Almannatryggingar í Finnlandi fyrir fólk sem býr þar eða starfar

Suomen sosiaaliturva, kun asut tai työskentelet Suomessa
Photographer
Rémi Walle on Unsplash
Á þessari síðu er fjallað um rétt til finnskra almannatrygginga við mismunandi aðstæður. Sagt er frá því hvað gera skal þegar þú flytur til Finnlands eða frá Finnlandi, eða hefur störf í Finnlandi eða erlendis á meðan þú býrð í Finnlandi. Einnig segir frá mismunandi reglum sem gilda um fjölskyldufólk, námsstyrkþega, háskólanema, atvinnulausa eða útsenda starfsmenn, eða fólk sem er í vinnuferð eða vinnur fjarvinnu í öðru landi.

Þú getur aðeins átt aðild að almannatryggingum í einu landi í einu. Yfirleitt áttu aðild að almannatryggingum í landinu sem þú starfar í. Ef þú ert ekki á vinnumarkaði er meginreglan sú að þú eigir aðild að almannatryggingum í búsetulandi þínu. Í ýmsum tilvikum er þó ástæða til að athuga málið sérstaklega. Á þessari síðu er sjónum beint að finnskum reglum sem gilda um almannatryggingar við mismunandi aðstæður. 

Almennar upplýsingar um aðild að almannatryggingum við mismunandi aðstæður eru á síðunni Hvar átt þú aðild að almannatryggingum? Nánari upplýsingar um bætur og þjónustu á vegum finnska almannatryggingakerfisins eru á safnsíðunni Almannatryggingar og á vefsvæði finnska félags- og heilbrigðismálaráðuneytisins.

Ef þú býrð eða starfar í Finnlandi

Það eitt að flytja til Finnlands nægir ekki til að eiga rétt á bótum úr finnskum almannatryggingum. Ef þú sækir um bætur í Finnlandi metur finnska almannatryggingastofnunin (Kela) hvort þú getir talist hafa varanlega búsetu í Finnlandi eða hvort þú eigir rétt á bótum almannatryggingastofnunar vegna vinnu þinnar í Finnlandi. Þú getur lesið meira um það að flytja til Finnlands á síðunni Að tilkynna flutninga og skrá sig í þjóðskrá í Finnlandi.

Athugaðu að þú átt aðild að almannatryggingum í því landi sem þú starfar í, eða landinu hvers lög og reglur eiga við í þínu tilviki. Það þýðir að þú getur ekki átt áfram aðild að finnskum atvinnuleysissjóði ef þú hefur flutt til annars lands vegna vinnu og ert almannatryggð/t/ur í starfslandinu. Nánari upplýsingar um þetta eru á síðunni Atvinnuleysisbætur í Finnlandi.

Þú getur öðlast rétt til almannatrygginga í Finnlandi án tafar ef þú flytur þangað til lengri tíma, eða ef þú vinnur í Finnlandi og uppfyllir skilyrði um lágmarkslaun. Atvinnuíþróttafólk er hér lagt að jöfnu við launþega. Nánari upplýsingar um skilyrði um lágmarkslaun eru á vefsvæði Kela. 
 

Ef þú kemur til Finnlands frá öðru norrænu landi, hefur stundað sjálfstæðan atvinnurekstur í minnst fjóra mánuði samfleytt og hefur fengið þér tryggingu sjálfstæðra atvinnurekenda samkvæmt lögum um lífeyri sjálfstæðra atvinnurekenda (YEL) hefur þú sem sjálfstæður atvinnurekandi rétt á bótum og styrkjum frá upphafi rekstrartímabilsins.
 

Ef þú ert útsendur starfsmaður frá öðru landi heldur þú vanalega almannatryggingum brottfararlandsins. Þú þarft að hafa meðferðis A1-vottorð frá brottfararlandinu. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Your Europe.
 

Ef fólk kemur til Finnlands í starfsnám, sem au pair eða til annarra starfa sem eru til skemmri tíma og/eða veita litlar tekjur, þá hefur það almennt séð ekki rétt á bótum eða styrkjum frá Kela ef það uppfyllir ekki skilyrði um lágmarkslaun og hefur ekki fasta búsetu í Finnlandi. Í slíkum tilvikum á fólk áfram aðild að almannatryggingum í brottfararlandinu.
 

Ef fólk stendur utan finnska almannatryggingakerfisins á það rétt á heilbrigðisþjónustu í Finnlandi gegn framvísun evrópsks sjúkratryggingakorts frá heimalandi sínu. Ríkisborgarar Norðurlanda eiga líka að geta fengið þjónustu gegn framvísun vegabréfs eða annarra gildra persónuskilríkja. Nánari upplýsingar eru á síðunni Réttur til heilbrigðisþjónustu í Finnlandi.
 

Ef þú starfar í öðru landi

Ef þú býrð í Finnlandi Undantekning frá þessu er útsendur starfsmaður sem hefur fengið A1-vottorð frá finnsku lífeyristryggingamiðstöðinni (Eläketurvakeskus). Ef þú starfar í fleiri en einu landi ræður starfshlutfallið því í hvaða landi þú átt aðild að almannatryggingum. Ef þú vinnur fjarvinnu skaltu lesa kaflann Fjarvinna í öðru landi.

Vinna í öðru landi

Ef þú býrð í Finnlandi en starfar eingöngu í öðru landi, sem launþegi eða sjálfstæður atvinnurekandi, er meginreglan sú að þú eigir aðild að almannatryggingum í starfslandinu. Aðild að tryggingum í starfslandinu merkir að allar almannatryggingar viðkomandi ákvarðast af löggjöf í því landi. Launþegi sem tryggður er í öðru norrænu landi getur ekki fengið bætur eða styrki sem hafa búsetu í Finnlandi sem skilyrði (til dæmis fæðingarorlofsgreiðslur eða barnabætur), þó svo að litið sé þannig á að hann búi enn í Finnlandi og dvelji aðeins tímabundið í öðru landi.

Svokallaðir starfsmenn eða launþegar á landamærasvæðum geta átt rétt á bótum og styrkjum frá Kela með vissum takmörkunum (fæðingarstyrk, styrk til dagvistunar hjá einkaaðila og hjúkrunarstyrk) þrátt fyrir að þeir starfi í öðru landi sem hefur innleitt reglugerðir ESB, ef þeir hafa samt fasta búsetu í Finnlandi. Fólk telst starfa á landamærasvæði ef það býr og starfar í mismunandi löndum og ferðast reglulega, daglega eða í það minnsta vikulega, aftur til búsetulandsins.

Ef þú hefur störf í öðru norrænu landi skaltu tilkynna bæði almannatryggingastofnuninni Kela og almannatryggingastofnun starfslandsins um það. Kynntu þér líka leiðbeiningar okkar um norrænu löndin.

Fjarvinna í öðru landi

Ef þú býrð í Finnlandi og vinnur fjarvinnu þaðan fyrir erlendan vinnuveitanda er meginreglan sú að þú eigir aðild að almannatryggingum í Finnlandi. Ef þú ferð tímabundið til annars lands og vinnur fjarvinnu þar fyrir finnskan vinnuveitanda þarf vinnuveitandinn að útvega þér A1-vottorð. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnsku lífeyristryggingamiðstöðvarinnar (Eläketurvakeskus).

Útsendur starfsmaður frá Finnlandi eða vinnuferð í öðru landi

Ef vinnuveitandi þinn sendir þig til vinnu í öðru norrænu landi þarftu að hafa meðferðis A1-vottorð þar sem fram kemur að þú eigir aðild að almannatryggingum í Finnlandi. Mælt er með því að launþegar sæki ávallt um vottorðið þegar þeir fara erlendis í vinnuerindum. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnsku lífeyristryggingamiðstöðvarinnar og síðunni Útsendir starfsmenn í Finnlandi.

Vinna í Finnlandi og öðrum löndum

Ef þú býrð í Finnlandi og starfar í Finnlandi og öðru norrænu landi átt þú aðild að almannatryggingum í Finnlandi, búsetulandinu, að því gefnu að minnst 25% starfshlutfalls þíns séu í Finnlandi. Ef minna en 25% starfshlutfallsins eru í Finnlandi, búsetulandi þínu, er það vinnuveitanda þíns að ákvarða hvar þú skulir eiga aðild að almannatryggingum.

Ef þú ert í ráðningarsambandi og ert launþegi og/eða sjálfstæður atvinnurekandi í einu eða fleiri löndum heyrir þú undir löggjöf þess lands sem vinnuveitandi þinn hefur löglegt aðsetur í.

Þú þarft að sækja um A1-vottorð hjá almannatryggingastofnun í búsetulandi þínu.

Sérstakar reglur sem gilda um tilteknar starfsgreinar

Ef þú ert flugmaður eða sinnir öðru starfi í flugvél eða um borð í skipi gilda sérstakar reglur um það. Nánari upplýsingar eru á vefsvæðum finnsku almannatryggingastofnunarinnar (Kela) og finnsku lífeyristryggingamiðstöðvarinnar (Eläketurvakeskus).

Ef þú ert styrkþegi

Ef þú ert fræðimaður eða þiggur styrk vegna náms eða fræðilegra rannsókna skaltu kynna þér leiðbeiningarnar á síðunni Rannsóknastarf og styrkþegar í Finnlandi.

Ef þú ert námsmaður

Ef þú ferð frá Finnlandi til annars lands getur þú almennt átt áfram rétt á bótum og styrkjum frá Kela, ef dvölin erlendis er ekki lengri en 6 mánuðir. Sértu námsmaður eða starfandi fræðimaður erlendis áttu þó rétt á bótum og styrkjum frá Kela til lengri tíma. Þetta er að því gefnu að þú hafir átt rétt á bótum og styrkjum frá Kela áður en þú fórst frá Finnlandi vegna náms eða fræðistarfa. Að auki þarftu að stunda fullt nám sem miðar annað hvort að starfsréttindum eða námsgráðu og er á vegum námsstofnunar sem er viðurkennd af hinu opinbera.

Í vissum tilvikum er hægt að fá námsstyrk Kela greiddan vegna náms í öðru landi. Nánari upplýsingar á vefsvæði Kela.

Komir þú til náms í Finnlandi frá öðru norrænu landi er yfirleitt litið svo á að þú hafir tímabundna dvöl í Finnlandi. Í slíkum tilvikum ber brottfararlandið ábyrgð á almannatryggingum þínum. Þú átt þó rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í Finnlandi. Nánari upplýsingar eru á síðunni Réttur til heilbrigðisþjónustu í Finnlandi.

Ef þú kemur til Finnlands í nám frá öðru landi, og átt rétt á námsstyrk frá yfirvöldum í því landi, þá færðu hann yfirleitt greiddan áfram í Finnlandi. Ef þú ert ekki finnskur ríkisborgari og kemur til Finnlands til náms, þá áttu almennt ekki rétt á námsstyrk frá finnskum yfirvöldum. Nánari upplýsingar eru á síðunni  Finnskur námsstyrkur.

Ef þú ert atvinnulaus

Ef þú ert atvinnulaus í atvinnuleit og vilt flytja frá Finnlandi til annars lands eða til Finnlands frá öðru landi skaltu kynna þér efni síðunnar Atvinnuleysisbætur í Finnlandi.

Ef þú átt fjölskyldu eða von er á barni

Ef þú átt fjölskyldu eða von er á barni og þú ert að flytja til eða frá Finnlandi skaltu kynna þér síðurnar hér að neðan á vefsvæðum Info Norden og Kela.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna