Örorkulífeyrir í Finnlandi

Suomen työkyvyttömyyseläke
Hafir þú átt við langvinn veikindi að stríða getur þú átt rétt á bótum sem nefnast örorkulífeyrir. Á þessari síðu segir frá tímabundnum örorkulífeyri í Finnlandi, öðru nafni endurhæfingarlífeyri, og örorkulífeyri sem þú getur fengið ef veikindi eða slys skerða starfsgetu þína eða koma í veg fyrir að þú getir stundað vinnu. Þær reglur sem hér er lýst eiga einnig við á Álandseyjum.

Í málum sem varða skerta starfsgetu og umsóknir um örorkulífeyri er oftast nær krafist ítarlegra skýringa og læknisvottorða. Ef þú ert á vinnumarkaði skaltu snúa þér til heilsuverndar vinnustaða. 

Ávallt er látið reyna á endurhæfingu áður en einstaklingur er settur á örorku og þegar sótt er um örorkubætur vegna skertrar starfsgetu kanna starfstengdu lífeyrissjóðirnir ávallt hvort umsækjandi eigi rétt á endurhæfingu. Nánari upplýsingar eru á síðunni Endurhæfing í Finnlandi.

Getur þú fengið finnskan örorkulífeyri?

Í Finnlandi er örorkulífeyrir greiddur samkvæmt lögum um starfstengdan lífeyri og lífeyri úr amannatryggingasjóði.

Örorkulífeyrir samkvæmt lögum um starfstengdan lífeyri

Þú getur fengið örorkulífeyri samkvæmt lögum um starfstengdan lífeyri ef þú hefur aflað þér réttinda til starfstengds lífeyris með vinnu þinni, og ef starfsgeta þín hefur verið skert vegna veikinda eða slyss í að minnsta kosti eitt ár. Örorkulífeyri er hægt að greiða fólki sem er 17 ára eða eldri en hefur ekki náð aldurslágmarkinu fyrir ellilífeyri í sínum aldurshópi. Örorkulífeyri er hægt að greiða ótímabundið eða sem tímabundinn endurhæfingarstyrk. Örorkulífeyri sem lýtur lögum um starfstengdan lífeyri er einnig hægt að greiða að hluta, allt eftir því hversu skert starfsgetan er.

Örorkulífeyrir sem lýtur lögum um starfstengdan lífeyri samanstendur af þeim lífeyri sem viðkomandi hefur áunnið sér áður en örorkutímabilið hófst, auk framreiknaðs lífeyris. Með framreiknuðum lífeyri er átt við að auk hins raunverulegra tíma sem viðkomandi var á vinnumarkaði er einnig reiknaður út sá tími sem viðkomandi hefði getað verið á vinnumarkaði eftir það, allt frá fyrsta ári örorku fram til lægsta eftirlaunaaldurs. Nánari upplýsingar eru á síðunni Työeläke.fi.

Örorkulífeyrir samkvæmt lögum um lífeyri úr almannatryggingasjóði

Örorkulífeyrir samkvæmt lögum um lífeyri úr almannatryggingasjóði

Þú getur fengið örorkulífeyri samkvæmt lögum um lífeyri úr almannatryggingasjóði ef þú uppfyllir öll eftirtalin skilyrði:

  • Veikindi, meiðsl eða fötlun koma í veg fyrir að þú getir stundað vinnu þér til framfærslu
  • Þú ert á aldrinum 16–64 ára
  • Aðrar lífeyrisgreiðslur og bætur sem þú þiggur eru undir tekjumörkum almannatryggingastofnunar Finnlands (Kela)
  • Þú hefur búið í Finnlandi í að minnsta kosti þann lágmarkstíma sem kveðið er á um í lögum, eða í þrjú ár eftir 16 ára aldur. Hafir þú verið almannatryggður í öðru ESB/EES-landi eða Sviss fyrir flutning til Finnlands er hægt að taka þann tíma með í reikninginn. Reglan um lágmarksbúsetutíma gildir ekki fyrir ungt fólk með skerta starfsgetu, hafi það áður þegið fötlunarstyrk Kela fyrir ungmenni undir 16 ára, eða ef skerðingin á starfsgetu hófst þegar viðkomandi var yngri en 19 ára og bjó í Finnlandi.

Umsóknir

Sótt er um lífeyri á mismunandi hátt eftir því hvort þú býrð í Finnlandi eða öðru norrænu landi.

Ef þú býrð í Finnlandi

Ef þú býrð í Finnlandi geturðu sótt um örorkulífeyri frá almannatryggingastofnuninni Kela og frá þínum starfstengda lífeyrissjóði. Hafir þú áður starfað í öðru norrænu landi getur þú sótt um örorkulífeyri þaðan á sama tíma og þú sækir um örorkulífeyri frá Finnlandi.

Ef þú sækir um örorkulífeyri frá einu eða fleiri norrænum löndum skaltu ahuga að skilyrði fyrir veitingu örorkulífeyris geta verið breytileg milli landanna.

Ef þú býrð í öðru norrænu landi

Ef þú býrð í öðru norrænu landi en hefur áður starfað í Finnlandi getur þú sótt um örorkulífeyri frá Finnlandi á sama tíma og þú sækir um örorkulífeyri frá búsetulandinu. Nánari upplýsingar um umsóknarferlið eru á síðunni um örorkulífeyri í þínu búsetulandi.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna