Fæðingarorlofsgreiðslur í Danmörku

Færøske barselsdagpenge
Hér geturðu lesið um danskar reglur um fæðingarorlof og fæðingarorlofsgreiðslur.

Ef þú starfar í Danmörku gilda að jafnaði um þig danskar reglur um orlof. Hafðu samband við Udbetaling Danmark ef þú ert í vafa um hvort þú eigir rétt á orlofi og fæðingarorlofsgreiðslum samkvæmt dönskum reglum.

Nýjar reglur tóku gildi 2. ágúst 2022. Ef barnið er fætt fyrir þann tíma gilda gömlu reglurnar sem nálgast má á borger.dk.

Tilhögun orlofsins

Ef foreldrar búa saman við fæðingu barns á móðirin rétt á fjögurra vikna orlofi fyrir fæðingu og hvort foreldri um sig á svo yfirleitt rétt á 24 vikna orlofi eftir fæðingu. Alls eru þetta 52 vikur. Annað foreldrið getur framselt eitthvað af sínum vikum til hins foreldrisins.

Móðir getur tekið:

 • Greitt meðgönguorlof 4 vikum fyrir áætlaða fæðingu.
 • 2 vikna greitt orlof strax eftir fæðingu sem taka skal í beinu framhaldi af fæðingu barnsins.
 • 8 vikna greitt orlof við fæðingu sem skal taka áður en barnið verður 10 vikna. Þó er hægt að lengja orlofið ef snúið er til baka til vinnu í hlutastarfi samkvæmt samkomulagi við vinnuveitanda.
 • 14 vikna greitt orlof sem skal taka áður en barnið verður 1 árs. Þó er hægt að lengja eða fresta orlofinu þar til barnið verður 9 ára að uppfylltum skilyrðum. Ef móðirin er launþegi skal hún taka 9 vikur áður en barnið verður 1 árs nema sérstakar kringumstæður komi í veg fyrir að hún geti það.

2 vikna orlofið hefst ávallt daginn eftir fæðingu barnsins. 4 vikna meðgönguorlofið styttist því ef barnið fæðist fyrr en áætlað er og lengist jafnframt ef barnið fæðist síðar en áætlað er.

Faðir eða meðmóðir getur tekið:

 • 2 vikna greitt orlof eftir fæðingu eða áður en barnið er orðið 10 vikna eftir samkomulagi við atvinnurekanda. Þó er hægt að lengja orlofið ef snúið er til baka til vinnu í hlutastarfi samkvæmt samkomulagi við vinnuveitanda.
 • 22 vikna greitt orlof sem skal taka áður en barnið verður 1 árs. Þó er hægt að lengja eða fresta orlofinu þar til barnið verður 9 ára að uppfylltum skilyrðum. Ef faðir eða meðmóðir er launþegi skal taka 9 vikur áður en barnið verður 1 árs nema sérstakar kringumstæður komi í veg fyrir það.

Ef foreldrarnir búa ekki saman við fæðingu eða ef foreldri er eitt eða í annarri sérstakri stöðu á foreldrið rétt á annars konar dreifingu orlofsins sem tekur mið af þeirri stöðu sem foreldrið er í.

Hægt er að framselja orlof

Foreldrar geta framselt hvort öðru orlofsvikum með rétti til fæðingarorlofsgreiðslna svo orlofið falli sem best að þörfum þeirra út frá vinnu og fjölskyldulífi.

Almennt á hvort foreldri um sig rétt á 24 vikna greiddu orlofi eftir fæðingu. Sumar þessara vikna er ekki hægt að framselja til hins foreldrisins.

Ef foreldrarnir eru launþegar geta þeir til dæmis ekki framselt 9 af þessum vikum þar sem launþeginn sjálfur á að taka þær áður en barnið verður 1 árs nema sérstakar kringumstæður komi í veg fyrir að foreldrarnir geti tekið orlofið. Séu þessar 9 vikur ekki notaðar áður en barnið verður 1 árs fara þær í flestum tilvikum forgörðum.

Það þýðir að foreldri getur tekið meira en 24 vikna greitt orlof eftir fæðinguna ef hitt foreldrið hefur framselt orlof sitt.

Ef þú uppfyllir ekki skilyrði um rétt á fæðingarorlofsgreiðslum, til dæmis ef þú nýtur fjárhagsaðstoðar, getur þú ekki tekið greitt orlof. Þú getur þó alltaf framselt einhverjar orlofsvikur til hins foreldrisins, sem getur fengið fæðingarorlofsgreiðslur fyrir þær vikur, ef hitt foreldrið uppfyllir skilyrðin.

Nánari upplýsingar um framsal eru á vefnum borger.dk.

Áttu rétt á fæðingarorlofsgreiðslu frá Danmörku vegna meðgöngu, fæðingar eða ættleiðingar?

Launþegar

Ef þú ert launþegi geturðu átt rétt á fæðingarorlofsgreiðslum ef þú uppfyllir eftirfarandi kröfur um atvinnuþátttöku við upphaf viðkomandi orlofstíma:

 • Þú þarft að vera ráðin í vinnu eigi síðar en daginn áður en taka orlofs hefst eða á fyrsta degi orlofs.
 • Þú þarf að hafa skilað a.m.k. 160 vinnustundum á síðustu fjórum heilu mánuðum áður en orlofstaka hefst.
 • Þú þarft að hafa skilað a.m.k. 40 vinnustundum á mánuði í a.m.k. þrjá mánuði af þessum fjórum.

Þá þarftu að vera daglega samvistum við barnið, þ.e. vera í návist þess meðan á orlofinu stendur.

Udbetaling Danmark fær sjálfkrafa upplýsingar um atvinnuþátttöku þegar atvinnurekandi gerir grein fyrir launagreiðslum.

Ef þú ert á fullum launum á hluta orlofstímabilsins áttu ekki að sækja um fæðingarorlofsgreiðslur fyrr en launagreiðslum atvinnurekanda lýkur. Þú getur einnig sótt um fæðingarorlofsgreiðslur ef hluti launa fellur niður í orlofinu vegna þess að í sumum tilvikum áttu rétt á fæðingarorlofsgreiðslum til viðbótar við laun.

Ef þú ert á fullum launum á öllu fæðingarorlofstímabilinu áttu ekki að sækja um fæðingarorlofsgreiðslur.

Ef þú ert í vafa um hvaða reglur gilda um þig geturðu beðið um upplýsingar um hvaða reglur gilda samkvæmt kjarasamningi hjá atvinnurekandanum eða stéttarfélagi þínu.

Hvernig er sótt um?

Ef þú ert launþegi biðurðu atvinnurekandann um að fara á vefslóðina virk.dk/barseldagpenge og tilkynna Udbetaling Danmark að þú takir orlof.

Þegar atvinnurekandinn hefur tilkynnt orlofið færðu rafrænan póst (Digital Post) frá Udbetaling Danmark sem veitir þér aðgang til að sækja um fæðingarorlofsgreiðslur. Þú getur ekki sótt um þær fyrir fram.

Ef um fleiri en einn atvinnurekanda er að ræða þarftu að láta þá alla vita.

Sækja skal um fæðingarorlofsgreiðslur í síðasta lagi 8 vikum fyrir fæðingu eða móttöku. Ef þú ert á fullum launum hluta orlofstímans skal sækja um fæðingarorlofsgreiðslur í síðasta lagi 8 vikum eftir að launagreiðslum lýkur. Ef þú sækir um meira en 8 vikum eftir að launagreiðslum lýkur geturðu í fyrsta lagi fengið fæðingarorlofsgreiðslur frá þeim degi sem Udbetaling Danmark berst umsóknin.

Nánari upplýsingar á borger.dk. Þar má einnig lesa um orlof vegna ættleiðingar og möguleika á að framlengja orlof eða fresta hluta þess eða sækja um viðbótarorlof vegna sérstakra kringumstæðna.

Hafið í huga að aðrar reglur gilda um fæðingarorlofsgreiðslur ef barnið er fætt fyrir 2. ágúst 2022. Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk.

Ef þú ert sjálfstætt starfandi

Ef þú ert sjálfstætt starfandi áttu rétt á fæðingarorlofsgreiðslum ef þú uppfyllir eftirfarandi þrjú skilyrði við upphaf orlofstímans:

 • Þú hefur unnið í a.m.k. 18,5 tíma á viku í a.m.k. 6 mánuði á undanförnum 12 mánuðum.
 • Þú hefur unnið síðasta mánuðinn áður en þú hefur töku orlofs.
 • Atvinnurekstur þinn skilar hagnaði.

Þá þarftu að vera daglega samvistum við barnið, það er í návist þess.

Ef þú hefur starfað sjálfstætt skemur en í 6 mánuði geturðu bætt við tímabilum þar sem þú varst launaður starfsmaður hjá öðrum.

Til vinnu teljast þó ekki tímabil þar sem þú hefur fengið sjúkradagpeninga, fæðingarorlofsgreiðslur eða sambærilegar bætur.

Ef þú er ráðin hjá þínu eigin hlutafélagi, ApS eða A/S, telstu starfsmaður en ekki sjálfstætt starfandi. Sjá kaflann „Launþegar“.

Þú sækir um fæðingarorlofsgreiðslur hjá Udbetaling Danmark á vefslóðinni virk.dk. Sækja skal um fæðingarorlofsgreiðslur í síðasta lagi 8 vikum fyrir fæðingu eða móttöku. Ef orlofstímabilið hefst síðar skal sækja um fæðingarorlofsgreiðslur í síðasta lagi 8 vikum eftir fyrsta dag orlofs.

Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk. Þar má einnig lesa um orlof vegna ættleiðingar og möguleika á að framlengja orlof eða fresta hluta þess.

Hafið í huga að aðrar reglur gilda um fæðingarorlofsgreiðslur ef barnið er fætt fyrir 2. ágúst 2022. Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk.

Ef þú ert atvinnulaus

Ef þú ert skráð/skráður í atvinnuleysistryggingasjóð

Þú átt rétt á fæðingarorlofsgreiðslum ef þú átt rétt á atvinnuleysisbótum. Krafan er sú að þú hafir skráð þig án atvinnu hjá atvinnuleysistryggingasjóði og til ráðstöfunar á vinnumarkaði hjá vinnumiðlun.

Þú þarft að vera daglega samvistum við barnið, það er að vera í návist þess meðan á orlofinu stendur.

Ráðlegt er að leita upplýsinga hjá vinnumiðlun eða atvinnuleysistryggingasjóði um hvaða reglur gilda um að teljast til ráðstöfunar á vinnumarkaði í tengslum við fæðingarorlof.

Ef þú ert atvinnulaus þarftu að tilkynna atvinnuleysistryggingasjóði þínum um að þú hyggist taka orlof í síðasta lagi 8 vikum eftir fæðingu eða móttöku. Svo biðurðu atvinnuleysistryggingasjóðinn um að fara á vefslóðina virk.dk og tilkynna Udbetaling Danmark að þú takir orlof.

Þegar atvinnuleysistryggingasjóðurinn hefur tilkynnt orlofið færðu rafrænan póst (Digital Post) frá Udbetaling Danmark sem veitir þér aðgang til að sækja um fæðingarorlofsgreiðslur. Þú getur ekki sótt um þær fyrir fram.

Sækja skal um fæðingarorlofsgreiðslur í síðasta lagi 8 vikum eftir móttöku rafræns pósts frá Udbetaling Danmark.

Nánari upplýsingar á vefnum borger.dk.

Ef þú þiggur fjárhagsaðstoð eða atvinnuleysisbætur

Þú átt ekki rétt á fæðingarorlofsgreiðslum ef þú þiggur fjárhagsaðstoð eða atvinnuleysisbætur. Þú átt þó rétt á að halda fjárhagsaðstoðinni eða atvinnuleysisbótunum á meðan á orlofi stendur.

Nánari upplýsingar veitir sveitarfélagið.

Þú getur sótt um að framselja orlofsvikur með rétti til fæðingarorlofsgreiðslna til hins foreldrisins. Ef hitt foreldrið uppfyllir skilyrðin getur það nýtt sér framseldar orlofsvikur.

Nánari upplýsingar um framsal orlofs á borger.dk.

Ef þú stundar nám

Ef þú ert í námi áttu rétt á fæðingarorlofsgreiðslum ef þú ert daglega samvistum við barnið, það er í návist þess meðan á orlofinu stendur og ef einhver eftirfarandi atriða eiga við um aðstæður þínar:

 • Þú ert í sjálfstæðum rekstri eða hefur fast starf með náminu: Þú getur fengið fæðingarorlofsgreiðslur ef þú ert í föstu starfi með náminu og ert í því starfi á fyrsta degi orlofsins eða daginn fyrir það. Þá þarftu að hafa skilað a.m.k. 160 vinnustundum á síðustu fjórum heilu mánuðum áður en orlofið hefst og a.m.k. 40 vinnustundum á mánuði í a.m.k. þrjá mánuði af fjórum. Þú getur einnig fengið fæðingarorlofsgreiðslur ef þú ert í sjálfstæðum rekstri með náminu og hefur unnið í a.m.k. 18,5 tíma á viku í a.m.k. 6 mánuði á undanförnum 12 mánuðum, hefur unnið síðasta mánuðinn áður en orlofið hefst og starfsemin er rekin með hagnaði.
 • Þú ert nemi í launaðri starfsþjálfun: Þú getur fengið fæðingarorlofsgreiðslur ef þú ert nemi í launaðir starfsþjálfun á fyrsta degi orlofsins eða daginn fyrir það. Þú getur því ekki fengið fæðingarorlofsgreiðslur ef fyrsti dagur orlofsins fellur á tímabil þar sem kennsla fer fram hjá menntastofnuninni.
 • Þú ert í leyfi frá námi og skráir þig án atvinnu hjá atvinnutryggingasjóði þínum: Þegar þú tekur þér leyfi frá námi getur þú fengið fæðingarorlofsgreiðslur ef þú hættir að þiggja námsstyrk (SU), skráir þig án atvinnu hjá atvinnuleysistryggingasjóðnum og hjá vinnumiðlun, þ.e. þegar þú öðlast rétt til dagpeninga frá atvinnuleysistryggingasjóðnum. Hafðu í huga að þú þarft að upplýsa menntastofnunina um orlofið til að geta skráð orlofið þegar þú sækir um fæðingarorlofsgreiðslur.

Ef þú stundar nám og færð námsstyrk (SU) geturðu fengið viðbótarnámsstyrk þegar þú eignast barn. Sem foreldri í námi geturðu einnig átt rétt á sérstökum barnabótum. Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk. Á borger.dk er einnig að finna reglur um fæðingarorlofsgreiðslur vegna ættleiðingar.

Ef þú hefur nýlokið námi

Ef þú hefur nýlokið námi áttu rétt á fæðingarorlofsgreiðslum ef þú ert daglega samvistum við barnið, það er í návist þessi á meðan á orlofinu stendur og ef þú uppfyllir eina af eftirfarandi kröfum:

 • Ef þú hefur lokið námi í síðasta mánuði áður en orlof hefst: Þú getur fengið fæðingarorlofsgreiðslur ef þú hefur lokið starfsmiðuðu námi sem var að minnsta kosti 18 mánuðir að lengd minna en mánuði áður en orlofið hefst. Réttur til fæðingarorlofsgreiðslna frá Udbetaling Danmark getur fyrst hafist á þeim degi þegar náminu lýkur. Um verður að vera að ræða starfsmiðað nám sem var að minnsta kosti 18 mánuðir að lengd og veitir annaðhvort rétt til námsstyrks eða fellur undir lög um verkmenntun. Það á ekki við um nám í framhaldsskóla svo sem t.d. hhx og htx.
 • Ef þú hefur lokið námi eftir fæðinguna: Þú getur fengið fæðingarorlofsgreiðslur ef þú lýkur námi eftir fæðinguna og áður en barnið verður 1 árs. Þú þarft þó að vera á skrá hjá atvinnuleysistryggingasjóði og skráð sem reiðubúin til að ráða þig til starfa, þ.e. eiga rétt á atvinnuleysisdagpeningum.

Hvernig sækirðu um?

Ef þú hefur nýlokið námi og ert ekki skráð í atvinnuleysistryggingasjóð skaltu biðja um umsóknareyðublað fyrir fæðingarorlofsgreiðslur hjá Udbetaling Danmark.

Þú fyllir út eyðublaðið og sendir ásamt gögnum í rafpósti (Digital Post) til Udbetaling Danmark.

Ef þú ert skráð í atvinnuleysistryggingasjóð og átt rétt á atvinnuleysisbótum úr sjóðnum þarftu að tilkynna sjóðnum að þú hefjir töku fæðingarorlofs. Mundu að skrá þig án atvinnu hjá atvinnuleysistryggingasjóði og hjá vinnumiðlun.

Udbetaling Danmark berst tilkynning frá atvinnuleysistryggingasjóðnum og sendir þér þá bréf í rafpósti (Digital Post). Þú staðfestir rafrænt að upplýsingar atvinnuleysistryggingasjóðsins séu réttar og sendir um leið gögn til Udbetaling Danmark.

Meðal gagna sem þú sendir Udbetaling Danmark er afrit af prófskírteini eða fyrirframsamþykki leiðbeinanda þíns þar sem fram kemur dagsetning námsloka eða fyrirhugaðra námsloka.

Nánari upplýsingar á borger.dk.

Ef foreldrarnir búa eða starfa hvor í sínu landi

Ef annað foreldrið nýtur danskar sjúkratrygginga en hitt nýtur sjúkratrygginga í öðru norrænu landi á hvort foreldri um sig rétt á fæðingarorlofsgreiðslum í samræmi við reglur viðkomandi lands. Ef foreldrarnir búa saman við fæðingu getur það foreldri sem sjúkratryggt er í Danmörku sótt um allt að 13 vikur af fæðingarorlofsgreiðslum til viðbótar.

Réttur til viðbótarorlofs á við ef umsækjandi getur fært á það sönnur að hitt foreldrið hafi, á þeim tíma sem þú hyggst taka út viðbótarorlofið, sem numið getur allt að 13 vikum, ekki tekið orlof með framfærslugreiðslum frá hinu opinbera (til dæmis fæðingarorlofsgreiðslum) samkvæmt reglum viðkomandi lands, eða hafi ekki í hyggju að taka orlof með framfærslugreiðslum frá hinu opinbera samkvæmt reglum viðkomandi lands.

Fái foreldrarnir framfærslugreiðslur frá hinu opinbera sem samsvara fæðingarorlofsgreiðslum í minna en 13 vikur eru vikurnar dregnar frá viðbótarorlofsvikunum 13.

Hafa ber samband við yfirvöld beggja landanna til þess að fá frekari upplýsingar um hvernig haga megi orlofstökunni og hvaða gögn beri að leggja fram.

Ef þú flytur til Danmerkur áður en orlofið hefst

Ef þú ert ríkisborgari í ESB- eða EES-landi áttu rétt á fæðingarorlofsgreiðslum frá Danmörku ef þú uppfyllir eftirfarandi þrjú skilyrði:

 • Þú þarft að vera ráðin í vinnu í Danmörku á fyrsta degi orlofsins eða daginn áður.
 • Þú þarf að hafa skilað a.m.k. 160 vinnustundum á síðustu fjórum heilu mánuðum áður en orlofstaka hefst.
 • Þú þarft að hafa skilað a.m.k. 40 vinnustundum á mánuði í a.m.k. þrjá mánuði af fjórum.

Þá þarftu að vera daglega samvistum við barnið, það er í návist þess.

Udbetaling Danmark fær sjálfkrafa upplýsingar um vinnuhagi þína þegar tilkynning berst frá atvinnurekanda um greiðslu launa þinna.

Ef þú flytur til Danmerkur þegar minna en fjórir heilir mánuðir eru til töku orlofs, er hægt að telja til vinnustundir þínar fyrir flutninginn ef þú hefur verið í vinnu í öðru ESB-/EES-landi. Þú þarft að senda Udbetaling Danmark gögn sem staðfesta ráðningu, starf og launagreiðslur erlendis, t.a.m. ráðningarsamning og launaseðla.

Ef þú varst ekki ráðin í vinnu fyrir töku orlofsins þarftu að eiga rétt á atvinnuleysisbótum úr dönskum atvinnuleysistryggingasjóði til að eiga rétt á dönskum fæðingarorlofsgreiðslum.

Ef þú flytur til annars norræns land meðan á orlofi stendur

Þú átt rétt á dönskum fæðingarorlofsgreiðslum erlendis ef þú:

 • ferðast eða flyst búferlum til útlanda meðan á orlofi stendur án þess að þú rjúfir orlofstímabilið;
 • starfar í Danmörku en býrð í öðru ESB-/EES-landi og ert aðili að dönskum almannatryggingum og átt rétt á fæðingarorlofsgreiðslum samkvæmt dönskum reglum.

Þú þarft að vera með NemKonto-bankareikning í Danmörku og upplýsa Udbetaling Danmark um heimilisfang þitt og hugsanlega símanúmer til þess að hægt verði að ná í þig erlendis.

Þú átt alla jafna ekki rétt á dönskum fæðingarorlofsgreiðslum ef þú býrð í Danmörku en starfar erlendis. Þá eru það lög starfslandsins um fæðingarorlofsgreiðslur sem eiga við. Ef viðkomandi fær starf erlendis en fær fæðingarorlofsgreiðslur frá Danmörku þarf að hafa samband við Udbetaling Danmark.

Á síðu Info Norden má nálgast nánari upplýsingar um almannatryggingakerfi hvaða lands þú tilheyrir.

Láttu vita ef þú flytur frá Danmörku til útlanda

Ef þú flytur til útlanda með barnið meðan á orlofi stendur og færð aðrar bætur en fæðingarorlofsgreiðslur þarftu að láta viðeigandi yfirvöld vita, t.a.m. Udbetaling Danmark, International Sygesikring eða sveitarfélagið.

Þrátt fyrir að þér sé heimilt að taka fæðingarorlofsgreiðslurnar með þér getur flutningurinn haft áhrif á rétt þinn til t.a.m. fjölskyldubóta (barna- og ungmennabóta, sérstakra barnabóta, fyrirframgreiðslu bóta), sjúkratrygginga, sjúkradagpeninga og bóta vegna vinnuslysa.

Hvar færðu svör við spurningum?

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna