Ökutæki í Finnlandi

Ajoneuvo Suomessa
Hér er sagt frá innflutningi einkabifreiða, sendibifreiða og mótorhjóla til Finnlands, frá skoðun og skráningu í tengslum við innflutninginn og notkun vetrar- og sumardekkja í Finnlandi.

Ert þú að koma með ökutæki til Finnlands vegna frís, tímabundinnar dvalar eða búferlaflutninga til lengri tíma? Lengd og eðli dvalar sker úr um það hvort nauðsynlegt er að láta skoða ökutækið, skrá það og greiða skatt af því í Finnlandi. Um skráningu á Álandseyjum gilda sérstakar reglur sem hægt er að lesa um á síðunni Innflutningur á ökutækjum til Álandseyja. Upplýsingar um ökuréttindi eru á síðunni Ökuréttindi í Finnlandi.​​​​​​

Ökutæki með í fríið

Ekki er nauðsynlegt að greiða skatt af ökutæki sem komið er með til skammtímadvalar eða í frí í Finnlandi. Ökutækið þarf að hafa gildar ökutækjatryggingar í því landi þar sem það er skráð.

Ökutæki til skammtímadvalar í Finnlandi

Ríkisborgari annars norræns lands sem dvelur í Finnlandi skemur en 12 mánuði má nota ökutæki skráð í öðru norrænu landi til að ferðast á í Finnlandi í sex mánuði að hámarki, en hægt er að sækja um framlengingu á þeim tíma. Upplýsingar um ökutæki til annarra nota en ferðalaga veita finnsk skattayfirvöld; Verohallinto.

Í einhverjum tilvikum geta einstaklingar með fasta búsetu í Finnlandi einnig átt rétt á að nota ökutæki skráð í öðru landi tímabundið í Finnlandi, án þess að greiða þar af því skatt. Nánari upplýsingar veita finnsk skattayfirvöld; Verohallinto.

Ökutæki í búferlaflutningum

Ef flutt er til Finnlands til frambúðar og ökutæki haft meðferðis, þarf ökutækið að gangast undir skoðun og skráningu í Finnlandi og af því þarf að greiða skatt. Ökutækjum sem koma frá norrænum löndum utan Evrópusambandsins, þ.e. Íslandi eða Noregi, þarf einnig að gera grein fyrir í tollinum.

Til að geta notað ökutæki í Finnlandi allt frá komudegi þarf að tilkynna finnsku skattstofunni (Verohallinto) um notkun þess við komuna til landsins. Það er hægt að gera rafrænt á netinu.

Bifreiðaskattur

Þegar ökutæki hefur verið flutt til Finnlands þarf að gera sérstaklega grein fyrir því gagnvart skattayfirvöldum (Verohallinto) innan 5 daga eftir að tilkynning um notkun þess í landinu hefur verið staðfest. Hætt var að veita skattalækkanir vegna innfluttra ökutækja frá og með 1. janúar 2015. 

Skoðun og skráning

Ökutæki sem flutt er til Finnlands þarf að gangast undir skráningarskoðun eða, í vissum tilvikum, hljóta sérstakt samþykki á skoðunarstað áður en skráning getur farið fram. Við skráningarskoðun þarf að skráningarskírteini frá upprunalandinu þar sem m.a. kemur fram hvenær ökutækið var fyrst skráð eða tekið í notkun.

Skilyrði fyrir skráningu ökutækis í Finnlandi eru:

  • Gild ökutækjatrygging
  • Vottorð um að skráningarskoðun hafi farið fram eða sérstakt samþykki fyrir skráningu verið veitt
  • Staðfesting á eignarhaldi eiganda ökutækisins, þ.e. sölutilkynning með nafni og kennitölu eða afsalsbréf
  • Ökutækjaskattur þarf að vera greiddur
  • Skattákvörðun vegna ökutækis þarf að liggja fyrir

Nánari upplýsingar veita bifreiðaskoðunarstaðir í Finnlandi. Upplýsingar um staði sem sjá um að skoða nýkomnar bifreiðir eru á vefsvæði finnska samgönguráðuneytisins.

Að skráningu lokinni fær bifreiðareigandi skráningarvottorð og finnskar skráningarplötur. Framvísa þarf gildum skilríkjum við skráninguna.

Nánari upplýsingar um bifreiðaskráningu veitir finnska samgönguráðuneytið.

Sumar- og vetrardekk í Finnlandi

Leyfilegt er að nota nagladekk í Finnlandi frá og með 1. nóvember til og með 31. mars eða fyrsta mánudegi eftir annan dag páska. Skylt er að nota vetrardekk frá og með 1. desember og út febrúarmánuð á öllum einkabifreiðum, sendibílum og sérstökum ökutækjum sem eru allt að 3500 kg að heildarþyngd. Vetrardekk geta verið án nagla (snjódekk) eða með nöglum.

Skipta má vetrardekkjum út fyrir sumardekk frá og með 1. mars en þó er ekki mælt með að skipta fyrr en færð og veðurskilyrði leyfa.

Ökutæki einstaklinga með fatlanir

Einstaklingar með fatlanir geta fengið skattaívilnanir vegna ökutækja sinna.

Notkun ökutækis sem skráð er í öðru norrænu landi í Finnlandi

Sé bifreið skráð í Finnlandi þarf ekki að skrá hana í öðru norrænu landi vegna skammrar dvalar þar. Breytilegt er eftir löndum hve lengi má aka bifreið þar án þess að skrá hana inn í landið.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna