Finnsk kennitala

Kennitala er auðkenni sem einkennir borgara lands með nákvæmari hætti en nafn þeirra. Finnsk kennitala er veitt til frambúðar, en þau sem dvelja tímabundið í Finnlandi geta þó einnig fengið hana í vissum tilvikum.
Þó að einstaklingur fái finnska kennitölu hefur það ekki áhrif á kennitölur hans í öðrum löndum. Finnsku kennitöluna skal nota í Finnlandi en kennitölur annarra landa í viðkomandi landi.
Kennitala til lengri tíma
Flytjir þú til Finnlands til lengri tíma færðu finnska kennitölu þegar þú mætir í útibú stofnunarinnar um stafræna væðingu og lýðfræðigögn (Digi- ja väestötietovirasto) til að tilkynna flutningana. Nánari upplýsingar um að tilkynna flutninga eru á síðunni Að tilkynna flutninga og skrá sig í þjóðskrá í Finnlandi, í kaflanum „Flutt til lengri tíma“.
Kennitala þegar dvalið er tímabundið í Finnlandi
Í vissum tilvikum getur þú fengið finnska kennitölu þótt þú dveljir aðeins tímabundið í landinu. Það er þó aðeins að því gefnu að finnsk yfirvöld þurfi að nota kennitöluna, til dæmis vegna skattamála. Þá þarft þú að skrá þig í eigin persónu í í útibúi stofnunarinnar um stafræna væðingu og lýðfræðigögn (Digi- ja väestötietovirasto), útibúi finnska skattstjórans (Verohallinto) eða hjá finnsku stofnuninni um málefni innflytjenda (Maahanmuuttovirasto) í tengslum við umsókn um dvalarleyfi.
Nánari upplýsingar um að tilkynna flutninga til skemmri tíma eru á síðunni Að tilkynna flutninga og skrá sig í þjóðskrá í Finnlandi. Nánari upplýsingar um kennitölur útgefnar af skattstjóra eru á vefsvæði finnskra skattyfirvalda.
Nánari upplýsingar
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.