Dagvistun barna í Finnlandi

Barn leker med lego
Ljósmyndari
Kelly Sikkela / Unsplash
Hér segir frá dagvistun barna í Finnlandi. Hægt er að velja um dagvistun á vegum hins opinbera eða einkaaðila. Einnig er hægt að fá styrk til að sinna barni heima fyrir.

Þegar foreldrar hafa fullnýtt orlofsrétt sinn geta þeir valið milli dagvistunar á vegum hins opinbera eða á vegum einkaaðila fyrir barn sitt, eða sótt um styrk til að sinna barninu heima.

Í Finnlandi nefnist dagvistun ungra barna „varhaiskasvatus“ á finnsku og „småbarnspedagogik“ á sænsku, sem vísar til uppeldisfræði ungra barna. Dagvistunarmál heyra undir finnska menntakerfið og ásamt  leikskólamenntun og grunnskólamenntun myndar dagvistun ungra barna samhangandi heild sem stuðlar að þróun og námi og leggur grunn að símenntun alla ævi. Öll börn undir grunnskólaaldri eiga rétt á dagvistun innan menntakerfisins, líka þó að annað foreldra eða bæði séu utan vinnumarkaðar. 

Hafir þú áhuga á þjónustu leikskóla finnurðu nánari upplýsingar á síðunni Leikskólar í Finnlandi.

Dagvistun á vegum sveitarfélaga

Finnsk sveitarfélög bjóða dagvistun á leikskólum eða hjá dagforeldrum fyrir 0–6 ára gömul börn. Sækja þarf um dagvistunarpláss hjá sveitarfélagi fjórum mánuðum áður en dagvistun á að hefjast. Hægt er að fá pláss með tveggja vikna fyrirvara ef foreldrar fá vinnu í Finnlandi eða komast inn í nám þar. Nánari upplýsingar um dagvistun eru á þjónustuvefnum Suomi.fi.

Gjald fyrir dagvistun á vegum sveitarfélaga ræðst af tekjum fjölskyldunnar, fjölskyldustærð og því hvað barnið sækir dagvistun í margar klukkustundir á viku. Nánari upplýsingar um gjaldtöku vegna dagvistunar eru á vefsvæði mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Dagvistun á vegum einkaaðila

Dagvistun á vegum einkaaðila fyrir 0–6 ára gömul börn er í boði hjá einkareknum leikskólum og dagforeldrum. Sótt er um pláss hjá viðkomandi leikskóla eða dagforeldri. Auk þess að finna starfandi dagforeldri sem annast börn á heimili sínu getur þú ráðið manneskju til starfa inn á þitt heimili.

Verðlagning fyrir dagvistun á vegum einkaaðila er breytileg eftir atvikum. Þú getur fengið styrk vegna kostnaðar við dagvistun á vegum einkaaðila frá finnsku almannatryggingastofnuninni (Kela) og þá munar ekki endilega miklu á verði miðað við dagvistun á vegum sveitarfélags. Ráðir þú manneskju inn á heimili þitt til að annast barn eða börn verður þú vinnuveitandi hennar og hefur skyldum að gegna í samræmi við það. 

Nánari upplýsingar um dagvistun á vegum einkaaðila færðu frá því sveitarfélagi sem þú býrð í eða ert að flytja til. Nánari upplýsingar um styrk vegna dagvistunar á vegum einkaaðila eru á vefsvæði finnsku almannatryggingastofnunarinnar (Kela).

Styrkur til að sinna barni heima

Þú átt rétt á styrk til að sinna barni heima fyrir ef barn þitt undir þriggja ára aldri hefur ekki fengið dagvistunarpláss hjá sveitarfélaginu. Foreldri þarf ekki sjálft að vera heima með barn sitt, leyfilegt er að fá einhvern annan til þess. Nánari upplýsingar um styrk til að sinna barni heima eru á vefsvæði Kela.

Nánari upplýsingar

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna