Fæðingarorlofsgreiðslur í Danmörku

Færøske barselsdagpenge
Hér geturðu lesið um danskar reglur um fæðingarorlof og fæðingarorlofsgreiðslur.

Ef þú starfar í Danmörku gilda að jafnaði um þig danskar reglur um fæðingarorlof. Hafðu samband við Udbetaling Danmark ef þú ert í vafa um hvort þú eigir rétt á fæðingarorlofi og fæðingarorlofsgreiðslum samkvæmt dönskum reglum.

  Tilhögun fæðingarorlofs

  Danskt fæðingarorlof með greiðslum skiptist í fjóra hluta:

  • Meðgönguorlof móður í 4 vikur fyrir áætlaðan fæðingardag;
  • Fæðingarorlof móður í 14 vikur eftir fæðingu;
  • Feðraorlof föður eða hinnar móðurinnar í 2 vikur eftir fæðingu eða áður en barnið er orðið 14 vikna eftir samkomulagi við atvinnurekanda;
  • Foreldraorlof í 32 vikur sem foreldrarnir geta skipt á milli sín.

  Ef þú en ekki hitt foreldrið átt rétt á fæðingarorlofsgreiðslum frá Danmörku er meginreglan sú að þú eigir rétt á 16 vikna fæðingarorlofi með greiðslum. Þó geturðu átt rétt á greiðslum allar 32 vikurnar ef þú býrð ein með barnið eða ef þið getið vottað að hitt foreldrið þiggi ekki greiðslur frá öðru landi á sama tímabili.

  Nánari upplýsingar um fæðingarorlofsreglur fyrir ESB-/EES-borgara sem flytja til Danmerkur er að finna á vefslóðinni borger.dk.

  Áttu rétt á fæðingarorlofsgreiðslu vegna meðgöngu, fæðingar eða ættleiðingar?

  Launþegar

  Ef þú ert launaður starfsmaður geturðu átt rétt á fæðingarorlofsgreiðslum ef þú uppfyllir eftirfarandi kröfur um atvinnuþátttöku:

  • Þú þarft að vera ráðin í vinnu eigi síðar en daginn áður en taka fæðingarorlofs hefst eða á fyrsta degi orlofs.
  • Þú þarft að hafa skilað a.m.k. 160 vinnustundum á síðustu fjórum heilu mánuðum áður en orlofstaka hefst.
  • Þú þarft að hafa skilað a.m.k. 40 vinnustundum á mánuði í a.m.k. þrjá mánuði af fjórum.

  Þá þarftu að vera daglega samvistum við barnið, þ.e. vera í návist þess meðan á fæðingarorlofinu stendur.

  Udbetaling Danmark fær sjálfkrafa upplýsingar um vinnuhagi þína þegar tilkynningar atvinnurekanda berast um greiðslu launa þinna.

  Ef þú ert á fullum launum á hluta orlofstímabilsins þarftu ekki að sækja um fæðingarorlofsgreiðslur fyrr en launagreiðslum atvinnurekanda lýkur. Þú getur einnig sótt um fæðingarorlofsgreiðslur ef hluti launa fellur niður í orlofinu vegna þess að í sumum tilvikum áttu rétt á fæðingarorlofsgreiðslum til viðbótar við laun.

  Ef þú ert á fullum launum á öllu fæðingarorlofstímabilinu áttu ekki að sækja um fæðingarorlofsgreiðslur.

  Ef þú ert í vafa um hvaða reglur gilda um þig geturðu beðið um upplýsingar um hvaða reglur gilda samkvæmt kjarasamningi hjá atvinnurekandanum eða stéttarfélagi þínu.

  Hvernig er sótt um?

  Ef þú ert launþegi biðurðu atvinnurekandann um að fara á vefslóðina virk.dk/barseldagpenge og tilkynna Udbetaling Danmark að þú takir orlof.

  Þegar atvinnurekandinn hefur tilkynnt orlofið færðu rafrænan póst (Digital Post) frá Udbetaling Danmark sem veitir þér aðgang til að sækja um fæðingarorlofsgreiðslur. Þú getur ekki sótt um þær fyrir fram.

  Ef um fleiri en einn atvinnurekanda er að ræða þarftu að láta þá alla vita.

  Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk. Þar má einnig lesa um orlof vegna ættleiðingar og möguleika á að framlengja fæðingarorlof eða fresta hluta þess.

  Hafðu í huga að aðrar reglur gilda um greiðslur ef þú hófst töku fæðingarorlofsins fyrr en 1. júlí 2018. Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk.

  Ef þú ert sjálfstætt starfandi

  Ef þú ert sjálfstætt starfandi áttu rétt á fæðingarorlofsgreiðslum ef þú uppfyllir eftirfarandi fimm skilyrði:

  • Þú hefur unnið í a.m.k. 6 mánuði á undanförnum 12 mánuðum;
  • Þú hefur unnið síðasta mánuðinn áður en þú hefur töku fæðingarorlofs;
  • Atvinnurekstur þinn skilar hagnaði;
  • Þú hefur unnið a.m.k. hálft starf (18,5 klst. á viku) í fyrirtæki þínu;
  • Þú ert daglega samvistum við barnið meðan á fæðingarorlofi stendur.

  Ef þú hefur starfað sjálfstætt skemur en í 6 mánuði geturðu bætt við tímabilum þar sem þú varst launaður starfsmaður hjá öðrum.

  Til vinnu teljast þó ekki tímabil þar sem þú hefur fengið sjúkradagpeninga, fæðingarorlofsgreiðslur eða sambærilegar bætur.

  Ef þú er ráðin hjá þínu eigin hlutafélagi, ApS eða A/S, telstu starfsmaður en ekki sjálfstætt starfandi. Sjá kaflann „Launafólk“.

  Þú sækir um fæðingarorlofsgreiðslur hjá Udbetaling Danmark á vefslóðinni virk.dk. Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk. Þar má einnig lesa um orlof vegna ættleiðingar og möguleika á að framlengja fæðingarorlof eða fresta hluta þess.

  Ef þú ert atvinnulaus

  Ef þú ert skráð í atvinnuleysistryggingasjóð

  Þú átt rétt á fæðingarorlofsgreiðslum ef þú átt rétt á atvinnuleysisbótum. Krafan er sú að þú hafir skráð þig án atvinnu hjá atvinnuleysistryggingasjóði og til ráðstöfunar á vinnumarkaði hjá vinnumiðlun.

  Þú þarft að vera daglega samvistum við barnið, það er að vera í návist þess meðan á orlofinu stendur.

  Ráðlegt er að leita upplýsinga hjá vinnumiðlun eða atvinnuleysistryggingasjóði um hvaða reglur gilda um að teljast til ráðstöfunar á vinnumarkaði í tengslum við fæðingarorlof.

  Nánari upplýsingar á vefnum borger.dk.

  Ef þú þiggur fjárhagsaðstoð eða atvinnuleysisbætur

  Þú átt ekki rétt á fæðingarorlofsgreiðslum ef þú þiggur fjárhagsaðstoð eða atvinnuleysisbætur. Þú átt þó rétt á að halda fjárhagsaðstoðinni eða atvinnuleysisbótunum á meðan á fæðingarorlofi stendur.

  Nánari upplýsingar veitir sveitarfélagið.

  Nánari upplýsingar á vefnum borger.dk.

  Ef þú stundar nám

  Ef þú ert í námi áttu rétt á fæðingarorlofsgreiðslum ef þú ert daglega samvistum við barnið, það er í návist þess meðan á orlofinu stendur og ef einhver eftirfarandi atriða eiga við um aðstæður þínar:

  • Þú þarft að vera ráðin í vinnu eigi síðar en daginn áður en taka fæðingarorlofs hefst eða á fyrsta degi orlofs. Þá þarftu að hafa skilað a.m.k. 160 vinnustundum á síðustu fjórum heilu mánuðum áður en orlofið hefst og a.m.k. 40 vinnustundum á mánuði í a.m.k. þrjá mánuði af fjórum;
  • Þú ert í launaðri starfsþjálfun sem hluta af náminu. Nánari upplýsingar í kaflanum „Launafólk“.
  • Þú tekur þér leyfi frá námi, hættir að þiggja námsstyrk (SU), skráir þig án atvinnu hjá atvinnuleysistryggingasjóðnum og hjá vinnumiðlun að þú sért til ráðstöfunar á vinnumarkaði þá áttu rétt á atvinnuleysisbótum. Nánari upplýsingar í kaflanum „Ef þú ert atvinnulaus“.

  Ef þú stundar nám og færð námsstyrk (SU) geturðu fengið viðbótarnámsstyrk þegar þú eignast barn. Sem foreldri í námi geturðu einnig átt rétt á sérstökum barnabótum. Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk. Á borger.dk er einnig að finna reglur um fæðingarorlofsgreiðslur vegna ættleiðingar.

  Ef þú hefur nýlokið námi

  Ef þú hefur nýlokið námi áttu rétt á fæðingarorlofsgreiðslum ef þú ert daglega samvistum við barnið, það er í návist þessi á meðan á orlofinu stendur og ef þú uppfyllir eina af eftirfarandi kröfum:

  • Ef þú ert móðirin þarftu að hafa nýlokið a.m.k. 18 mánaða löngu starfsmiðuðu námi í síðasta mánuði fyrir fæðingu eða þar til þú hefur töku orlofs ef þú ert hitt foreldrið; Námið sem um ræðir þarf að vera réttindanám;
  • Þú lýkur námi eftir fæðingu en áður en liðnar eru 46 vikur frá fæðingu; Þú þarft jafnframt að skrá þig án atvinnu hjá atvinnuleysistryggingasjóði, vera til ráðstöfunar á vinnumarkaði og eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Nánari upplýsingar í kaflanum „Ef þú ert atvinnulaus“.

  Hafðu í huga að þú getur ekki tekið fæðingarorlof eftir að barnið er orðið 46 vikna.

  Hvernig er sótt um?

  Ef þú hefur nýlokið námi og ert ekki skráð í atvinnuleysistryggingasjóð skaltu biðja um umsóknareyðublað fyrir fæðingarorlofsgreiðslur hjá Udbetaling Danmark.

  Þú fyllir út eyðublaðið og sendir ásamt gögnum í rafpósti (Digital Post) til Udbetaling Danmark.

  Ef þú ert skráð í atvinnuleysistryggingasjóð og átt rétt á atvinnuleysisbótum úr sjóðnum þarftu að tilkynna sjóðnum að þú hefjir töku fæðingarorlofs. Mundu að skrá þig án atvinnu hjá atvinnuleysistryggingasjóði og og til ráðstöfunar á vinnumarkaði hjá vinnumiðlun.

  Udbetaling Danmark berst tilkynning frá atvinnuleysistryggingasjóðnum og sendir þér þá bréf í rafpósti (Digital Post). Þú staðfestir rafrænt að upplýsingar atvinnuleysistryggingasjóðsins séu réttar og sendir um leið gögn til Udbetaling Danmark.

  Meðal gagna sem þú sendir Udbetaling Danmark er afrit af prófskírteini eða fyrirframsamþykki leiðbeinanda þíns þar sem fram kemur dagsetning námsloka eða fyrirhugaðra námsloka.

  Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk.

  Ef þú flytur til Danmerkur áður en orlofið hefst

  Ef þú ert ríkisborgari í ESB- eða EES-landi áttu rétt á dönskum fæðingarorlofsgreiðslum ef þú uppfyllir eftirfarandi þrenn skilyrði:

  • Þú þarft að vera ráðin í vinnu í Danmörku á fyrsta degi orlofsins eða daginn áður;
  • Þú þarf að hafa skilað a.m.k. 160 vinnustundum á síðustu fjórum heilu mánuðum áður en orlofstaka hefst;
  • Þú þarft að hafa skilað a.m.k. 40 vinnustundum á mánuði í a.m.k. þrjá mánuði af fjórum.

  Þá þarftu að vera daglega samvistum við barnið, það er í návist þess.

  Udbetaling Danmark fær sjálfkrafa upplýsingar um vinnuhagi þína þegar tilkynning berst frá atvinnurekanda um greiðslu launa þinna.

  Ef þú flytur til Danmerkur þegar minna en fjórir heilir mánuðir eru til töku orlofs, er hægt að telja til vinnustundir þínar fyrir flutninginn ef þú hefur verið í vinnu í öðru ESB/EES-landi. Þú þarft að senda Udbetaling Danmark gögn sem staðfesta ráðningu, starf og launagreiðslur erlendis, t.a.m. ráðningarsamning og launaseðla.

   Ef þú varst ekki ráðin í vinnu fyrir töku orlofsins þarftu að eiga rétt á atvinnuleysisbótum úr dönskum atvinnuleysistryggingasjóði til að eiga rétt á dönskum fæðingarorlofsgreiðslum.

   Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk.

    Ef þú flytur til annars norræns land meðan á orlofi stendur

    Þú átt rétt á fæðingarorlofsgreiðslum erlendis ef þú:

    • ferðast eða flytur búferlum til útlanda meðan á orlofi stendur án þess að þú rjúfir orlofstímabilið;
    • starfar í Danmörku en býrð í öðru ESB/EES-landi og ert aðili að dönskum almannatryggingum og átt rétt á fæðingarorlofsgreiðslum samkvæmt dönskum reglum.

    Þú þarft að vera með NemKonto-bankareikning í Danmörku og upplýsa Udbetaling Danmark um heimilisfang þitt og hugsanlega símanúmer til þess að hægt verði að ná í þig erlendis.

    Þú átt ekki rétt á fæðingarorlofsgreiðslum ef þú býrð í Danmörku en starfar erlendis. Þá eru það lög starfslandsins um fæðingarorlofsgreiðslur sem eiga við.

    Þú verður að tilkynna flutning úr landi

    Ef þú flytur til útlanda með barnið meðan á orlofi stendur og færð aðrar bætur en fæðingarorlofsgreiðslur þarftu að láta viðeigandi yfirvöld vita, t.a.m. Udbetaling Danmark, International Sygesikring eða sveitarfélagið.

    Þrátt fyrir að þér sé heimilt að taka fæðingarorlofsgreiðslurnar með þér getur flutningurinn haft áhrif á rétt þinn til t.a.m. fjölskyldubóta (barna- og ungmennabóta, sérstakra barnabóta, fyrirframgreiðslu bóta). Flutningur úr landi getur einnig haft áhrif á aðrar bætur, t.a.m. sjúkratryggingar, sjúkradagpeninga og bætur vegna vinnuslyss.

    Hvert er hægt að snúa sér með spurningar?

    Samband við yfirvöld
    Spurning til Info Norden

    Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

    ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

    Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
    Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna