Lífeyriskerfið í Finnlandi

Suomen eläkejärjestelmä
Hér er sagt frá finnska lífeyriskerfinu og því hvernig fólk ávinnur sér lífeyrisréttindi. Þær upplýsingar sem hér koma fram eiga einnig við Álandseyjar.

Finnska lífeyriskerfið skiptist í starfstengdan lífeyri, sem aflað er með því að vinna í Finnlandi, og lífeyri úr almannatryggingasjóði, sem tengist búsetu í Finnlandi.

Bæði starfstengdur lífeyrir og lífeyrir úr almannatryggingasjóði er greiddur í formi ellilífeyris, örorkulífeyris, endurhæfingarstyrks og fjölskyldulífeyris. Frá og með árinu 2017 hefur einnig verið hægt að fá starfstengdan lífeyri greiddan að hluta sem ellilífeyri og starfsferilslífeyri.

Starfstengdur lífeyrir

Vinnuveitanda er skylt að tryggja starfsfólk sitt og sjálfstætt starfandi einstaklingum er skylt að tryggja sig hjá einhverri lífeyrisstofnun. Slíkar stofnanir eru lífeyristryggingafélög og lífeyrissjóðir. Í sumum starfsgreinum eru starfandi sérstakir lífeyrissjóðir.

Bæði vinnuveitandi og launþegi greiða í starfstengdan lífeyrissjóð. Vinnuveitandi dregur lífeyrisgreiðslur launþega frá launum hans og leggur inn í lífeyrissjóð. Sjálfstætt starfandi einstaklingar sjá sjálfir um að greiða í lífeyrissjóð. Mismunandi lífeyrislög gilda um tryggingar fyrir mismunandi hópa. Lífeyrisþegi fær allan sinn starfstengda lífeyri frá sömu lífeyrisstofnun þó að hann hafi starfað í fleiri en einni grein og verið tryggður hjá fleiri en einni stofnun á starfsævinni.

Öflun starfstengdra lífeyrisréttinda

Launþegar byrja að afla sér lífeyrisréttinda við 17 ára aldur og sjálfstætt starfandi einstaklingar við 18 ára aldur.

Í ársbyrjun 2017 voru gerðar umbætur á finnska lífeyriskerfinu sem fela í sér að launþegar og sjálfstætt starfandi safni lífeyrisréttindum sem nemur 1,5 prósenti af árstekjum. Árin 2017–2025 eru hugsuð sem aðlögunartími og á því tímabili mun fólk á aldrinum 53–62 ára safna sér réttindum árlega sem nemur 1,7 prósenti af árstekjum.

Þegar einstaklingur fer á lífeyri er greiðslum hagað í samræmi við mat á áætluðum lífslíkum.

Lífeyrir úr almannatryggingasjóði

Lífeyrir úr almannatryggingasjóði er tengdur búsetu. Réttur til slíks lífeyris og upphæð hans er háð því hve lengi einstaklingur hefur verið innan finnska almannatryggingakerfisins – með öðrum hve lengi hann hefur búið í Finnlandi – svo og öðrum lífeyristekjum. Umsjón með lífeyrisgreiðslum úr almannatryggingasjóði hefur finnska almannatryggingastofnunin (Kansaneläkelaitos eða Kela).

Tegundir lífeyris

Ellilífeyrir og ellilífeyrir að hluta

Ellilífeyrir í Finnlandi er að megninu til starfstengdur lífeyrir sem fók hefur aflað á starfsferli sínum. Sé starfstengdur lífeyrir einstaklings óverulegur eða ekki til staðar getur hann fengið lífeyri úr almannatryggingasjóði og hugsanlega lágmarkslífeyri, sem greiðast sem fyrr segir úr búsetutengdum sjóðum.

Ellilífeyrir að hluta þýðir að lífeyrisþega er frjálst að vinna samhliða töku lífeyris. Starfshlutfalli eru ekki takmörk sett. Þó er ekki skylt að vinna. 

Örorkulífeyrir

Örorkulífeyrir er veittur vegna varanlegrar skerðingar á starfsgetu. Áður en örorkulífeyrir er veittur er hægt að fá endurhæfingarstyrk, sem jafngildir tímabundnum örorkulífeyri. Ávallt er látið reyna á endurhæfingu áður en einstaklingur er settur á örorku.

Starfsferilslífeyrir

Starfsferilslífeyri er unnt að veita einstaklingi

  • sem fæddur er árið 1955 eða síðar
  • sem er orðinn 63ja ára
  • sem hefur stundað mikla og krefjandi vinnu í að minnsta kosti 38 ár og
  • sem hefur lítillega skerta starfsgetu.
Fjölskyldulífeyrir

Fjölskyldulífeyrir er greiddur ekkjum, ekklum og börnum yngri en 18 ára. Kela greiðir barnalífeyri einnig til einstaklinga yngri en 21 árs sem eru í fullu námi. Ekkjur og ekklar sem búa í öðrum löndum, en heyra undir finnska almannatryggingakerfið og uppfylla skilyrði að öðru leyti, geta fengið lífeyri frá Finnlandi.

Að flytja erlendis sem lífeyrisþegi

Lífeyrisþegi sem flytur frá Finnlandi til annars norræns lands á áfram rétt á sama starfstengda lífeyri og lífeyri úr almannatryggingsjóði og fyrir flutninginn. Húsnæðisstyrkur lífeyrisþega er þó ekki greiddur til annarra landa en Finnlands. Viðbótarbarnabætur eru greiddar sem fjölskyldustyrkur í samræmi við ESB-reglugerð til einstaklinga sem fá starfstengdar lífeyrisgreiðslur eða lífeyrisgreiðslur úr almannatryggingasjóði frá Finnlandi. Lágmarkslífeyrir er aðeins greiddur einstaklingum búsettum í Finnlandi. Lágmarkslífeyrisþegi getur þó dvalið tímabundið í öðru landi án þess að fyrirgera lífeyrisrétti sínum.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna