Atvinnuleysisbætur í Svíþjóð

Svenske regler for arbejdsløshedsforsikring og -dagpenge
Hér eru gefnar upplýsingar um hvernig þú finnur atvinnuleysistryggingasjóð í Svíþjóð, færð tryggingu gegn atvinnuleysi og nýtir þér rétt til atvinnuleysisbóta í Svíþjóð. Einnig eru gefnar upplýsingar um hvaða reglur gilda ef þú starfar í öðru norrænu landi, verður atvinnulaus og þarft að sækja um atvinnuleysisbætur frá hinu landinu.

Ef þú verður atvinnulaus gætirðu átt rétt á atvinnuleysisbótum. Krafan er að þú hafir áunnið þér tryggingarétt. Í sumum norrænum löndum gerist það sjálfkrafa þegar þú ert í vinnu en annars staðar þarftu að skrá þig í atvinnuleysistryggingasjóð. Ef þú hefur búið í einu norrænu landi en starfað í öðru, eða ef þú flytur úr einu norrænu landi í annað þarftu að kynna þér vandlega hvaða reglur eiga við um um þig.

Atvinnuleysistryggingar í Svíþjóð

Ef þú starfar í Svíþjóð gilda sænskar reglur um almannatryggingar í flestum tilfellum um þig og þá þarftu að skrá þig hjá sænskum atvinnuleysistryggingasjóði („a-kasse“) til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum.

Í Svíþjóð er fólki valfrjálst að skrá sig í atvinnuleysistryggingasjóð en flestir gera það því tryggingaréttur veitir fjárhagslegt öryggi við atvinnumissi. Þú þarft að hafa samband við sænskan atvinnuleysistryggingasjóð til að skrá þig.

Í Svíþjóð þarftu að uppfylla ákveðin skilyrði til að fá atvinnuleysisbætur. Sænskar atvinnuleysistryggingar eru tvískiptar: almenn grunntrygging og valfrjáls tekjutapstrygging. Til þess að eiga rétt á tekjutengdum bótum verður þú að eiga aðild að atvinnuleysistryggingasjóði.

Á ég rétt atvinnuleysistryggingu í Svíþjóð?

Allir sem starfa í Svíþjóð eru atvinnuleysistryggðir með almennri grunntryggingu. Ef þú átt aðild að atvinnuleysistryggingasjóði geturðu einnig átt rétt á tryggingu vegna tekjumissis. Þú þarft að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að eiga rétt á atvinnuleysisbótum.

Sjá kaflann „Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til þess að eiga rétt á sænskum atvinnuleysisbótum?“ neðar á síðunni.

Hvernig virka atvinnuleysistryggingar í Svíþjóð?

Sænskar atvinnuleysistryggingar eru tvískiptar: almenn grunntrygging og valfrjáls tekjutapstrygging. Báðir tryggingar ná til launafólks og sjálfstætt starfandi. Grunntryggingin er eingöngu greidd atvinnuleitendum sem hafa náð 20 ára aldri. Til þess að eiga rétt á tekjutengdum bótum verður þú að eiga aðild að atvinnuleysistryggingasjóði.

Í Svíþjóð eru það atvinnuleysistryggingasjóðir sem greiða atvinnuleysisbætur.

Get ég skráð mig í atvinnuleysistryggingasjóð í Svíþjóð?

Þú átt rétt á að skrá þig í atvinnuleysistryggingasjóð ef þú stundar launavinnu á starfssvæði sjóðsins þegar þú sækir um aðild. Ef þú ert ekki í vinnu þegar þú sækir um áttu rétt á aðild að atvinnuleysistryggingasjóði ef þú uppfylltir umrædd skilyrði þegar þú varst síðast í vinnu.

Einstaklingar 64 ára og eldri geta ekki átt aðild að atvinnuleysistryggingasjóði. Enginn getur verið skráður í fleiri en einn atvinnuleysistryggingasjóð í senn.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um atvinnuleysistryggingasjóðina í Svíþjóð á heimasíðu samtaka atvinnuleysistryggingasjóða í Svíþjóð, Sveriges a-kassor.

Atvinnuleysisbætur í Svíþjóð

Ef þú ert atvinnuleitandi geturðu sótt um atvinnuleysisbætur í búsetulandinu. Það á einnig við ef þú hefur starfað í öðru norrænu landi.

Hvaða skilyrði þarf ég að uppfylla til þess að fá sænskar atvinnuleysisbætur?

Þú átt rétt á atvinnuleysisbótum ef þú uppfyllir almenn skilyrði og skilyrði um vinnu:

Þú fyllir almenn skilyrði ef þú:

  • ert vinnufær og getur unnið 3 klukkustundir að lágmarki á hverjum vinnudegi og að meðaltali að minnsta kosti 17 klukkustundir á viku;
  • ert skráð/ur í atvinnuleit hjá opinberri vinnumiðlun;
  • ert reiðubúin/n að ráða þig til starfa.

Atvinnuskilyrði eru uppfyllt ef þú hefur, á síðustu tólf mánuðum áður en þú misstir vinnuna:

  • verið í starfi í sex mánuði að lágmarki og unnið að minnsta kosti 80 klukkustundir á mánuði eða
  • stundað launavinnu í 480 klukkustundir að lágmarki á samfelldu tímabili í sex almanaksmánuði og hefur unnið að minnsta kosti 50 klukkustundir í hverjum mánuði.

Hversu lengi er hægt að fá atvinnuleysisbætur í Svíþjóð?

Ef þú uppfyllir skilyrði til að fá atvinnuleysisbætur veitir atvinnuleysistryggingasjóðurinn þér bótatímabil sem nemur 300 bótadögum. Foreldrar sem eiga börn yngri en 18 ára á 300. bótadegi geta fengið 150 bótadaga til viðbótar.

Sex daga biðtími líður þar til þú getur fengið bætur.

Hversu háar bætur er hægt að fá í Svíþjóð?

Ef þú ert ekki skráð/ur í atvinnuleysistryggingasjóð eða ef þú ert skráð/ur í atvinnuleysistryggingasjóð en uppfyllir ekki skilyrði um aðild geturðu átt rétt á lágmarksupphæð. Lágmarksupphæð er óháð fyrri tekjum og nemur í mesta lagi 365 sænskum krónum á dag. Lágmarksupphæð skerðist í samræmi við starfshlutfall þeirra sem hafa ekki verið í fullri vinnu.

Einstaklingur sem hefur átt aðild að atvinnuleysistryggingasjóði í 12 mánuði að lágmarki og uppfyllt vinnuskilyrðin þegar aðild hans að atvinnuleysistryggingasjóðnum hófst síðast á rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum.

Hjá þeim sem eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum nemur hlutfallið fyrstu 100 dagana 80% af fyrri tekjum (þó aldrei meiru en 910 sænskum krónum á dag).

Atvinnuleysisbótahlutfallið þá 200 daga sem eftir standa nemur 70% af fyrri tekjum (þó aldrei meiru en 760 sænskum krónum á dag). Hjá þeim sem ekki hafa verið í fullu starfi skerðast bæturnar í sama hlutfalli og starfshlutfallið.

Hvernig er sótt um atvinnuleysisbætur í Svíþjóð?

Þú sækir um atvinnuleysisbætur hjá þeim atvinnuleysistryggingasjóði sem þú ert aðili að. Ef þú ert ekki aðili að atvinnuleysistryggingasjóði eða óskar ekki eftir slíkri aðild geturðu sótt um atvinnuleysisbætur hjá Alfa-kassen.

Umsókn um atvinnuleysisbætur og önnur eyðublöð sendirðu til þess atvinnuleysistryggingarsjóðs sem þú átt aðild að. Eyðublöð til þess að sækja um atvinnuleysisbætur er að finna á vefsíðum atvinnuleysistryggingasjóðanna.

Í hvaða landi sæki ég um atvinnuleysisbætur ef ég starfa í öðru landi?

Fólk býr í einu landi og starfar í öðru sækir um atvinnuleysisbætur í búsetulandinu ef um algeran atvinnumissi er að ræða.

Ef þú átt heima í Svíþjóð en starfar í öðru norrænu landi og verður atvinnulaus að fullu er mikilvægt er að þú sendir umsókn til atvinnuleysistryggingasjóðsins í Svíþjóð um leið og ráðningu lýkur. Með öðrum orðum á fyrsta degi atvinnuleysis. Ef þú ert atvinnulaus að hluta til eða tímabundið geturðu sótt um atvinnuleysisuppbót í landinu sem þú starfar í.

Hvar á ég að vera atvinnuleysistryggð/ur ef ég starfa í fleiri en einu landi?

Grundvallarreglan er sú að þú átt að vera atvinnuleysistryggð/ur í landinu sem þú starfar í. Hafðu samband við atvinnuleysistryggingasjóðinn þinn til að leita nánari upplýsinga um reglur sem gilda um fólk sem starfar í tveimur löndum.

Tryggingatímabil lögð saman ef þú hefur starfað í öðru landi

Til þess að eiga rétt á atvinnuleysisbótum sem byggja á trygginga- og atvinnutímabilum eða tímabilum sem sjálfstætt starfandi í öðrum ESB/EES-löndum eða Sviss er þess krafist að þú hafir nýlega starfað í Svíþjóð þegar þú sækir um bætur þar í landi.

Norðurlöndin hafa gert með sér Norðurlandasamning um almannatryggingar. Samkvæmt þeim samningi gildir svonefnd fimm ára regla sem þýðir að einstaklingur sem hefur átt aðild að sænskum atvinnuleysistryggingasjóði og þegar þú hefur búið og starfað í einu norrænu landi geturðu gengið aftur inn í sænska atvinnuleysistryggingu áður en fimm ár eru liðin. Ef þú starfaðir síðast í öðru norrænu landi geturðu í sumum tilvikum sótt um atvinnuleysisbætur í Svíþjóð og reiknað með tryggingatímabil, ráðningartímabil eða tímabil þar sem þú hefur verið sjálfstætt starfandi í fyrra starfslandi.

Þú þarft að sækja um aðild að sænskum atvinnuleysistryggingasjóði áður en átta vikur eru liðnar frá því að tryggingu lauk í brottflutningslandinu ef þú átt að geta viðhaldið samfelldu 12 mánaða tryggingatímabili. Auk þess þarftu að sækja um aðild að atvinnuleysistryggingasjóði í þeirri starfsgrein sem þú starfaðir síðast í.

Ef þú hefur starfað í öðru norrænu landi þarftu að skjalfesta trygginga- og starfstímabilið með eyðublaðinu PD U1 þegar þú sækir um atvinnuleysisbætur í Svíþjóð.

Ég hef starfað í Danmörku

Hafir þú starfað í Danmörku og átt aðild að dönskum atvinnuleysistryggingasjóði þarftu að sækja um skjalið PD U1 frá danska atvinnuleysistryggingasjóðnum. Ef þú hefur ekki átt aðild að dönskum atvinnuleysistryggingasjóði er það danska vinnumálastofnunin, Styrelsen for Arbejdsmarked og Rekruttering, sem gefur út vottorðið.

Ég hef starfað í Finnlandi

Ef þú hefur starfað í Finnlandi og átt aðild að finnskum atvinnuleysistryggingasjóði þarftu að sækja um skjalið PD U1 frá finnska atvinnuleysistryggingasjóðnum. Ef þú átt ekki aðild að atvinnuleysistryggingasjóði geturðu fengið vottorðið hjá finnsku tryggingastofnuninni, Folkepensionsanstalten.

Ég hef starfað í Færeyjum

Ef þú hefur starfað í Færeyjum ertu sjálfkrafa aðili að atvinnuleysistryggingasjóði. Ef þú hefur starfað í Færeyjum þarftu að hafa samband við Arbeiðsloysisskipanin í Færeyjum til að fá upplýsingar um flutning atvinnuleysistrygginga til Svíþjóðar.

Ég hef starfað á Grænlandi

Á Grænlandi er hægt að fá búsetu- og skattavottorð útgefið. Til að stofnunin geti gefið vottorðið út þarftu að gefa upp nafn, fæðingardag (danska kennitölu, ef við á) og vinnuveitanda í Grænlandi. Upplýsingarnar skal senda til sydtax@nanoq.gl.

Ég hef starfað á Íslandi

Á Íslandi er það Vinnumálastofnun sem gefur út vottorðið PD U1.

Ég hef starfað í Noregi

Í Noregi gefur NAV út vottorðið PD U1 sem þú notar til að færa atvinnuleysisbótaréttinn til Svíþjóðar. Á vefsíðu NAV eru upplýsingar um hvernig sótt er um vottorðið PD U1 og hvaða vottorð þurfi til að sækja um það. Senda skal umsóknina til NAV ásamt staðfestingu á starfi í Noregi, afriti af ráðningarsamningi og afriti af launaseðlum og skattayfirlit fyrir það tímabil sem sótt er PD U1-vottorðið fyrir.

Ég hef starfað í Svíþjóð

Ef þú hefur starfað í Svíþjóð og átt aðild að sænskum atvinnuleysistryggingasjóði þarftu að sækja um PD U1-skjalið hjá sænska atvinnuleysistryggingasjóðnum þínum. Ef þú átt ekki aðild að atvinnuleysistryggingasjóði geturðu fengið vottorðið hjá Alfa-kassen.

Sækja um starf í öðru landi með atvinnuleysistryggingasjóði frá heimalandi

Ef þú færð atvinnuleysisbætur í norrænu landi geturðu í ákveðnum tilvikum fengið bæturnar með þér til útlanda í allt að þrjá mánuði meðan þú ert í atvinnuleit þar.

Get ég tekið sænskar atvinnuleysisbætur með mér til annars lands?

Ef einstaklingur fær greiddar bætur í Svíþjóð getur hann tekið þær með sér í þrjá mánuði á meðan hann leitar að starfi í öðru norrænu landi. Þú þarft að uppfylla ákveðin skilyrði. Til dæmis:

  • Eiga aðild að sænskum atvinnuleysistryggingasjóði eða tengd/ur Alfa-kassen.
  • Eiga rétt á atvinnuleysisbótum daginn sem farið er frá Svíþjóð.
  • Hafa verið skráð/ur atvinnulaus að fullu hjá vinnumiðlun og hafa verið reiðubúin/n til að ráða þig til starfa í að minnsta kosti fjórar vikur eftir að þú varðst síðast atvinnulaus.

Til þess að fá sænskar atvinnuleysisbætur á meðan leitað er að starfi erlendis þarftu að vera með PD U2-vottorð frá Inspektionen för Arbetslöshetsförsäkring (IAF).

Hvað á ég að gera ef ég leita að vinnu í öðru landi með sænskum atvinnuleysistryggingasjóði?

Við komuna til landsins þar sem þú ætlar að leita að vinnu þarftu að skrá þig hjá vinnumiðlun innan sjö daga frá þeim degi sem þú fórst úr landi til þess að eiga rétt á að fá greidda atvinnuleysisbætur frá þeim degi. Ef þú skráir sig á vinnumiðlun eftir að sjö dagar eru liðnir áttu aðeins rétt á bótum frá þeim degi sem þú skráðir þig. Vakin er athygli á því að fylgja ber þeim reglum sem gilda í því norrænu landi sem við á þegar sótt er um starf. Sænski atvinnuleysistryggingasjóðurinn heldur áfram að greiða atvinnuleysisbæturnar.

  • Hafa skal samband við sænska atvinnuleysistryggingasjóðinn tímanlega fyrir brottför til þess að fá upplýsingar um sérstök skilyrði, tímafresti og mögulega bið á málsmeðferð.
  • Ef einstaklingur fær ekki vinnu erlendis á þessum þremur mánuðum, verður hann að snúa aftur til Svíþjóðar til þess að halda réttinum til sænsku bótanna og skrá sig hjá atvinnuleysistryggingasjóðnum og vinnumiðluninni. Ef einstaklingur fer ekki heim eftir þriggja mánaða dvöl erlendis á hann ekki lengur rétt á bótum.
  • Ef viðkomandi fær vinnu erlendis þarf hann venjulega að gerast aðili að atvinnuleysistryggingum í nýja starfslandinu. Hafðu samband við sænska atvinnuleysistryggingasjóðinn og vinnumiðlunina í starfslandinu.

Get ég leitað að vinnu í Svíþjóð á atvinnuleysisbótum frá öðru landi?

Einstaklingur sem er á atvinnuleysisbótum frá öðru norrænu ríki, getur undir vissum kringumstæðum haldið bótunum á meðan hann leitar að starfi í Svíþjóð. Hafa skal samband við atvinnuleysistryggingasjóðinn sinn í heimalandinu til að leita nánari upplýsinga.

Nánari upplýsingar

Nákvæmari upplýsingar um sænskar atvinnuleysistryggingar, hversu háar bætur hægt er að fá, um einstaka atvinnuleysistryggingasjóði, upplýsingar um Norðurlandasamninginn og reglur Evrópusambandsins um atvinnuleysistryggingasvæðið er að finna á heimasíðu sænsku vinnumiðlunarinnar og heimasíðu IAF og Sveriges a-kassor.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna