Finnskt ríkisfang

Kansalaisuus Suomessa
Hér er fjallað um ríkisfang í Finnlandi sem ýmist er veitt við fæðingu eða í kjölfar skriflegrar tilkynningar eða umsóknar. Einnig er sagt frá réttindum og skyldum finnskra ríkisborgara svo og tvöföldu ríkisfangi.

Hægt er að öðlast finnskt ríkisfang við fæðingu eða með því að senda inn skriflega tilkynningu eða umsókn. Í finnsku ríkisfangslögunum er kveðið á um þau skilyrði sem sett eru í tengslum við ríkisfang. Í lögunum er einnig kveðið á um réttindi og skyldur finnskra ríkisborgara.

Finnska stofnunin um málefni innflytjenda tekur ákvarðanir um það á grundvelli ríkisfangslaganna hverjir fá ríkisborgararétt í Finnlandi, halda honum eða missa hann.

Ríkisborgararéttur við fæðingu

Barn hlýtur sjálfkrafa finnskt ríkisfang við fæðingu sé móðirin finnskur ríkisborgari eða ef faðirinn er finnskur ríkisborgari og giftur móðurinni. Barn fær einnig finnskt ríkisfang ef það fæðist í Finnlandi, faðir þess er ríkisborgari við fæðingu barnsins og barnið hefur verið feðrað.

Þegar finnskur faðir og móðir af öðru þjóðerni eignast barn utan hjónabands í öðru landi en Finnlandi fær barnið finnskan ríkisborgararétt að því gefnu að finnsk yfirvöld telji barnið hafa verið feðrað með fullnægjandi hætti.

Finnskt ríkisfang á grundvelli tilkynningar

Eftirtaldir geta fengið ríkisborgararétt með því að senda inn tilkynningu:

  • fyrrum ríkisborgarar Finnlands
  • ríkisborgarar annarra norrænna ríkja
  • börn fædd í öðru landi utan hjónabands, ef faðirinn er finnskur eða ef móðirin fæddi barnið ekki sjálf
  • 12–17 ára ættleidd börn
  • 18–22 ára ungmenni, sem búið hafa nægilega lengi í Finnlandi

Ríkisborgarar Íslands, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur sem náð hafa 18 ára aldri geta fengið ríkisfang í Finnlandi með því að senda inn tilkynningu, hafi þeir haft fasta búsetu í Finnlandi í fimm ár samfleytt og ekki verið dæmdir til fangelsisvistar á þeim tíma.

Norrænir ríkisborgarar sem ekki uppfylla öll skilyrði til að sækja um ríkisfang, eða sem vilja fá ríkisfang í Finnlandi eftir aðeins tveggja ára búsetu þar, geta sent inn umsókn um ríkisfang.

Einstaklingur sem hefur haft finnskt ríkisfang og misst það getur fengið það aftur með einfaldri tilkynningu, án tillits til búsetu í Finnlandi.

Finnskt ríkisfang á grundvelli umsóknar

Hægt er að veita erlendum borgara finnskt ríkisfang á grundvelli innsendrar umsóknar ef umsækjandi er orðinn 18 ára og hefur haft fasta búsetu í Finnlandi annað hvort undanfarin fimm ár samfleytt eða í sjö ár eftir fimmtán ára aldur, þar af undanfarin tvö ár samfleytt. Sýni umsækjandi fram á fullnægjandi kunnáttu í finnsku eða sænsku getur hann fengið ríkisfang að lokinni fjögurra ára búsetu í Finnlandi.

Þetta er þó að því gefnu að umsækjandinn hafi ekki gerst sekur um refsivert athæfi, vanrækt framfærsluskyldu sína eða vanrækt að greiða opinber gjöld. Auk þess þarf umsækjandi að sýna fram á að hann geti séð sér farborða og sanna að hann búi yfir nægilega góðri munnlegri og skriflegri færni í annað hvort finnsku eða sænsku, eða að öðrum kosti í finnsku eða finnlandssænsku táknmáli.

Hægt er að gera undantekningar frá almennum skilyrðum fyrir veitingu ríkisfangs vegna vissra kringumstæðna, sem lesa má um á vefsvæði finnsku stofnunarinnar um málefni innflytjenda (Maahanmuuttovirasto).

Tvöfalt ríkisfang

Tvöfalt ríkisfang er löglegt í Finnlandi. Það þýðir að finnskir ríkisborgarar halda ríkisfangi sínu þó að þeir fái ríkisfang í öðru landi. Borgarar annarra norrænna ríkja halda einnig ríkisfangi sínu í heimalandinu þó að þeir fái finnskt ríkisfang.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna