Þarf ég vegabréf til að ferðast til Finnlands?

Tarvitsenko passia matkustaessani Suomeen?
Photographer
Uno Raamat on Unsplash
Á þessari síðu finnur þú upplýsingar um hvort þú þarft vegabréf til að ferðast til Finnlands sem borgari norræns ríkis, ESB- eða Schengen-lands eða einhvers annars lands.

Borgarar norrænna ríkja geta ferðast til Finnlands án vegabréfs. Borgarar ESB- og Schengen-landa þurfa vegabréf eða persónuskilríki frá sínu landi til að ferðast til Finnlands. Borgarar annarra landa þurfa vegabréf og í sumum tilvikum líka vegabréfsáritun eða dvalarleyfi til að ferðast til Finnlands.

Borgarar norrænna ríkja

Borgarar norrænna ríkja þurfa ekki vegabréf til að ferðast milli norrænna landa. Borgarar norrænna ríkja geta því dvalið á Norðurlöndum og ferðast um án ferðaskilríkja. Kynntu þér norræna vegabréfaskoðunarsamninginn.

Þó að þú getir ferðast til Finnlands án vegabréfs verður þú samt að geta sannað deili á þér ef þess er krafist. Lönd geta líka tekið upp tímabundið landamæraeftirlit hvenær sem er og þá munt þú þurfa að framvísa persónuskilríkjum til að ferðast yfir landamæri. Í sumum tilvikum nægir ökuskírteini til þess.

Ef þú ferðast til Finnlands í t.d. flugvél eða með ferju skaltu kynna þér hvers konar skilríkja er krafist af fyrirtækinu sem þú ferðast með.

Ef þú ferðast frá norrænu landi til lands utan Norðurlanda, eða frá landi utan Norðurlanda til norræns lands, þarftu annaðhvort að hafa gilt vegabréf eða önnur ferðaskilríki. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnska landamæraeftirlitsins.

Ríkisborgarar landa innan ESB og Schengen

Ef þú ert borgari lands innan ESB eða Schengen-svæðisins þarft þú að hafa meðferðis vegabréf eða nafnskírteini útgefið af yfirvöldum í þínu landi þegar þú ferðast til Finnlands. Börn þurfa líka að hafa sitt eigið vegabréf eða nafnskírteini.

Þegar þú ferð yfir landamæri innan Schengen-svæðisins þarft þú yfirleitt ekki að framvísa ferðaskilríkjum. Lönd geta þó tekið upp tímabundið landamæraeftirlit hvenær sem er og þá munt þú þarfa að framvísa gildu vegabréfi eða nafnskírteini til að ferðast yfir landamæri.

Ef þú ferðast til lands innan ESB eða Schengen frá landi sem er utan þessara svæða þarft þú að hafa gilt vegabréf meðferðis. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnska landamæraeftirlitsins og á síðunni Your Europe.

Borgarar annarra ríkja

Ef þú ert hvorki borgari norræns lands né lands innan ESB eða Schengen þarft þú vegabréf þegar þú ferðast til Finnlands. Ef þú ert borgari lands þar sem þarf ekki vegabréfsáritun til að ferðast til Finnlands þarftu ekki að hafa vegabréfsáritun. Þú getur dvalið í Finnlandi í 90 daga án vegabréfsáritunar eða dvalarleyfis. Ef þú ert borgari lands þar sem þarf vegabréfsáritun til að ferðast til Finnlands þarftu að hafa vegabréfsáritun eða dvalarleyfi, auk þess að hafa gilt vegabréf. Þú getur dvalið í Finnlandi í 90 daga án dvalarleyfis, en þarft að hafa vegabréfsáritun.

Vegabréf þitt verður að vera í gildi í að minnsta kosti þrjá mánuði eftir að dvöl þinni í Finnlandi lýkur. Vegabréfið má ekki hafa verið gefið út fyrir meira en 10 árum síðan. Ef þú hefur dvalarleyfi í Finnlandi eiga þessi tímamörk ekki við um þig. Þá nægir að bæði vegabréfið þitt og dvalarleyfið séu í gildi.

Hafir þú dvalarleyfi í Finnlandi getur þú ferðast á Schengen-svæðinu án vegabréfsáritunar í að hámarki 90 daga á 180 daga tímabili. Þú þarft að hafa vegabréfið þitt og dvalarleyfiskortið meðferðis á ferðum þínum. Ef þú hefur dvalarleyfi í öðru landi innan Schengen getur þú notað það til að ferðast til Finnlands án vegabréfsáritunar í 90 daga á 180 daga tímabili. Þessi tímamörk gilda ekki bara um dvöl í einu landi heldur um samanlagða dvöl á öllu Schengen-svæðinu. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnsku stofnunarinnar um málefni innflytjenda (Maahanmuuttovirasto)).

Hafir þú bráðabirgðavegabréf, útgefið af yfirvöldum, eða ferðaskilríki flóttamanns skaltu lesa leiðbeiningar um ferðalög á vefsvæði finnsku stofnunarinnar um málefni innflytjenda.

Nánari upplýsingar um vegabréfsáritanir eru á vefsvæði finnska utanríkisráðuneytisins og upplýsingar um dvalarleyfi eru á vefsvæði finnsku stofnunarinnar um málefni innflytjenda.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna