðilar atvinnulífsins á Norðurlöndum búast eðlilega við því að leyst verði úr þessu eins fljótt og auðið er. Þá verða öll löndin að stefna í sömu átt og í sama takti,“ segir Pyry Niemi með áherslu.  

Við deilum áhyggjum finnsku landsdeildarinnar og viljum jafnframt vekja athygli á því pólitíska metnaðarmáli að NOBID-verkefnið gangi að óskum. Það er eiginlega ekki í boði að mistakast á þessu sviði.

Pyry Niemi, formaður Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar