Sænsk kennitala

Person der går på et torv med tal
Photographer
Markus Krisetya / Unsplash
Sænsk kennitala og samræmingartala eru tvær mismunandi tölur sem eru notaðar til að bera kennsl á einstaklinga í mismunandi aðstæðum. Þessar tölur eru ómissandi til að eiga samskipti við hið opinbera og mörg fyrirtæki í Svíþjóð.

Þegar þú ákveður að flytja til Svíþjóðar eða dvelja þar tímabundið stendur þú frammi fyrir tveimur mikilvægum kostum – kennitölu eða samræmingartölu. Þessar tölur eru sem lyklar að Svíþjóð og veita aðgang að ýmissi þjónustu og tækifærum.

Hvort þarftu sænska kennitölu eða samræmingartölu?

Sænsk kennitala er einkvæm tala sem einstaklingum er úthlutað við fæðingu eða flutning til Svíþjóðar. Hún samanstendur af fæðingardegi (áámmdd) og á eftir honum fjórum tölum. Kennitalan er notuð í samskiptum við sænskar stofnanir, heilbrigðiskerfið, skólakerfið, skattinn og margt fleira. Hún er notuð fyrir allt frá heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu til bankaviðskipta og vinnumarkaðar.

Einstaklingum er úthlutuð samræmingartala ef þeir búa tímabundið í Svíþjóð eða eru ekki skráðir í sænska þjóðskrá. Hún er sérstaklega notuð fyrir einstaklinga sem ekki eru eða hafa verið skráðir í þjóðskrá í Svíþjóð og geta því ekki fengið sænska kennitölu. Þessi tala er nauðsynleg fyrir ýmsar athafnir, svo sem til að stunda vinnu eða nám og fá aðgang að tiltekinni þjónustu á meðan dvalið er í Svíþjóð. Samræmingartalan er notuð til að auðkenna einstaklinga þegar kennitala væri annars notuð.

Munurinn er í grundvallaratriðum sá að sænsk kennitala er talan sem notuð er til að auðkenna einstaklinga sem hafa fasta búsetu í Svíþjóð en samræmingartalan er tímabundinn kostur fyrir þá sem ekki uppfylla skilyrði til að fá sænska kennitölu en hafa engu að síður þörf til að auðkenna sig í Svíþjóð.

Getur þú fengið sænska kennitölu?

Þú getur fengið sænska kennitölu ef þú uppfyllir tiltekin skilyrði. Alla jafna geta einstaklingar sem hafa fasta búsetu í Svíþjóð eða fæddust í Svíþjóð fengið sænska kennitölu.

Ef þú flytur til Svíþjóðar og hyggst búa þar lengur en í 12 mánuði þarftu að skrá þig í þjóðskrá í Svíþjóð og fá í tengslum við það sænska kennitölu frá Skatteverket. Einstaklingur sem einu sinni hefur fengið sænska kennitölu heldur henni ævilangt. Það þýðir að kennitalan breytist ekki þótt flutt sé frá Svíþjóð.

Hvernig færð þú sænska kennitölu?

Til að fá sænska kennitölu þarftu að vera skráð(ur) í sænsku þjóðskrána og hafa fasta búsetu í Svíþjóð. Sænskir ríkisborgarar sem fæðast í Svíþjóð fá kennitölu við fæðingu.

Ef þú er ekki sænskur ríkisborgari og hyggst dvelja í Svíþjóð lengur en í eitt ár þarftu að skrá þig í þjóðskrá þar í landi og þá er þér úthlutuð sænsk kennitala.

Þú finnur upplýsingar um hvernig þú skráir þig í þjóðskrá í Svíþjóð og færð sænska kennitölu á síðunni „Skráning í þjóðskrá í Svíþjóð“.

Hvernig færð þú sænska samræmingartölu?

Norrænir ríkisborgarar sem dvelja skemur en 12 mánuði í Svíþjóð eiga ekki að tilkynna um flutning til Svíþjóðar. Þess í stað fá þeir samræmingartölu. Einstaklingar sem dvelja tímabundið í Svíþjóð og uppfylla ekki skilyrði til að fá sænska kennitölu fá sænska samræmingartölu.

Til að fá samræmingartölu þarftu að hafa samband við Skatteverket og sækja um það. Þessi tala er yfirleitt nauðsynleg fyrir tímabundna dvöl, svo sem vegna tímabundinnar vinnu eða stuttrar námsdvalar eða ef þú átt húsnæði í Svíþjóð en ert ekki með skráða búsetu þar í landi. Samræmingartalan gerir þér kleift að eiga í samskiptum við ýmsa aðila og þjónustur í Svíþjóð, svo sem stofnanir, vinnuveitendur, banka, skóla, leigusala, símafyrirtæki, orkufyrirtæki o.s.frv. á meðan þú dvelur tímabundið í Svíþjóð.

Það er Skatteverket sem ákveður hvort þú eigir rétt á sænskri samræmingartölu. Þú þarft að geta sýnt fram á hver þú ert með upplýsingum um nafn, fæðingardag og ríkisfang. Auk þess þarf umsóknin að innihalda upplýsingar um kyn, fæðingarstað og heimilisfang.

Hægt er að sækja um sænska samræmingartölu á ýmsa vegu, til dæmis eftir því hvort þú ert launþegi, rekur fyrirtæki, ert í námi eða átt eign í Svíþjóð en býrð í öðru landi. Þú getur sótt sjálf(ur) um samræmingartölu eða fengið sænska stofnun til að meta hvort þú eigir að fá samræmingartölu.

Einstaklingur sem ákveður síðar að skrá sig í sænska þjóðskrá fær kennitölu í stað samræmingartölunnar.

Á vefsíðu Skatteverket er að finna upplýsingar um hvernig sótt er um sænska samræmingartölu.

Hvað á við um sænska ríkisborgara sem fæðast erlendis?

Til ársins 2000 fengu sænsk börn sem fæddust erlendis kennitölu við fæðingu. Árið 2000 var ákveðið að börn sænskra foreldra sem fæðast erlendis fái samræmingartölu í stað kennitölu.

Það skýrist af því að sænsk börn sem fæðast erlendis eru yfirleitt ekki skráð í þjóðskrá frá fæðingu. Engu að síður er hægt að skrá börnin sem sænska ríkisborgara með eiginnafni og kenninafni í þjóðskrá.

Einstaklingar sem fæðast erlendis fá fyrst kennitölu þegar þeir flytja til Svíþjóðar og uppfylla skilyrði fyrir búsetuskráningu í Svíþjóð.

Sænskir ríkisborgarar sem fæðast erlendis geta fengið sænskt vegabréf án þess að hafa sænska kennitölu.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna