Ökutæki í Finnlandi

Bil med sne
Ljósmyndari
Benjamin Suomela / Norden.org
Á þessari síðu finnur þú upplýsingar um innflutning ökutækja til Finnlands og um skoðun og skráningu ökutækja í tengslum við innflutning þeirra. Hér eru einnig upplýsingar um notkun vetrar- og sumardekkja í Finnlandi.

Hyggst þú ferðast til Finnlands á einkabíl, sendibíl eða mótorhjóli, eða flytja til Finnlands með ökutæki þitt? Hér finnur þú upplýsingar um hvort þú þarft að láta skoða ökutækið, skrá það og greiða skatt af því í Finnlandi.

Um skráningu á Álandseyjum gilda sérstakar reglur sem hægt er að lesa um á síðunni Innflutningur ökutækja til Álandseyja. Upplýsingar um ökuréttindi eru á síðunni Ökuréttindi í Finnlandi.

Ökutæki með í frí til Finnlands

Ekki er nauðsynlegt að greiða skatt af ökutæki sem komið er með til skammtímadvalar eða í frí til Finnlands. Ökutækið þarf að hafa gildar ökutækjatryggingar í því landi þar sem það er skráð. Nánari upplýsingar á vefsvæði finnskra skattayfirvalda (Verohallinto).

Ökutæki til skammtímadvalar í Finnlandi

Ef þú hefur fasta búsetu í öðru landi en Finnlandi máttu nota ökutæki skráð í öðru landi til að ferðast um Finnland í sex mánuði að hámarki, en hægt er að sækja um framlengingu á þeim tíma. Upplýsingar um ökutæki til annarra nota en ferðalaga veita finnsk skattayfirvöld (Verohallinto).

Í einhverjum tilvikum geta einstaklingar með fasta búsetu í Finnlandi einnig átt rétt á að nota ökutæki sem skráð er í öðru landi tímabundið í Finnlandi, án þess að greiða skatt af því þar. Nánari upplýsingar veita finnsk skattayfirvöld; Verohallinto.

Ökutækið þitt þarf líka að hafa gilda ökutækjatryggingu. Athugaðu að ekki munu öll tryggingafélög vilja tryggja ökutæki ef eigandinn hefur ekki fasta búsetu í landinu.

Ökutæki í búferlaflutningum til Finnlands

Ef þú flytur til Finnlands og hefur ökutæki meðferðis þarft þú að láta skoða og skrá ökutækið í Finnlandi og greiða þar ökutækjaskatt. Ökutækjum sem koma frá norrænum löndum utan Evrópusambandsins, þ.e. Íslandi eða Noregi, þarf einnig að gera grein fyrir í tollinum en að vissum skilyrðum uppfylltum getur ökutæki sem komið er með í búferlaflutningum verið undanskilið innflutningsskatti og tolli.

Til þess að geta notað ökutæki þitt í Finnlandi allt frá flutningsdegi þarft þú að tilkynna finnskum skattayfirvöldum það við komuna til landsins. Þú getur sent inn rafræna tilkynningu um að þú hyggist taka í notkun ökutæki sem þurfi að skrá í Finnlandi.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðum finnskra skatta- og tollayfirvalda.

Ökutækjaskattur í Finnlandi

Þegar ökutæki hefur verið flutt til Finnlands þarf að gera sérstaka grein fyrir því gagnvart skattayfirvöldum (Verohallinto) innan 5 daga frá því að tilkynning um notkun ökutækisins í landinu er staðfest. Nánari upplýsingar um ökutækjaskatt eru á vefsvæði finnskra skattayfirvalda (Verohallinto).

Skoðun og skráning ökutækja í Finnlandi

Áður en hægt er að ganga frá skráningu ökutækis í Finnlandi þarf það að gangast undir skráningarskoðun á skoðunarstað sem sér um upphafsskráningar ökutækja. Við skráningarskoðun þarf að framvísa skráningarskírteini frá upprunalandinu þar sem m.a. kemur fram hvenær ökutækið var fyrst skráð eða tekið í notkun. Að skráningu lokinni færð þú skráningarvottorð og finnskar númeraplötur.

Nánari upplýsingar um skráningarskoðun, staði þar sem slíkar skoðanir eru framkvæmdar og um skráningu ökutækja veitir finnska samgöngustofan (Liikenne- ja viestintävirasto / Traficom).

Hvenær eru sumar- og vetrardekk notuð í Finnlandi?

Nota þarf vetrardekk, sé það nauðsynlegt sökum veðurs eða færðar, í nóvember, desember, janúar, febrúar og mars. Á því tímabili sem skylt er að nota vetrardekk þarf mynstursdýpt hjólbarðanna að vera að lágmarki 3 millimetrar. Vetrardekkin geta ýmist verið negld eða ónegld.

Nagladekk er leyfilegt að nota utan tilskilins vetrardekkjatímabils ef ástæða er til sökum veðurs eða færðar. Nánari upplýsingar á vefsvæði finnsku umferðarstofunnar (Liikenneturva).

Ökutæki fatlaðs einstaklings í Finnlandi

Fólk með fötlun getur fengið skattaívilnanir vegna ökutækja, auk ýmissa annarra styrkja og afslátta til að greiða fyrir hreyfanleika. Nánari upplýsingar eru á síðunni Aðstoð vegna hjálpartækja fatlaðra og þjónusta við fatlaða í Finnlandi.

Notkun ökutækis, sem skráð er í öðru norrænu landi, í Finnlandi

Sé bifreið skráð í Finnlandi þarf ekki að skrá hana í öðru norrænu landi meðan á skammtímadvöl þar stendur. Mismunandi reglur gilda um það í norrænu löndunum hve lengi má aka bifreið án þess að skrá hana inn í landið. Lestu meira um reglurnar í hverju landi fyrir sig með því að smella á tenglana hér að neðan. 

Ökutæki þarf alltaf að hafa gilda ökutækjatryggingu. Athugaðu að ekki munu öll tryggingafélög vilja tryggja ökutæki ef eigandinn hefur ekki fasta búsetu í landinu.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna