Rafræn auðkenning í Finnlandi

People using phones
Ljósmyndari
Camilo Jimenez/Unsplash
Á þessari síðu finnur þú upplýsingar um leiðir til að auðkenna sig rafrænt í Finnlandi.

Með rafrænni auðkenningu getur þú staðfest deili á þér á hinum ýmsu rafrænu þjónustusíðum, svo sem á þjónustusíðu almannatryggingastofnunarinnar Kela og skattstjóra í Finnlandi, og einnig þegar þú verslar á netinu. Í Finnlandi geta einstaklingar notað eftirfarandi aðferðir til rafrænnar auðkenningar: netbankaauðkenni, borgaraauðkenni eða farsímaauðkenni. Útlendingar í Finnlandi geta skráð sig inn á sumar finnskar þjónustusíður með eIDAS-auðkenningu eða Finnish Authenticator-auðkennisþjónustunni.

Rafrænar auðkenningarleiðir í Finnlandi

Í Finnlandi geta einstaklingar notað eftirfarandi aðferðir til rafrænnar auðkenningar: netbankaauðkenni, borgaraauðkenni eða farsímaauðkenni. Hér fyrir neðan eru nánari upplýsingar um það hvort þú getur fengið rafrænt auðkenni í Finnlandi.

Netbankaauðkenni

Skilyrði fyrir því að fá finnskt netbankauðkenni eru mismunandi eftir bönkum. Skilyrði fyrir útgáfu netbankaauðkennis eru þrengri en skilyrðin fyrir því að opna bankareikning, því að bankanum ber þá lagaleg skylda til að ganga úr skugga um að viðskiptavinir séu þeir sem þeir segjast vera. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði FINE.

Nánari upplýsingar um þjónustu banka í Finnlandi eru á síðunni Bankareikningur í Finnlandi.

Borgaraauðkenni

Borgaraauðkenni er innifalið í nafnskírteinum sem gefin eru út af finnsku lögreglunni. Borgaraauðkennið er í örflögu í nafnskírteininu. Með borgaraauðkenninu getur þú auðkennt þig á rafrænum þjónustusíðum hins opinbera og undirritað skjöl rafrænt. Nauðsynlegt er að virkja borgaraauðkennið í nafnskírteininu áður en þú getur notað auðkennið í rafrænum erindum. Ef þú vilt ekki nota nafnskírteinið þitt í slíkum tilgangi þarft þú ekki að virkja borgaraauðkennið.

Borgaraauðkenni er í boði fyrir finnska ríkisborgara eða þá erlendu ríkisborgara sem hafa fast búsetusveitarfélag í Finnlandi, samkvæmt finnskum lögum um búsetusveitarfélög, eru skráðir í finnsku þjóðskrána og hafa staðfest deili á sér með áreiðanlegum hætti. Ef þú ert finnskur ríkisborgari sem býr í öðru landi getur þú sótt um nafnskírteini í sendiráði Finnlands í búsetulandi þínu.

Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnsku stofnunarinnar um stafræna væðingu og lýðfræðigögn.

Farsímaauðkenni

Finnsk farsímafyrirtæki bjóða viðskiptavinum sínum möguleika á auðkenningu gegnum farsímann. Farsímaauðkenning er möguleg með öllum gerðum farsíma, en til að sterk auðkenning sé möguleg þarf sérstakt farsímaauðkenni sem virkjað er í SIM-korti farsímans og notað sem rafrænt auðkenni.

Skilyrði fyrir því að fá farsímaauðkenni er að hægt sé að staðfesta deili á notandanum með áreiðanlegum hætti. Einnig þarf notandinn að hafa finnska kennitölu, auk SIM-korts sem styður notkun farsímaauðkennis.

Ef þú vilt virkja farsímauðkenningu í finnska SIM-kortinu þínu skaltu hafa samband við farsímafyrirtækið. Þú færð nánari upplýsingar hjá farsímafyrirtækinu þínu. Kynntu þér málið betur á síðunum Suomi.fi og Mobiilivarmenne.fi.

Auðkenning erlendra ríkisborgara í Finnlandi

Útlendingar í Finnlandi geta skráð sig inn á sumar finnskar þjónustusíður með eIDAS-auðkenningu eða Finnish Authenticator-auðkenningarþjónustunni.

Auðkenning með eIDAS

Samkvæmt eIDAS-reglugerðinni verða allir þjónustuveitendur opinberra rafrænna þjónustuleiða í löndum ESB að samþykkja rafrænar auðkenningarleiðir allra hinna landanna innan ESB. Það þýðir að þú getur auðkennt þig rafrænt á þjónustusíðum hins opinbera í Finnlandi ef þú hefur virka rafræna auðkenningarleið sem er viðurkennd í öðru ESB-landi.

Á síðunni Suomi.fi finnur þú lista yfir lönd hverra auðkenningarleiðir er hægt að nota í Finnlandi. Nánari upplýsingar um auðkenningarleiðir eIDAS eru á vefsvæði finnsku stofnunarinnar um stafræna væðingu og lýðfræðigögn.

Auðkenningarþjónustan Finnish Authenticator

Finnish Authenticator er auðkenningarþjónusta fyrir borgara annarra landa í Finnlandi. Hún gerir þér kleift að auðkenna þig á þjónustusíðum hins opinbera í Finnlandi. Þjónustan er á ensku. Finnish Authenticator er smáforrit sem hægt er að sækja í snjallsíma. Smáforritið er aðeins hægt að nota til auðkenningar á þjónustusíðum sem hafa samþykkt það sem auðkenningarleið.

Þjónustan er ætluð fólki sem hefur ekki finnska kennitölu og hefur náð 18 ára aldri. Með hjálp þjónustunnar má sinna erindum á finnskum þjónustusíðum sem krefjast auðkenningar. Þjónustan auðveldar málin fyrir fólk sem hefur ekki finnska kennitölu og getur ekki heimsótt stofnanir í eigin persónu. Einnig má nýta þjónustuna til að sinna erindum fyrir hönd félagasamtaka og fyrirtækja.

Ef þú þarft stuðning til þess að taka í notkun eða nota Finnish Authenticator skaltu hafa samband við finnsku stofnunina um stafræna væðingu og lýðfræðigögn (Digi- ja väestötietovirasto).

Nánari upplýsingar um þjónustuleiðina Finnish Authenticator eru á vefsvæði finnsku stofnunarinnar um stafræna væðingu og lýðfræðigögn.

Rafræn auðkenning í öðrum norrænum löndum

Á síðunum hér fyrir neðan finnur þú upplýsingar um rafræna auðkenningu í öðrum norrænum löndum.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna