Framhaldsskólanám í Finnlandi

Lukio ja ammatillinen koulutus Suomessa
Photographer
Element5 Digital on Unsplash
Á þessari síðu finnur þú upplýsingar um nám í Finnlandi að loknum grunnskóla, þ.e. menntaskóla- og iðnskólanám. Hér er einnig sagt frá því hvernig sækja skal um skólavist í menntaskólum og iðnskólum í Finnlandi.

Þú getur sótt um framhaldsskólanám í Finnlandi ef þú hefur lokið grunnskólanámi eða sambærilegu námi. Einig þeir nemendur sem lokið hafa grunnskóla eða sambærilegu námi í öðrum löndum en Finnlandi geta sótt um menntaskóla- eða iðnnám þar. Almennar upplýsingar um menntaskóla- og iðnnám í Finnlandi eru á vefnum StudyInfo.

Norrænu löndin hafa gert með sér samning sem tryggir að nemendur eigi möguleika á að sækja um menntaskóla- og iðnnám í öðru norrænu landi á sama grundvelli og umsækjendur frá viðkomandi landi. Samningurinn skuldbindur aðildarlöndin einnig til þess að viðurkenna nám sem lokið hefur verið í öðru norrænu landi.

Ef þú hefur áhuga á framhaldsskólanámi á Álandseyjum skaltu kynna þér efni síðunnar Leiðbeiningar: Nám á Álandseyjum.

Námsmöguleikar

Í Finnlandi er hægt að stunda nám á framhaldsskólastigi í menntaskólum og iðnskólum.

Menntaskólanám

Finnskir menntaskólar veita almenna bóklega menntun á breiðum grundvelli og góðan undirbúning fyrir háskólanám. Menntaskólanám veitir engin formleg starfsréttindi.

Menntaskólanámið tekur þrjú ár að meðalatali og því lýkur alla jafna með stúdentsprófi. Stúdentspróf veitir nemendanum möguleika á að halda áfram námi á háskólastigi. Hægt er að ljúka menntaskólanámi án þess að þreyta stúdentspróf og öðlast þar með rétt til að sækja um í iðnháskóla eða verknám. Upplýsingar um einkunnagjöf eru á síðunni Einkunnaskalar í Finnlandi.

Menntaskólar í Finnlandi eru ýmist ríkis- eða einkareknir. Námið og nauðsynlegt námsefni og námsgögn eru ávallt án endurgjalds fyrir skólaskylda einstaklinga. Nánari upplýsingar um skólaskyldu og nám án endurgjalds eru á vefsvæði StudyInfo.

Í finnskum menntaskólum er yfirleitt kennt á finnsku eða sænsku. Í stærri borgum eru einnig alþjóðlegir menntaskólar, þar sem stunda má nám á t.d. ensku, þýsku eða frönsku. Nánari upplýsingar um menntaskólanám eru á vefsvæði fræðsluráðs í Finnlandi og vefsvæði StudyInfo.

Iðnnám

Iðnnám getur falið í sér grunnpróf eða meistarapróf í iðngrein og sérhæft iðnnám. Meistaraprófi í iðngrein má ýmist ljúka með námi í verklegum greinum, með stöðuprófum og námsmati eða á námssamningi. Ungmenni sem hefja nám í iðnskóla strax að grunnskólanámi loknu stunda yfirleitt fullt nám í dagskóla. Fullorðnir geta stundað námið með vinnu og byggist það þá á færnimati.

Auk kennslu í verklegum greinum samanstendur námið af almennri bóklegri menntun, valfrjálsum námskeiðum og yfirleitt einnig starfsnámi. Samhliða námi í verklegum greinum getur ungt fólk stundað menntaskólanám eða gengist undir stúdentspróf. Iðnnám og nauðsynlegt námsefni og námsgögn eru án endurgjalds fyrir skólaskylda einstaklinga.

Í iðnnámi getur falist nám á vinnustað sem ýmist er á grundvelli námssamnings eða starfsþjálfunarsamnings. Það nefnist námssamningur þegar námið fer aðallega fram á vinnustað í tengslum við verkefni þar. Slíkt nám er hægt að bæta við eftir þörfum með námi sem fer fram í annars konar námsumhverfi. Í námi á grundvelli starfsþjálfunarsamnings stundar nemandinn nám á vinnustað í tenngslum við verkefni þar. Þá er um að ræða starfsþjálfun án starfssamnings. Nánari upplýsingar um námssamning og fræðslusamning eru á vefsvæði fræðsluráðs í Finnlandi.

Iðnnám er hægt að stunda á finnsku eða sænsku, en ekki eru allar námsleiðir í boði á sænsku. Lítið framboð er af iðnnámi á ensku og yfirleitt er sótt um inngöngu í það milliliðalaust hjá viðkomandi skóla.​​​

Upplýsingar um einkunnagjöf eru á síðunni Einkunnaskalar í Finnlandi. Að iðnnámi loknu getur þú haldið áfram námi í iðnháskóla eða tekið inntökupróf í háskóla.

Nánari upplýsingar um iðnnám eru á vefsvæði StudyInfo og vefsvæði fræðsluráðs í Finnlandi.

Undirbúningsnám fyrir nám á framhaldsskólastigi

Ef þú vilt getur þú stundað undirbúningsnám, svokallað TUVA-nám, áður en þú hefur nám á framhaldsskólastigi. Hægt er að sækja um inngöngu í TUVA-nám í sameiginlegri umsóknalotu að vori eða í opnu umsóknarferli allt árið. Nánari upplýsingar um TUVA-nám eru á vefsvæði StudyInfo.

Að sækja um nám á framhaldsskólastigi

Í Finnlandi er sótt um inngöngu í menntaskólanám eða iðnskólanám fyrir ungt fólk gegnum sameiginlega umsóknalotu á vefsvæðinu StudyInfo, en þar eru einnig nánari upplýsingar um námsframboð og umsóknarferli. Sumar námsleiðir er einnig hægt að sækja um í opnu umsóknarferli allt árið. Umsóknartímar eru mismunandi eftir námsleiðum. Nánari upplýsingar finnur þú á vefsvæði StudyInfo.

Hafi umsækjandi lokið grunnskólanámi í öðru landi en Finnlandi þarf hann að sjá til þess að afrit af prófskírteini berist til þeirrar stofnunar sem sótt er um nám við, áður en umsóknartíma lýkur. Hver og ein menntastofnun metur hvort taka eigi inn nemendur sem lokið hafa grunnskóla í öðru landi, þar sem ekki er alltaf um sambærilegt nám að ræða. Nánari upplýsingar um inntöku nemenda eru á vefsvæði StudyInfo.

Ekki er sótt um iðnnám ætlað fullorðnum í sameiginlegri umsóknalotu, heldur beint til viðkomandi menntastofnunar. Hægt er að sækja um iðnnám ætlað fullorðnum árið um kring. Nánari tímasetningar umsókna og inntöku velta á hverri menntastofnun fyrir sig.

Hafir þú þegar lokið iðnnámi, námi á háskólastigi eða menntaskólanámi getur þú ekki sótt um nám að loknum grunnskóla í sameiginlegri umsóknalotu. Þú getur þó sótt um iðnnám eða iðnnám ætlað fullorðnum í opnu umsóknarferli.

Nánari upplýsingar um inntöku í nám að loknum grunnskóla eru á vefsvæði StudyInfo.

Aðrir námsmöguleikar

Þú getur líka komið til Finnlands sem skiptinemi eða stundað starfsnámshluta náms þíns í Finnlandi.

Skiptinám í framhaldsskóla

Heimsóknir á vegum skóla til Finnlands vara yfirleitt í viku eða mánuð, en í sumum skólum getur skiptitímabil varað allt upp í nokkra mánuði eða jafnvel heilt skólaár. Auk skiptináms bjóða sumir skólar líka upp á alþjóðleg verkefni sem unnin eru í samstarfi nemenda frá mismunandi löndum. Ekki hika við að spyrja um slík verkefni í skólanum þínum.

Skiptinám á framhaldsskólastigi er algengt milli norrænu landanna vegna þess að skólarnir fá fjármögnun til þess gegnum skiptiáætlanirnar Nordplus og Erasmus+. Starfsfólk skólans þíns sér um stjórnsýslulegar hliðar skiptináms og aðstoðar þig við umsóknarferlið. 

Starfsnám

Hægt er að ljúka námi á vinnustað, sem er hluti af iðnnámi, í öðru landi. Spurði skólann þinn um þá möguleika sem þér standa til boða. Ef þú stundar iðnnám á námssamningi skaltu leita til stofnunarinnar sem sér um námssamninginn.

Hvað þarf ég að vita um nám í Finnlandi?

Ef þú kemur til náms í Finnlandi er gott að hafa líka upplýsingar um húsnæðismál námsmanna, fjármögnun náms og viðurkenningu náms milli norrænu landanna, auk ýmissa atriða sem börn undir lögaldri þurfa að athuga. Við höfum safnað saman upplýsingum um þessi atriði á síðuna Leiðbeiningar: Nám í Finnlandi.

Vilt þú stunda nám á framhaldsskólastigi í öðru norrænu landi?

Á síðunum hér fyrir neðan finnur þú upplýsingar um nám á framhaldsskólastigi og hvernig sækja á um það í öðrum norrænum löndum.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna