Framhaldsskólanám í Finnlandi

Einstaklingur sem lokið hefur grunnskólaprófi eða öðru sambærilegu námi getur sótt um inngöngu í finnskan framhaldsskóla.
Sótt er um gegnum sameiginlegt umsóknarkerfi á vefsvæðinu Opintopolku.fi Nemendur sem lokið hafa grunnskólaprófi eða sambærilegu námi í öðrum löndum en Finnlandi geta sótt um inngöngu í menntaskóla eða iðnskóla í Finnlandi. Á Álandseyjum er annað umsóknakerfi en á finnska meginlandinu.
Hægt er að fá námsstyrk vegna náms að loknum grunnskóla. Nemendur frá öðrum norrænum löndum fá yfirleitt sambærilegan styrk frá heimalandi sínu. Meðal annarra fríðinda sem nemendum standa til boða í finnskum menntaskólum eru heitar máltíðir án endurgjalds.
Menntaskólanám
Finnskir menntaskólar veita almenna bóklega menntun. Meðallengd námsins er þrjú ár og því lýkur alla jafna með stúdentsprófi. Menntaskólagengnir nemendur öðlast rétt til áframhaldandi náms á háskólastigi, bóklegs eða verklegs..
Menntaskólar eru ýmist ríkis- eða einkareknir en námið er ávallt án endurgjalds. Nemendur þurfa þó sjálfir að verða sér úti um námsefnið. Hægt er að taka stök námskeið í kvöldskóla og þarf þá að greiða fyrir námskeiðsþátttöku. Sé nám til stúdentsprófs stundað í kvöldskóla er það án endurgjalds.
Í finnskum menntaskólum er yfirleitt kennt á finnsku eða sænsku. Í stærri borgum eru einnig alþjóðlegir menntaskólar þar sem nám er á t.d. ensku, þýsku eða frönsku.
Iðnnám
Iðnskólaprófi má ýmist ljúka með námi í verklegum greinum, með stöðuprófum og námsmati eða á námssamningi. Ungmenni sem hefja nám í iðnskóla strax að grunnskólanámi loknu stunda yfirleitt fullt nám í dagskóla. Fullorðnir geta stundað námið á sveigjanlegan hátt samhliða vinnu.
Auk kennslu í verklegum greinum samanstendur námið af almennri bóklegri menntun, valfrjálsum námskeiðum og starfsþjálfun. Samhliða námi í verklegum greinum er hægt að stunda menntaskólanám eða gangast undir stúdentspróf.
Að iðnnámi loknu er hægt að sækja um nám á háskólastigi, ýmist iðnnám eða bóklegt nám.
Iðnnám sem hefst að hausti skal sækja um að vori gegnum sameiginlegt umsóknakerfi á vefsvæðinu Opintopolku.fi. Á sumum iðnnámsbrautum er hægt að hefja nám í janúar. Sótt er um á vefsvæðinu Opintopolku.fi en umsóknartímar eru breytilegir eftir námsbrautum.
Iðnnám er hægt að stunda á finnsku eða sænsku. Ekki eru allar námsleiðir í boði á sænsku. Lítið framboð er af iðnnámi á ensku og yfirleitt er sótt um það beint til skólanna.
Nánari upplýsingar
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.