Grunnskólanám í Finnlandi
Börn sem hafa fasta búsetu í Finnlandi eru skólaskyld þar. Skólaskylda hefst á því ári sem barn verður sjö ára og henni lýkur þegar barnið nær 18 ára aldri, eða hefur lokið framhaldsskólanámi eða öðru samsvarandi námi á Álandseyjum eða í öðru landi fyrir átján ára aldur.
Einnig er hægt að afla sér þess lærdóms og færni sem grunnskólanám veitir eftir öðrum leiðum, til dæmis með því að stunda nám heima. Nánari upplýsingar um þetta eru hér fyrir neðan, undir yfirskriftinni Heimakennsla.
Börn sem dvelja tímabundið í Finnlandi mega sækja grunnskóla þar, en þau eru ekki skólaskyld í landinu.
Upplýsingar um forskóla í Finnlandi eru á síðunni Forskólanám í Finnlandi og upplýsingar um nám að loknu grunnskólaprófi eru á síðunni Framhaldsskólanám í Finnlandi.
Börn sem hafa fasta búsetu í Finnlandi eru skólaskyld. Skólaskyldan hefst á því ári sem barnið verður sjö ára og lýkur þegar öllum námsstigum grunnskóla hefur verið lokið eða þegar tíu ár eru liðin frá upphafi skólaskyldu. Árið áður en skólaskylda hefst verður barnið að stunda forskóla.
Forskólanám
Börn sem hafa fasta búsetu í Finnlandi þurfa að stunda forskólanám eða annað sambærilegt nám í eitt ár áður en hin eiginlega skólaskylda hefst. Markmið forskólanámsins er að bæta námsforsendur barna.
Námið fer ýmist fram á finnsku eða sænsku en sænskumælandi forskólar eru þó ekki í öllum sveitarfélögum landsins.
Forskólanámið er án endurgjalds. Börn sem þurfa að ferðast lengra en fimm kílómetra til að sækja forskóla eiga rétt á akstri í skólann án endurgjalds.
Réttur til að stunda grunnskólanám í Finnlandi
Öllum börnum með fasta búsetu í Finnlandi er skylt að ljúka grunnskólanámi. Nám við ríkisrekna finnska grunnskóla er án endurgjalds. Grunnskólanámið hefst alla jafna við sjö ára aldur en getur einnig hafist árinu fyrr eða síðar, allt eftir þroska barnsins. Grunnskólinn varir í níu ár.
Fræðsluráð Finnlands (Utbildningsstyrelsen eða Opetushallitus) leggur línurnar fyrir námsskrá sem síðan er útfærð nánar af sveitarfélögum.
Sveitarfélögum í Finnlandi ber skylda til að skipuleggja grunnskólanám fyrir öll börn sem búa í sveitarfélaginu. Þegar barn kemst á skólaaldur úthlutar búsetusveitarfélagið því plássi í skóla í grennd við heimili þess. Einnig má sækja um í öðrum skólum. Flestir finnskir grunnskólar eru ríkisreknir en einnig eru þar einkaskólar.
Samkvæmt lögum á barn rétt á grunnskólanámi án endurgjalds þó að það hafi ekki fasta búsetu í Finnlandi. Það nægir að dvöl barnsins í finnsku sveitarfélagi sé þess eðlis að líta megi á hana sem búsetu. Ef um flutninga innan Norðurlanda er að ræða getur slík dvöl verið allt frá þremur mánuðum upp í eitt ár.
Nánari upplýsingar um finnska grunnskóla eru á vefsvæðum Fræðsluráðs Finnlands og infoFinland.fi.
Á hvaða tungumálum er hægt að stunda grunnskólanám í Finnlandi?
Hægt er að stunda grunnskólanám í Finnlandi á finnsku eða sænsku. Önnur kennslutungumál geta verið samíska, rómamál eða táknmál. Nánari upplýsingar um sænskumælandi skóla í Finnlandi eru á vefsvæðinu Svenskskola.fi.
Í stærstu borgum landsins eru alþjóðlegir skólar þar sem kennsla fer að öllu eða einhverju leyti fram á ensku eða öðru erlendu máli. Slíkir skólar eru oft einkareknir og innheimta skólagjöld. Í sumum ríkisreknum grunnskólum eru einnig bekkir þar sem kennt er á ensku. Nánari upplýsingar um alþjóðlega skóla í Finnlandi eru á vefsvæðinu ThisisFINLAND.
Getur barnið fengið aukakennslu í finnsku, sænsku eða eigin móðurmáli?
Börn sem hafa flutt til Finnlands frá öðrum löndum geta fengið kennslu í finnsku eða sænsku sem öðru máli, þurfi þau þess með. Nemendur geta einnig fengið kennslu í eigin móðurmáli, sé það annað en finnska eða sænska. Þú færð nánari upplýsingar hjá þínum skóla og sveitarfélagi. Nánari upplýsingar um stuðning við móðurmál nemenda eru á vefsvæði Fræðsluráðs í Finnlandi.
Skólamáltíðir og skólaakstur í Finnlandi
Grunnskólanemar í Finnlandi eiga rétt á heitri máltíð á skólatíma án endurgjalds. Sumir skólar bjóða einnig upp á millimál án endurgjalds en í mörgum skólum þarf þó að greiða fyrir millimál. Hafi nemandi sérþarfir varðandi mataræði verður foreldri eða forsjáraðili að láta skólanum í té áætlun fyrir fæðuval barnsins, lista yfir innihaldsefni á bannlista eða læknisvottorð. Ef fæðuval barnsins hefur læknisfræðilegar ástæður er nauðsynlegt að skila inn umsögn læknis, næringarfræðings eða hjúkrunarfræðings á lýðheilsusviði. Nánari upplýsingar um skólamáltíðir eru á vefsvæði Fræðsluráðs í Finnlandi (Opetushallitus).
Nemendur í grunnskóla eiga rétt á akstri í og úr skóla án endurgjalds ef leiðin í skólann er lengri en fimm kílómetrar. Í sumum tilvikum er einnig hægt að fá ferðastyrk vegna ferðalaga til skóla. Nemendur sem stunda nám á grunnskólastigi en eru komnir yfir skólaskyldualdur eiga ekki rétt á skólaakstri án endurgjalds. Nánari upplýsingar um skólaakstur án endurgjalds eru í leiðarvísi Fræðsluráðs Finnlands um skólaakstur.
Hvernig er sótt um grunnskólavist í Finnlandi?
Sveitarfélagið sendir tilkynningu um skólaskyldu í upphafi þess árs sem barnið verður sjö ára. Tilkynningunni fylgja upplýsingar um hverfisskóla, sem ræðst af heimilisfangi barnsins. Foreldrar og forsjáraðilar geta valið barni sínu annan skóla en þá þarf að sækja sérstaklega um skólavist og ekki víst að barnið fái inni þar. Yfirleitt þarf að sækja sérstaklega um sérhæft grunnskólanám, þ.e. nám þar sem áhersla er lögð á tiltekin fög, og fara í inntöku- og stöðupróf. Einnig þarf að sækja sérstaklega um skólavist í einkareknum grunnskólum. Nánari upplýsingar eru á heimasíðum skólanna.
Foreldrar og forsjáraðilar skrá barn sitt í skóla ýmist með rafrænum hætti á vefsvæði sveitarfélagsins eða með því að fylla út eyðublað. Nánari upplýsingar um skráningu barna í grunnskóla finnur þú á vefsvæði þess sveitarfélags sem þú býrð í. Tengiliðaupplýsingar finnskra sveitarfélaga eru á heimasíðu Sambands finnskra sveitarfélaga (Kuntaliitto).
Ef barn skiptir um skóla á miðju skólaári þarf að hafa samband við bæði núverandi skóla og skólamálayfirvöld í nýju búsetusveitarfélagi. Nánari upplýsingar um það að skipta um skóla á miðju ári eru á þjónustuvefnum Suomi.fi.
Ef barn flytur varanlega til Finnlands ber að hafa samband við bæði núverandi skóla barns og fræðslumálayfirvöld í nýja búsetusveitarfélaginu í Finnlandi. Ef barn flytur til Finnlands til tímabundinnar dvalar hefur það rétt á – en er ekki skyldugt til – að stunda forskólanám áður en skólaskylda hefst. Hafðu samband við það finnska sveitarfélag sem þú dvelur tímabundið í.
Frístund fyrir og eftir skóla í Finnlandi
Frístundastarf snemma á morgnana og síðdegis er ætlað nemendum í 1. og 2. bekk, auk nemenda í öðrum árgöngum sem fá sérkennslu. Í frístundastarfinu er börnum boðið upp á örugga afþreyingu fyrir og eftir skólatíma. Börn sem taka þátt í frístundastarfi fá millimál þar.
Sveitarfélögin hafa umsjón með frístundastarfinu. Sveitarfélag getur skipulagt frístundastarf sitt eitt eða í samstarfi við fleiri sveitarfélög, eða keypt þjónustuna af öðrum. Sveitarfélög eru ekki skyldug til að bjóða upp á frístundastarf fyrir eða eftir skólatíma.
Hægt er að innheimta mánaðargjald fyrir þátttöku í frístund. Sveitarfélögin ákveða hver upphæðin er. Leyfilegt er að innheimta frístundargjald fyrir þá mánuði sem barn tekur þátt í starfseminni og ekki er leyfilegt að innheimta önnur gjöld fyrir þátttöku í frístund.
Nánari upplýsingar um frístund snemma á morgnana og síðdegis eru á vefsvæði Fræðsluráðs í Finnlandi (Opetushallitus).
Heimakennsla í Finnlandi
Í Finnlandi er skólaskyldan í raun námsskylda og námið þarf ekki að vera bundið við skóla. Þess vegna má afla sér þess lærdóms og færni sem grunnskólanám veitir eftir öðrum leiðum, til dæmis með heimakennslu.
Ekki er nauðsynlegt að fá leyfi yfirvalda, þ.e. fræðslumálayfirvalda viðkomandi sveitarfélags, vegna heimakennslu. Það nægir að forsjáraðili barns tilkynni sveitarfélagi að barn muni skipta yfir í heimakennslu. Þegar forsjáraðili hefur sent inn slíka tilkynningu er hann orðinn ábyrgur fyrir því að barnið öðlist þá kunnáttu og færni sem ætlast er til á grunnskólastigi. Samkvæmt aðalnámsskrá er það hlutverk sveitarfélagsins að hafa eftirlit með framförum barns sem tekur ekki þátt í skólanámi.
Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Fræðsluráðs.
Nánari upplýsingar
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.