Bankar í Svíþjóð

Bank i Sverige
Hér getur þú lesið þér til um rétt þinn til að stofna bankareikning í Svíþjóð og möguleika þeirra sem ekki eru sænskir ríkisborgarar á að taka húsnæðislán hjá sænskum banka. Einnig eru gefnar upplýsingar um hvernig sótt er um sænskt nafnskírteini og rafræn skilríki og hvernig peningar eru millifærðir milli landa.

Margar ástæður geta verið fyrir því að þurfa að stofna einstaklingsbankareikning í Svíþjóð. Þú þarft að geta lagt inn á reikninginn, haft aðgang að peningunum þínum og greitt reikninga með millifærslum, pappírsreikningum og sjálfvirkum greiðslum.

Reikningar einstaklinga bera mismunandi heiti og eru til dæmis nefndir launareikningar, færslureikningar, persónulegir reikningar, einkareikningar eða greiðslureikningar.

Þú getur stofnað bankareikning í Svíþjóð ef þú hefur lögheimili í landi innan ESB/EES og framvísar gildum persónuskilríkjum.

Bankinn getur ekki krafist þess að þú sért með sænska kennitölu eða heimilisfang í Svíþjóð.

Geta erlendir ríkisborgarar stofnað bankareikning í Svíþjóð?

Ríkisborgarar ESB- og EES-ríkja eiga rétt á að stofna greiðslureikning þrátt fyrir að þeir hafi ekki fasta búsetu í Svíþjóð. Ólöglegt er að neita viðskiptavinum um stofnun reiknings sökum þess að þeir hafi ekki aðsetur í Svíþjóð eða sænska kennitölu.

Auk bankareiknings áttu rétt á debetkorti til þess að greiða með, taka út peninga og framkvæma greiðslur á netinu. Þetta er sú greiðsluþjónusta sem yfirleitt er í boði í netbönkum. Viðskiptavinir banka geta lagt inn peninga, greitt með debetkorti og tekið við greiðslum inn á reikning.
Sumir bankar eru með sérstaka reikninga fyrir einstaklinga sem sækja vinnu yfir landamæri innan Norðurlandanna.

Hvernig stofnar þú bankareikning án þess að vera með sænska kennitölu?

Þú átt rétt á því að stofna bankareikning jafnvel þótt þú sért ekki með sænska kennitölu eða sænskt heimilisfang eða njótir persónuleyndar. Bankinn þarf að geta staðfest hver þú ert til að þú getir stofnað bankareikning. Ef bankinn getur ekki staðfest það getur þú ekki stofnað bankareikning.

Hvernig auðkennir þú þig í sænskum banka?

Ef þú átt sænskt ökuskírteini, nafnskírteini sem útgefið er af sænskum yfirvöldum eða staðfest nafnskírteini skaltu hafa það meðferðis til að bankinn geti gengið úr skugga um hver þú ert.

Ef þú átt ekki sænsk persónuskilríki getur bankinn gengið úr skugga hver þú ert ef þú ert með erlendu vegabréfi þínu eða öðrum opinberum skjölum sem staðfesta ríkisfang þitt. Bankinn getur beðið um fleiri sannanir á því hver þú ert.

Ef þú átt engin persónuskilríki getur bankinn gengið úr skugga um hver þú ert með öðrum áreiðanlegum skjölum og öðru eftirliti í samræmi við verkferla bankans í ferlum sem fela í sér áhættu.

Þarftu að útskýra hvers vegna þú þarft bankareikning í Svíþjóð?

Öllum bönkum í Svíþjóð ber skylda til þess samkvæmt lögum að spyrja hvers vegna þú hafir not fyrir bankareikning og hvernig þú munir nota bankareikninginn. Það getur verið til að fá greidd laun, bætur eða styrki, til að greiða húsaleigu eða fyrir sparnað.

Hvað kostar að eiga bankareikning í Svíþjóð?

Verðlagning bankaþjónustu er frjáls. Það er undir þér komið að velja hvort þú viljir greiða það verð sem bankinn býður fyrir þjónustu sína. Til að finna þá bankaþjónustu sem hentar þér best skaltu fara yfir hverjar þarfir þínar eru.

Hvað getur þú gert gert ef bankinn þér um að stofna bankareikning í Svíþjóð?

Ef bankinn synjar þér um reikning geturðu leitað til kvörtunardeildar bankans og farið fram á að ákvörðunin verði endurskoðuð.

Þú getur einnig haft samband við Konsumenternas Bank- och finansbyrå og látið þau vita að bankinn hafi neitað þér um stofnun bankareiknings.

Getur þú fengið nafnskírteini og rafræn skilríki í Svíþjóð?

Sænskir ríkisborgarar geta fengið vegabréf og nafnskírteini hjá lögreglunni í Svíþjóð, Polisen.

Ef þú ert erlendur ríkisborgari, eldri en 13 ára og með búsetu í Svíþjóð getur þú pantað sænskt nafnskírteini hjá Skatteverket. Í Svíþjóð er nafnskírteinið notað við ýmsar aðstæður í daglegu lífi fólks.

Hægt er að sækja um rafræn skilríki og nafnskírteini hjá sumum bönkum í Svíþjóð. Þú getur notað rafræn skilríki til að auðkenna þig með öruggum hætti á vefsíðum og í öppum. Með þeim er hægt að undirrita samninga og færslur hjá yfirvöldum og fyrirtækjum og staðfesta hvert þú ert eða kaup þín með kóða.

Ef þú átt rafræn skilríki frá öðru landi en Svíþjóð getur þú í sumum tilfellum notað þau í rafrænni þjónustu sænskra stofnana. Ekki er þó hægt að nota sænsk rafræn skilríki í rafrænni þjónustu annarra landa.

Getur þú fengið kreditkort og lán í Svíþjóð?

Þegar þú sækir um lán á lánveitandinn að gera lánshæfismat áður en hann ákveður hvort lántakandi fullnægir fjárhagsleg skilyrði til þess að greiða vexti og afborganir af láninu. Bankinn metur greiðslugetu þína út frá fullnægjandi upplýsingum um fjárhagsaðstæður þínar.


Bankar geta ekki kannað lánshæfi yfir landamæri á Norðurlöndum. Bankar í Svíþjóð geta einungis fengið upplýsingar um aðstæður í Svíþjóð.

Ef þú vilt fá kreditkort eða taka lán í Svíþjóð þarftu að hafa í huga að margir bankar hika við að veita lán til erlendra ríkisborgara eða sænskra ríkisborgara sem starfa í öðru ESB-/-EES-landi.

Ef þú starfar í öðru landi getur bankinn ekki sannreynt að þú hafir tekjur og því þarftu að sanna það á annan hátt, til dæmis með því að framvísa skjölum sem sýna tekjur, svo sem ráðningarsamning, launaseðla eða þess háttar.

Bönkum er heimilt að ákveða eigin útlánakjör. Þeim er ekki heimilt að mismuna ríkisborgurum ESB-/EES-ríkja á grundvelli þjóðernis. Ef þér finnst banki hafa mismunað þér getur þú haft samband við þjónustusvið bankans og beðið um skriflegan rökstuðning fyrir því hvers vegna lánsumsókn þinni var hafnað. Þú getur svo notað skriflega rökstuðninginn til að fá aðstoð og ráðgjöf frá FIN-NET, sem hefur milligöngu um sættir milli neytenda og veitenda fjármálaþjónustu.

Getur þú fengið húsnæðislán hjá sænskum banka ef þú ert ekki sænskur ríkisborgari eða ef þú starfar í öðru landi?

Engar reglur koma í veg fyrir að erlendir ríkisborgarar geti tekið lán í Svíþjóð. Samningar lántakenda við banka mæla fyrir um kjör og skilmála húsnæðislána. Að undanskildum einstökum lögum, og þá sérstaklega lögum sem tryggja réttindi neytenda, gildir samningafrelsi. Þess vegna geta bankar sett mismundandi skilyrði fyrir veitingu húsnæðislána.

Það getur verið erfitt að finna banka sem veitir húsnæðislán til erlendra ríkisborgara sem ekki eru með fasta búsetu í Svíþjóð og sem ekki hafa tekjur eða eignir í Svíþjóð sem nota má sem tryggingu. Þar sem samningar geta verið mjög mismunandi eftir bönkum getur borgað sig að hafa samband við marga banka.

Á vefsíðum bankanna eru reiknivélar sem auðvelda þér að áætla mánaðarlega hámarksgreiðslugetu þína þegar þú sækir um húsnæðislán. Konsumenternas Bank- och Finansbyrå eru líka með reiknivél fyrir húsnæðislán, Bolånekalkyl, sem þú getur notað þegar þú ætlar að kaupa húsnæði.

Það getur verið torsótt að fá lán til kaupa á húsnæði í öðru landi. Sumir bankar vilja ekki veita lán til kaupa á erlendum fasteignum eða til einstaklinga sem búa eða starfa í öðru landi en þar sem bankinn starfar.

Hvernig millifærir þú peninga milli landa?

Sömu reglur og verðskrá gilda um millifærslur og greiðslur innan ESB og EES (Ísland og Noregur) og innan Svíþjóðar ef greitt er í evrum eða sænskum krónum. 

Neytendur ættu að kanna hvernig millifærsla hentar best og hvað hún kostar.

  • Notaðu alltaf netbankann til þess að komast hjá óþörfum þjónustugjöldum.
  • BIC og IBAN/SWIFT eru kóðar sem notaðir eru til að greina bankareikninga og bankastofnanir í millilandagreiðslum.
  • Ef þú ætlar að millifæra peninga milli landa er ráðlegt að velja ESB-greiðslu.
  • ESB-greiðslur byggjast á því að greiðandi og viðtakandi greiðslu skipta með sér kostnaði við greiðsluþjónustuna. Hægt er að gera undantekningu þegar skipt er á milli gjaldmiðla.
  • Kannaðu hvaða greiðslu bankinn innheimtir fyrir millifærsluna.
Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna