Flutningur frá Svíþjóð

Það er að mörgu að huga þegar þarf að skipuleggja flutninga. Ef flutningurinn er á milli landa, er að enn fleiru að huga. Þegar flutt er frá Svíþjóð, eru það ekki aðeins stofnanapláss, almenningssamgöngur og verslunarmöguleikar sem þarf að taka afstöðu til.
Þessi minnislisti fer yfir það sem þarf að hafa í huga við flutninga frá Svíþjóð til annars norræns ríkis.
Ef einstaklingur flytur til annars norræns ríkis segja reglur í því ríki til um hvort nauðsynlegt er að viðkomandi skrái sig sem innflytjanda.
Einnig skal tilkynna um flutning til skattstofu í síðasta lagi viku fyrir brottför. Viðkomandi er ekki tekinn af þjóðskrá í Svíþjóð fyrr en það ríki sem flutt er til ákveður hvort hann skuli vera skráður í þjóðskrá þar.
Mikilvægt er að muna að láta áframsenda póst á nýtt heimilisfang í öðru landi eða til ættingja í Svíþjóð og tilkynna nýtt heimilisfang til banka og annarra stofnana.
Einstaklingur sem flytur til útlanda vegna starfs og á ekki lengur lögheimili í Svíþjóð, er heldur ekki skráður í þjóðskrá þar. Þar með falla almannatryggingar í Svíþjóð einnig úr gildi. Einstaklingurinn er þá ekki heldur almannatryggður þegar hann er til dæmis í fríi í Svíþjóð.
Ef kona er þunguð skal hún kynna sér vel reglur um fæðingarorlof áður en hún flytur. Því skal hafa samband við Försekringskassan (sænsku tryggingastofnunina) til að fá upplýsingar um hvaða reglur gilda fyrir viðkomandi og hvort hægt er að flytja fæðingarorlofsrétt með sér úr landi.
Einstaklingur getur verið að fullu skattskyldur í Svíþjóð þótt hann flytji úr landi. Það á við þegar viðkomandi hefur verið búsettur í Svíþjóð og haft mikil tengsl við landið.
Þegar einstaklingur flytur frá einu landi til annars ber honum að tryggja að hann geti séð fyrir sér fyrstu vikur eða mánuði. Hafa ber í huga að oft þarf að greiða tryggingu vegna leiguíbúðar og að nokkurn tíma getur tekið að afgreiða umsóknir til dæmis um húsaleigu- eða barnabætur.
Ef viðkomandi fær greiðslur frá almannatryggingakerfinu skal hann hafa samband við Försäkringskassan áður en flutt er.
Þegar flutt er frá Svíþjóð er ráðlegt að hafa samband við bankann til þess að loka reikningum, breyta heimilisfangi á reikningum eða greiða upp lán.
Einnig getur komið sér vel að hafa meðferðis bréf eða nokkurs konar meðmæli frá bankanum til þess að framvísa þegar bankaviðskipti hefjast í nýju landi.
Uppsögn á leigusamningi
Leigjendur þurfa að segja upp leigusamningi sínum skriflega. Upplýsingar um uppsagnarfrest er að finna í leigusamningi.
Munið að leigjandi ber ábyrgð á íbúðinni á meðan á leigutíma stendur. Ef flutt er áður en leigutími rennur út, skal sjá til þess að leigusamningur verði ógiltur.
Kannið tryggingamál
Það getur verið góð hugmynd að fara í gegnum persónulegar tryggingar í tengslum við flutning milli landa. Hafi einstaklingur selt íbúð skal hann sjá til þess að hún sé tryggð þar til afhending fer fram. Tryggingafélög veita nánari upplýsingar um þetta.
Auk þess skal hafa samband við tryggingafélag og fá upplýsingar um hvaða reglur gilda um flutning úr landi og uppsagnarfrest.
Við afhendingu á íbúð
Hvort sem flutt er úr er leiguíbúð eða búseturéttaríbúð (bostadsrett) skulu sá sem flytur og eigandi/leigusali koma sér saman um afhendingu lykla, annars búnaðar og hugsanlegar notkunarleiðbeiningar.
Athuga skal tollareglur ef einstaklingur ætlar að hafa búslóð meðferðis til Íslands eða Noregs.
Farið yfir allar áskriftir og segið þeim upp eða flytjið á nýtt heimilisfang. Munið að segja upp áskrift að rafmagni svo ekki þurfi að greiða fyrir rafmagnsnotkun annarra. Ekki má heldur gleyma að segja upp öðrum áskriftum eins og að síma, breiðbandi, líkamsrækt og dagblöðum.
Starfsleyfi
Kanna skal hvort nauðsynlegt er að sækja um starfsleyfi eða önnur leyfi í þeim geira sem viðkomandi hyggst starfa í nýja landinu. Umsóknarferlið getur tekið langan tíma svo gott er að sækja um með góðum fyrirvara.
Stéttarfélag
Ef einstaklingur er aðili að stéttarfélagi í Svíþjóð er góð hugmynd að hafa samband við skrifstofu þess áður en flutt er til annars norræns ríkis. Þar eru hægt að fá gagnlegar upplýsingar og upplýsingar um hvaða stéttarfélag viðkomandi skal vera aðili að í því landi sem flutt er til.
Atvinnuleysistryggingasjóðir og dagpeningar
Þegar fólk hyggst flytja frá Svíþjóð til annars norræns ríkis getur það flutt áunninn dagpeningarétt með sér.
Ef einstaklingur hefur verið skráður í sænskan atvinnuleysistryggingasjóð getur hann yfirfært trygginga- og starfstímabil sín frá Svíþjóð til atvinnuleysistryggingasjóðs í öðru norrænu ríki.
Það tímabil sem hann hefur verið tryggður í sænskum atvinnuleysistryggingasjóði verður því reiknað með þegar metinn er réttur til dagpeninga í öðru norrænu ríki. Vilji einstaklingur fá trygginga- og starfstímabil metið til réttinda til atvinnuleysisbóta í Noregi eða á Íslandi, verður hann að hafa vottorð til staðfestingar. Atvinnuleysistryggingasjóður gefur út vottorðið sem kallast PD U1. Nánari upplýsingar veitir atvinnuleysistryggingasjóðurinn (A-kassen).
Einstaklingar missa ekki sænskan ríkisborgararétt þótt þeir flytji úr landi og séu ekki lengur skráðir í þjóðskrá í Svíþjóð.
Sænskur ríkisborgari sem hefur náð 18 ára aldri í síðasta lagi á kjördag, er sjálfkrafa á kjörskrá. Viðkomandi er á kjörskrá í tíu ár frá því hann flytur úr landi.
Nýtt tíu ára tímabil hefst ef hann tilkynnir að hann vilji áfram vera á kjörskrá eða tilkynnir nýtt heimilisfang erlendis.
Einstaklingur sem flytur sig um set erlendis skal tilkynna flutninginn til Skatteverket á eyðublaði SKV 7742.
Einstaklingar með ólæknandi sjúkdóm skulu hafa samband við lækni sinn og fá lyfseðla vegna nauðsynlegra lyfja til þess að nota fyrstu vikurnar í nýju landi.
Hafa skal meðferðis vottorð og skjöl frá skólum barna og öðrum menntastofnunum, fæðingarvottorð, bólusetningarskrá, meðmæli, prófskírteini og giftingarvottorð þegar flutt er til nýs lands.
Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.