Einstaklingar með fötlun í Noregi

Personer med nedsatt funksjonsevne i Norge
Hér geturðu lesið um réttindi og skyldur einstaklinga með fötlun í Noregi meðal annars þegar ferðast er eða flutt yfir landamæri.

Norðurlandasamningurinn um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu gildir um norræna ríkisborgara og aðra einstaklinga með lögheimili á Norðurlöndum. Í sáttmálanum eru ákvæði um einstaklinga sem þarfnast meðferðar eða umönnunar í lengri tíma og óska eftir því að flytja frá einu norrænu landi til annars. Það þýðir að ábyrg stjórnvöld í löndunum tveimur leitast við að greiða fyrir flutningum einstaklings sem þarfnast meðferðar eða umönnunar og óskar eftir því að flytja á milli landa. Krafan er að einstaklingurinn flytji af frjálsum vilja og tengist sérstökum böndum því landi sem hann hyggst flytja til og að gert sé ráð fyrir að flutningurinn bæti stöðu viðkomandi einstaklings í lífinu.

Ef aðstæður þínar eru eins og hér er lýst og þú hyggur á flutning þarftu að leita til sveitarfélagsins þíns eftir aðstoð við flutninginn. Framvísaðu sáttmálanum um félagslega aðstoð ef þörf krefur.

Réttindi og tækifæri í Noregi

Hér geturðu lesið um úrræði og stuðning sem er í boði í Noregi ef þú eða barn þitt er með fötlun og þið hyggist flytja til Noregs. Kannaðu hjá sveitarfélaginu þínu hvaða úrræði eru í boði fyrir ykkur.

Hjálpartæki fyrir fólk með fötlun

Í Noregi áttu rétt á hjálpartækjum ef fötlunin er varanleg. Hjálpartækjamiðstöðvar NAV (vinnumála- og tryggingastofnunarinnar) bera meginábyrgð á hjálpartækjum í sínum fylkjum. Hjálpartækjamiðstöðvarnar geta aðstoðað við aðlögun og hjálpartæki á heimili, í vinnu, námi og frístundum. Þú getur til dæmis fengið hjálpartæki vegna skertrar sjónar eða heyrnar, fengið aðlögun á heimilinu, akstursþjónustu eða bifreið.

Fjárhagsaðstoð við þig eða fatlað barn þitt

Ef þú átt lögheimili í Noregi áttu rétt á fjárhagsaðstoð vegna aukins kostnaðar eða sérþarfa sem fötlunin veldur. Fjárhagsaðstoð er veitt einstaklingum með sérstaka þörf fyrir umönnun og eftirlit vegna veikinda, meiðsla eða meðfæddrar fötlunar. NAV (vinnumála- og tryggingastofnunin) sér um greiðslur fjárhagsaðstoðar í Noregi.

NAV getur veitt fjárhagsaðstoð ef þú sem foreldri verður fyrir tekjumissi þegar þú annast veikt eða fatlað barn þitt í heimahúsum. Þú getur átt rétt á umönnunargreiðslum Fjölskyldur alvarlega veikra eða fatlaðra barna eiga einnig rétt á fjárhagsaðstoð. Fyrir fötluð börn er einnig hægt að sækja um hjálpartæki til að aðstoða við þjálfun, örvun og dægradvöl.

Ferðalög og flutningar

Meginreglan er sú að þú megir taka hjálpartæki með þér frá Noregi til útlanda ef þú ráðgerir stutta dvöl erlendis. Ef þú ætlar að flytja úr landi eða dveljast erlendis lengur en í tólf mánuði þarftu að sækja um hjá NAV (vinnumála- og tryggingastofnun) um að halda hjálpartækjunum þegar þú flytur.

Þegar flutt er til útlanda eða heim þarftu að kanna hvaða hjálpartæki og aðstoð þú getur tekið með þér og hvort þú þurfir að sækja um upp á nýtt í nýju landi. Hjálpartæki eru yfirleitt veitt í búsetulandinu. Á því eru þó undantekningar.

Bíll

Sumir eiga rétt á bifreið eða bifreiðarstyrk vegna fötlunar sinnar. Ef þú hefur fengið bifreið hjá almannatryggingum geturðu farið úr landi hvort sem er til EES-landa eða annarra landa í allt að þrjá mánuði án þess að sækja um leyfi. Ef sérstakar ástæður eru fyrir því að þú dveljist erlendis lengur en í þrjá mánuði geturðu sótt um undanþágu til að taka bifreiðina með þér úr landi. Umsóknir eru sendar á NAV Bilsenter.

Leiðsöguhundar

Sömu reglur gilda um innflutning og útflutning á leiðsöguhundum og öðrum hundum.

Lyf

Mismunandi reglur gilda um að senda lyf í pósti og taka lyf með sér í ferðalög. Ef þú ferð til útlanda með lyfseðilsskyld lyf þarftu að geta staðfest að þú sért réttur eigandi lyfjanna.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna