Dánarbætur í Finnlandi
Fólk sem misst hefur náinn aðstandanda getur meðal annars fengið greiddan fjölskyldulífeyri frá finnsku almannatryggingastofnuninni (Kansaneläkelaitos eða Kela), úr starfstengdum lífeyrissjóði og gegnum bifreiðatryggingar sínar. Fjölskyldulífeyrir er fjárhagslegur stuðningur við fjölskyldu.
Hafi hinn látni verið tryggður í Finnlandi geta eftirlifandi maki og börn fengið finnskan fjölskyldylífeyri greiddan þótt þau búi í öðru landi.
Lífeyrir eftirlifandi maka
Fjölskyldulífeyri er hægt að fá frá Kela og úr starfstengdum lífeyrissjóði. Eftirlifandi makar geta þegið lífeyri frá Kela og vinnulífeyriskerfinu á sama tíma og eftirlifandi sambúðarfólk getur einnig átt rétt á honum.
Lífeyrir Kela fyrir eftirlifandi maka samanstendur af upphafslífeyri og framhaldslífeyri. Greiðslurnar hætta að berast við 65 ára aldur í síðasta lagi. Nánari upplýsingar á vefsvæði Kela.
Starfstengdir lífeyrissjóðir greiða lífeyri til eftirlifandi maka án aldurshámarks, en greiðslur vegna andláts maka á árinu 2022 eða síðar eru tímabundnar ef eftirlifandi maki er fæddur 1975 eða síðar. Lífeyrir starfstengdra lífeyrissjóða til eftirlifandi maka er starfstengdur lífeyrir sem hinn látni vann sér inn í lifanda lífi, en tekjur eftirlifandi maka kunna að koma til frádráttar. Nánari upplýsingar eru á vefsvæðinu Työeläke.fi.
Barnalífeyrir
Almannatryggingastofnunin Kela greiðir eftirlifandi börnum undir átján ára aldri grunnlífeyri og uppbótarlífeyri. Ungmenni í námi fá grunnlífeyri fram að 21 árs aldri. Slíkur lífeyrir er einnig nefndur skólalífeyrir. Nánari upplýsingar á vefsvæði Kela.
Starfstengdir lífeyrissjóðir greiða eftirlifandi börnum undir 20 ára lífeyri. Upphæð lífeyrisins ræðst af þeim starfstengda lífeyri sem framfærsluaðili barnsins vann sér inn í lifanda lífi. Nánari upplýsingar eru á vefsvæðinu Työeläke.fi.
Aðrar tryggingar
Eftirlifandi makar og börn geta einnig fengið fjölskyldu- eða framfærslulífeyri úr tryggingum vegna slysa og umferðarslysa og slysa eða meiðsla á hermönnum eða sjúklingum. Eftirlifandi makar og börn geta líka fengið eingreiðslu út úr hóplíftryggingu ef hinn látni var á vinnumarkaði við andlátið. Nánari upplýsingar á vefsvæði Kela.
Hafi látinn maki eða framfærsluaðili verið með sérstaka lífeyristryggingu eða líftryggingu getur eftirlifandi maki eða barn einnig fengið bætur frá tryggingafélaginu. Fáðu nánari upplýsingar hjá viðeigandi tryggingafélagi.
Fjölskyldulífeyrir frá öðrum löndum
Hafi látinn maki eða framfærsluaðili starfað í öðru norrænu landi á lífsleiðinni er hugsanlegt að eftirlifandi makar og börn eigi rétt á fjölskyldulífeyri þaðan. Nánari upplýsingar eru hér fyrir neðan.
Nánari upplýsingar
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.