Endurhæfing í Finnlandi

Kuntoutus Suomessa
Ef starfsgeta þín skerðist vegna sjúkdóms, veikinda eða meiðsla gætir þú þurft á endurhæfingu að halda. Á þessari síðu segir frá endurhæfingu í Finnlandi. Þær reglur sem hér er lýst eiga einnig við á Álandseyjum.

Endurhæfing hjálpar fólki að lifa með sjúkdómi eða veikindum, halda áfram að vinna eða komast aftur út á vinnumarkaðinn. Endurhæfing er ávallt það fyrsta sem skal reyna þegar vandamál koma upp í sambandi við starfsgetu.

Þær leiðir til endurhæfingar sem eru í boði á vegum finnsku almannatryggingastofnunarinnar (Kansaneläkelaitos eða Kela) eru starfsendurhæfing, læknisfræðileg endurhæfing, sem getur verið afar krefjandi, endurhæfing gegnum sálfræðimeðferð og valkvæð endurhæfing. Kela býður einnig upp á starfsendurhæfingu fyrir ungt fólk á aldrinum 16–29 ára sem ekki á við veikindi að stríða. Kela getur greitt endurhæfingarlífeyri fyrir tímabil endurhæfingar sem fram fer á vegum heilsuverndar á vinnustöðum, sveitarfélaga eða Kela.

Fyrir utan Kela er einnig hægt að sækja endurhæfingu hjá meðal annars opinbera heilbrigðiskerfinu í Finnlandi, heilsuvernd vinnustaða, félagsþjónustu sveitarfélaganna og ýmsum samtökum.

Starfstengdir lífeyrissjóðir í Finnlandi standa einnig fyrir starfsendurhæfingu. Þegar sótt er um örorkubætur vegna skertrar starfsgetu kanna starfstengdu lífeyrissjóðirnir ávallt hvort umsækjandi eigi rétt á endurhæfingu. Stofnunin sem þú sækir um hjá getur veitt þér upplýsingar um hvar þú getur sótt um endurhæfingu.

Hafir þú lent í slysi, svo sem vinnuslysi eða umferðarslysi, eða ef þú þjáist af atvinnusjúkdómi, þá sér tryggingafélagið vanalega um að koma þér í starfsendurhæfingu.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna