Kosningaréttur í Finnlandi

Äänioikeus Suomessa
Hér er sagt frá því hvernig almannakosningar í Finnlandi ganga fyrir sig og hverjir hafa kosningarétt í þeim.

Ríkisborgarar annarra norrænna landa hafa, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, kosningarétt og kjörgengi í finnskum sveitarstjórnarkosningum og í ráðgefandi íbúakosningum um málefni sveitarfélaga, og borgarar norrænna aðildarríkja Evrópusambandsins mega kjósa í kosningum til Evrópuþingsins. Í finnskum þing- og forsetakosningum og almennum þjóðaratkvæðagreiðslum hafa aðeins finnskir ríkisborgarar kosningarétt. Nánari upplýsingar um kosningar eru á kosningasíðum finnska dómsmálaráðuneytisins.

Sveitarstjórnarkosningar

Borgarar Finnlands og annarra Evrópusambandslanda, auk Íslands og Noregs, hafa kosningarétt til sveitarstjórna í Finnlandi ef þeir hafa náð 18 ára aldri á kjördegi og haft búsetu í sveitarfélaginu í að minnsta kosti 51 dag fram að kjördegi.

Auk þess hafa kosningarétt ríkisborgarar annarra landa sem hafa náð 18 ára aldri á kjördegi og búið í sveitarfélaginu í að minnsta kosti 51 dag fram að kjördegi og sem hafa haft fasta búsetu í Finnlandi í að minnsta kosti tvö ár samfleytt.

Íbúar sveitarfélags hafa kjörgengi í sveitarstjórnarkosningum ef þeir hafa kosningarétt í sömu kosningum og eru sjálfráða.

Sveitarstjórnarkosningar fara fram á fjögurra ára fresti.

Kosningar til Evrópuþingsins

Allir finnskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag mega kjósa til Evrópuþingsins í Finnlandi, óháð búsetustað.

Það mega einnig borgarar annarra aðildarríkja Evrópusambandsins sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag og átt búsetu í Finnlandi í minnst 51 dag fram að kjördegi. Til að virkja kosningaréttinn þarf þó að skrá sig á kjörskrá í Finnlandi. Ganga þarf frá skráningunni á skráningarskrifstofu síns búsetusveitarfélags (Maistraatti) minnst 80 dögum fyrir kjördag. Hægt er að skrá sig með því að skila inn eyðublaði frá finnsku þjóðskránni.

Kosningaréttur til Evrópuþingskosninga felur aðeins í sér rétt til að kjósa í einu aðildarríki Evrópusambandsins, annað hvort uppruna- eða búsetulandi.

Finnskur ríkisborgari sem hefur skráð sig tímanlega á kjörskrá annars aðildarríkis Evrópusambandsins vegna Evrópuþingskosninga hefur ekki kosningarétt í sömu Evrópuþingskosningum í Finnlandi.

Kosningar til Evrópuþingsins fara fram á fimm ára fresti.

Þingkosningar

Kosningarétt í finnskum þingkosningum hafa allir finnskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag, óháð búsetustað. Allir finnskir ríkisborgarar sem búsettir eru í öðrum löndum hafa kosningarétt í finnskum þingkosningum. Kjörskrá hverju sinni er byggð á upplýsingum sem fengnar eru úr þjóðskrá 51 degi fyrir kosningarnar. Því hafa finnskir ríkisborgarar aðeins kosningarétt í þingkosningum ef ríkisfang þeirra er skráð áður en kjörskrá er tekin saman.

Kjörgengi í finnskum þingkosningum hefur allt fólk sem hefur kosningarétt og er sjálfráða, að frátöldum atvinnuhermönnum og þeim sem gegna tilteknum háttsettum embættum.

Þingkosningar fara fram á fjögurra ára fresti.

Forsetakosningar

Kosningarétt í finnskum forsetakosningum hafa allir finnskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag, óháð búsetustað. Kjörskrá hverju sinni er byggð á upplýsingum sem fengnar eru úr þjóðskrá 51 degi fyrir kosningarnar. Því hafa finnskir ríkisborgarar aðeins kosningarétt í forsetakosningum ef ríkisfang þeirra er skráð áður en kjörskrá er tekin saman.

Forseti finnska lýðveldisins þarf að vera finnskur ríkisborgari og fæddur í Finnlandi.

Forsetakosningar fara fram á sex ára fresti.

Þjóðaratkvæðagreiðslur og íbúakosningar

Um kosningarétt í ráðgefandi íbúakosningum sveitarfélaga gilda sömu reglur og um kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum.

Um kosningarétt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslum gilda sömu reglur og um kosningarétt í þingkosningum. Þegar þetta er ritað hefur tvisvar verið efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu í Finnlandi: um afnám áfengisbanns árið 1931 og um inngöngu í Evrópusambandið 1994.

Nánari upplýsingar eru á kosningasíðum finnska dómsmálaráðuneytisins.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna