Íbúðarhúsnæði í Danmörku

Bolig i Danmark
Hér má lesa um ýmsar gerðir íbúðarhúsnæðis í Danmörku og rétt útlendinga til að eiga húsnæði þar í landi.

Í Danmörku eru ýmsar gerðir íbúðarhúsnæðis:

  • Eigið húsnæði
  • Búseturéttarhúsnæði
  • Leiguhúsnæði

Ef þú hefur átt heima í Danmörku í samanlagt fimm ár er þér heimilt að kaupa húsnæði þar í landi án þess að sækja um leyfi hjá Civilstyrelsen. Þó eru undantekningar frá þeirri reglu. Um þær má lesa í kaflanum „Er þér heimilt að kaupa íbúðarhúsnæði í Danmörku?“

Eigið húsnæði

Eigið húsnæði (ejerbolig) er húsnæði sem er í eigu íbúans. Húsnæðiseigendum er skylt að greiða fasteignagjöld.

Ef þú hyggst taka lán til kaupa á eigin húsnæði geturðu valið um fjórar tegundir lána:

  • Skuldabréfalán (obligationslån);
  • Staðgreiðslulán (kontantlån);
  • Afborgunarlaus lán (afdragsfrie lån);
  • Lán með breytilegum vöxtum (rentetilpasningslån).

Fjárhagsaðstæður þínar og framtíðarhorfur í þeim efnum skera úr um hvaða tegund af láni þú ættir að velja.

Geturðu staðgreitt íbúðarhúsnæðið eða þarftu lán fyrir hluta kaupverðsins? Þessi og ýmis önnur atriði þarftu að íhuga áður en þú festir kaup á íbúðarhúsnæði.

Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk.

Búseturéttarhúsnæði

Búseturéttarhúsnæði (andelsbolig) er í eigu íbúanna sem þeir reka í samvinnufélagi. Það þýðir að félagar í búseturéttarfélaginu eru íbúar hússins.

Ef þú kaupir búseturéttarhúsnæði þýðir það ekki að þú eigir húsnæðið. En sem félagi í búseturéttarfélaginu áttu hlut í höfuðstól félagsins og hefur búseturétt í einni íbúðanna.

Þegar þú kaupir búseturéttarhúsnæði greiðirðu eingreiðslu til búseturéttarfélagsins. Auk þess greiðirðu mánaðarlegt húsnæðisgjald.

Eingreiðslan er oft tiltölulega há en samt lægri en þegar um kaup á eigin húsnæði er að ræða.

Margir velja þann kost að fjármagna eingreiðsluna með búseturéttarhúsnæðisláni (andelsboliglån).

Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk.

Leiguhúsnæði

Ef þú ert leigjandi er kveðið á um réttindi þín og skyldur í leigulögunum (lejeloven). Þar er einnig fjallað um samskipti leigjanda og leigusala.

Upplýsingar um leiguhúsnæði eru á vefsíðu Lejernes Landsorganisation.

Leiguhúsnæði er tvenns konar, húsnæði í einkaeigu og almennt leiguhúsnæði.

Útlendingum getur reynst erfitt að komast í almennt leiguhúsnæði vegna þess hvað biðlistarnir geta verið langir. Þess vegna velja útlendingar yfirleitt leiguíbúðir í einkaeigu þar sem biðtíminn er styttri.

Ef þú hyggst leigja íbúðarhúsnæði í Danmörku þarftu að hafa eftirfarandi í huga:

  • Afar mikilvægt er að gera leigusamning sem stenst leigulögin.
  • Ástand íbúðarinnar. Eigi síðar en 14 dögum eftir að þú tekur við íbúðinni þarftu að benda á galla sem kunna að leynast í henni. Að öðrum kosti getur lent á þér að greiða fyrir úrbæturnar. Eins er ráðlegt að kaupa innbústryggingu (indboforsikring).

Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk.

Kaup á sumarbústað

Flestir danskir sumarbústaðir eru einnig íbúðarhæfir á veturna en til þess að hægt sé að búa í þeim allan ársins hring þarf að skrá þá sem heilsárshúsnæði.

Ef þú hyggst kaupa sumarbústað í Danmörku þarftu að hafa átt lögheimili í Danmörku í samanlagt fimm ár (sjá neðar: „Er þér heimilt að kaupa íbúðarhúsnæði í Danmörku?“).

Að öðru leyti gilda sömu reglur um kaup á sumarbústöðum og þegar um kaup á venjulegu heilsárshúsi er að ræða.

Er þér heimilt að kaupa búðarhúsnæði í Danmörku?

Ef þú hyggst kaupa fasteign í Danmörku eru gerðar ákveðnar kröfur um tengsl þín við landið.

Heilsársíbúðarhúsnæði

Ef þú býrð í Danmörku eða hefur búið í Danmörku í samtals fimm ár, samfellt eða samanlagt, er þér heimilt að kaupa heilsársíbúðarhúsnæði í Danmörku án sérstaks leyfis frá Civilstyrelsen. Dvöl í Færeyjum eða á Grænlandi jafngildir dvöl í Danmörku.

Ef þú ert ríkisborgari í ESB- eða EES-landi en uppfyllir ekki fyrrnefndar kröfur er þér heimilt að kaupa heilsársíbúðarhúsnæði í Danmörku án sérstaks leyfis frá Civilstyrelsen ef þú uppfyllir að minnsta kosti eitt af skilyrðunum í 1. grein Tilkynningar um kaup á húsnæði (Erhvervelsesbekendtgørelsen):

  • þú ert launþegi og starfar sem slíkur í landinu eða ert með ESB-/EES–dvalarleyfi;
  • þú hefur eða hyggst hefja sjálfstæðan atvinnurekstur hér í landi eða;
  • þú hefur stofnað eða hyggst stofna umboðsskrifstofur eða útibú hér í landi, eða hyggst veita eða neyta þjónustu hér í landi.

Ef þú ert ríkisborgari í ESB-landi geturðu jafnframt keypt heilsársíbúðarhúsnæði í Danmörku án sérstaks leyfis frá Civilstyrelsen, þrátt fyrir að þú eigir hvorki lögheimili né samastað hér í landi eða búið hér samanlagt í fimm ár ef þú uppfyllir skilyrði í 2. grein Tilkynningar um kaup á húsnæði (Erhvervelsesbekendtgørelsen).

Þess er krafist að þú hafir dvalarleyfi samkvæmt EB-tilskipununum:

  • 90/364/EBE um búseturétt;
  • 90/365/EBE um búseturétt launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem hafa látið af störfum;
  • eða 93/96/EBE um búseturétt námsmanna (nú tilskipun 2004/38/EB um rétt borgara til frjálsrar farar og dvalar).

Kaupsamningi um fasteign er hægt að þinglýsa án sérstaks leyfis frá Civilstyrelsen að því tilskildu að þú gefir út yfirlýsingu þar sem fram kemur að þú sért í einum þeirra hópa kaupenda sem er heimilt að kaupa fasteign án leyfis frá Civilstyrelsen.

Í yfirlýsingunni skal einnig tekið fram að fasteignin verði heilsársíbúðarhúsnæði þitt eða að fasteignakaupin séu forsenda þess að þú getir stundað sjálfstæðan atvinnurekstur eða veitt þjónustu. Sýnishorn af yfirlýsingu er að finna í fylgiskjali Tilkynningar um kaup á húsnæði (Erhvervelsesbekendtgørelse).

Ef þú uppfyllir engin fyrrnefndra skilyrða þarftu að sækja um leyfi hjá Civilstyrelsen til að kaupa heilsársíbúðarhúsnæði í Danmörku.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Civilstyrelsen. Þar er að finna tengil á umsóknareyðublað.

Sumarbústaður eða frístundahús

Ef þú hyggst kaupa sumarbústað, frístundahús eða annað aukahúsnæði í Danmörku án sérstaks leyfis frá Civilstyrelsen þarftu að eiga lögheimili í Danmörku eða hafa búið í landinu í samtals fimm ár, annað hvort samfellt eða samanlagt.

Ef þú uppfyllir ekki þessi skilyrði þarftu að sækja um leyfi hjá Civilstyrelsen til að kaupa aukahúsnæði í Danmörku.

Civilstyrelsen veitir eingöngu leyfi til kaupa á sumarbústað, frístundahúsi eða öðru aukahúsnæði ef þú sem umsækjandi hefur sérlega sterk tengsl við Danmörku.

Við afgreiðslu umsóknarinnar hjá Civilstyrelsen er litið til ýmissa annarra þátt sem varða tengsl þín við landið þegar mat er lagt á hvort veita skuli leyfið. Meðal þeirra þátta eru:

  • fyrri búseta í Danmörku;
  • sérstök fjölskyldutengsl í Danmörku;
  • sérstök atvinnutengsl í Danmörku;
  • sérstök menningartengsl í Danmörku;
  • sérstök efnahagsleg tengsl í Danmörku;
  • sérstök tengsl við þá fasteign sem ráðgert er að festa kaup á.

Ef þú hyggst sækja um leyfi hjá Civilstyrelsen til kaupa á sumarbústað, frístundahúsi eða öðru aukahúsnæði í Danmörku þarftu að fylla út umsóknareyðublað stofnunarinnar.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Civilstyrelsen. Þar er að finna tengil á umsóknareyðublað.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna