Endurhæfing í Finnlandi

Ef starfsgeta einstaklings skerðist sökum veikinda, meiðsla eða fötlunar kann hann að þurfa á endurhæfingu að halda. Endurhæfing hjálpar fólki að lifa með veikindum, halda áfram að vinna eða komast aftur út á vinnumarkaðinn.
Endurhæfing á vegum finnsku almannatryggingastofnunarinnar (Kansaneläkelaitos eða Kela) getur til dæmis verið í formi hópmeðferðar, sálfræðimeðferðar eða starfsendurhæfingar. Einnig er hægt að sækja endurhæfingu á vegum almenna heilbrigðiskerfisins, heilsuverndar á vinnustöðum, félagsþjónustu sveitarfélaga og fötlunarsamtaka. Einstaklingar sem undirgangast endurhæfingu á vegum þessara aðila ættu að kynna sér hvort þeir eiga rétt á endurhæfingarstyrk frá Kela.
Lífeyrisstofnanir sinna einnig iðjuþjálfun og starfstengdri endurhæfingu. Endurhæfing er ávallt fyrsti valkostur þegar starfsgeta skerðist og þegar sótt er um örorku ganga lífeyrisstofnanir alltaf úr skugga um hvort umsækjandi á rétt á endurhæfingu. Heimilislæknar og Kela veita upplýsingar um hvar sækja má um endurhæfingu. Þurfi einstaklingurr endurhæfingu sem ekki er veitt á vegum Kela verður honum vísað á viðeigandi stað.
Hafi einstaklingur lent í slysi (til dæmis vinnu- eða umferðarslysi) eða er með atvinnusjúkdóm sér viðkomandi tryggingafélag yfirleitt um að koma honum í endurhæfingu.
Nánari upplýsingar
Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.