Ellilífeyrir í Finnlandi

Suomen vanhuuseläke
Hér eru upplýsingar um ellilífeyri í Finnlandi. Þær reglur sem hér er lýst eiga einnig við á Álandseyjum.

Ellilífeyrir í Finnlandi er að megninu til starfstengdur lífeyrir sem fólk hefur aflað á starfsferli sínum. Sé starfstengdur lífeyrir óverulegur eða ekki til staðar er hægt að fá greiddan lífeyri úr almannatryggingasjóði og hugsanlega lágmarkslífeyri, en báðar þessar tegundir lífeyris greiðast úr búsetutengdum sjóðum.

Á þessari síðu eru upplýsingar um þann ellilífeyri sem greiddur er í Finnlandi. Nánari upplýsingar um aðrar tegundir lífeyrisgreiðslna í Finnlandi eru á síðunni Finnska lífeyriskerfið. 

Átt þú rétt á ellilífeyri frá Finnlandi?

Starfstengdur lífeyrir er helsta uppspretta tekna hjá flestum ellilífeyrisþegum. Lífeyririnn getur þó verið margþættur. Auk starfstengds lífeyris getur ellilífeyrir samanstaðið af lífeyri úr almannatryggingasjóði, lágmarkslífeyri og lífeyri erlendis frá.

Réttur til starfstengds lífeyris

Rétti til starfstengds lífeyris er aflað með vinnu sem launþegi eða verktaki. Launþegum og verktökum er skylt að greiða í lífeyrissjóð af launum sínum. Fræðafólk og listafólk sem fjármagnar vinnu sína með styrkfé safnar einnig í lífeyrissjóð. Lífeyrir nemur tiltekinni prósentutölu af starfstekjum ár hvert. Hafir þú áður áunnið þér lífeyrisréttindi í Finnlandi færðu lífeyrinn greiddan óháð búsetulandi.

Réttur til lífeyris úr almannatryggingasjóði

Réttur til lífeyrisgreiðslna úr finnskum almannatryggingasjóði byggir á búsetu í Finnlandi. Til að fá lífeyri úr almannatryggingasjóði þarft þú að hafa búið í Finnlandi í að minnsta kosti þrjú ár eftir 16 ára aldur. Hafir þú verið almannatryggður í öðru ESB/EES-landi eða Sviss fyrir flutning til Finnlands er hægt að taka þann tíma með í reikninginn. Fólk sem býr í öðrum ESB/EES-löndum eða Sviss, en heyrði áður undir finnska almannatryggingakerfið, getur einnig fengið lífeyri úr finnskum almannatryggingasjóði.

Annar lífeyrir og bætur sem umsækjandi þiggur mega ekki fara yfir ákveðna upphæð. Upphæð lífeyris úr almannatryggingasjóði ákvarðast af því hve lengi umsækjandi hefur búið í Finnlandi. Hafi hann ekki búið í Finnlandi að minnsta kosti 80 prósent tímabilsins milli 16 og 65 ára, skerðist lífeyririnn í hlutfalli við þann tíma sem búið var erlendis. Auk annars lífeyris og bóta hafa fjölskylduaðstæður áhrif á upphæð lífeyris.

Réttur til lágmarkslífeyris

Einstaklingum búsettum í Finnlandi er tryggður lágmarkslífeyrir, sem finnska almannatryggingastofnunin (Kansaneläkelaitos eða Kela) greiðir. Þú getur átt rétt á lágmarkslífeyri ef allar aðrar lífeyrisgreiðslur sem þú færð samanlagt eru undir tilteknu marki.

Hvernig færðu upplýsingar um þann lífeyri sem þú hefur safnað í Finnlandi?

Yfirlit yfir starfstengdan lífeyri inniheldur upplýsingar um starfstengdan lífeyri sem safnað hefur verið í Finnlandi. Ef þú ert með finnskan heimabanka getur þú notað aðgangsupplýsingar þínar til að auðkenna þig á þjónustuvef Työeläke.fi og skoðað yfirlit yfir lífeyri þinn.

Þú getur einnig pantað yfirlit yfir starfstengdan lífeyri þinn  símleiðis eða bréfleiðis hjá finnsku lífeyristryggingamiðstöðinni (Eläketurvakeskus). Nánari upplýsingar eru á vefsvæðinu  Työeläke.fi.

Hvenær er hægt að hefja töku ellilífeyris í Finnlandi?

Efri og neðri aldursmörk gilda fyrir mismunandi aldurshópa. Hægt er að hefja lífeyristöku við lægsta ellilífeyrisaldur síns aldurshóps á bilinu 63–65 ára. Ellilífeyrisaldur almannatrygginga er 65 ár fyrir einstaklinga fædda 1965 eða fyrr. Fyrir einstaklinga fædda eftir 1965 er ellilífeyrisaldur almannatrygginga persónubundinn, eins og kveðið er á um í lögum um starfstengdan lífeyri. Þú getur kynnt þér þinn lífeyristökualdur á vefsvæðinu Työeläke.fi.

Ellilífeyrir að hluta þýðir að lífeyrisþega er þá frjálst að vinna samhliða töku lífeyris. Starfshlutfalli eru engin takmörk sett í slíkum tilvikum, en þó er ekki skylt að vinna samhliða lífeyristöku. Ellilífeyri að hluta er hægt að taka með því að fara snemma á eftirlaun, við lægsta mögulega lífeyrisaldur, eða síðar. Hægt er að fara snemma á eftirlaun að hluta við 61 árs aldur. Þá er hægt að fá greidd 25 eða 50 prósent af áunnum lífeyrisréttindum. Nánari upplýsingar eru á vefsvæðinu  Työeläke.fi.

Einnig er hægt að fara snemma á ellilífeyri úr almannatryggingasjóði, en þá er lífeyririnn skertur sem því nemur. Nánari upplýsingar um það að hefja töku ellilífeyris snemma eru á vefsvæði Kela.

Einstaklingar sem halda áfram að vinna eftir að lágmarksellilífeyrisaldri hefur verið náð geta haldið áfram að safna lífeyri fram að 68–70 ára aldri. Þau sem ekki hefja lífeyristöku við lægsta ellilífeyrisaldur síns aldurshóps fá svokallaða frestunarhækkun ofan á lífeyrinn. Nánari upplýsingar eru á síðunni Työeläke.fi.

Þú getur hafið töku ellilífeyris þegar þú hættir að vinna. Þú getur þó haldið áfram að vinna í öðru starfi eða sem verktaki.

Hvernig sækirðu um ellilífeyri frá Finnlandi?

Sótt er um lífeyri á mismunandi hátt eftir því hvort þú býrð í Finnlandi eða öðru norrænu landi.

Ef þú býrð í Finnlandi

Ef þú býrð í Finnlandi geturðu sótt um bæði starfstengdan lífeyri og lífeyri úr almannatryggingasjóði með sömu ellilífeyrisumsókn. Þú getur fyllt út rafræna umsókn á vefnum Työeläke.fi, á þjónustuvef þíns lífeyrissjóðs eða á þínu svæði á heimasíðu Kela. Á Työeläke.fi má einnig finna umsóknareyðublöð til útprentunar.

Í sömu umsókn er hægt að óska eftir að hefja töku lífeyris sem aflað var í öðru landi, en þá verður eyðublaðið „Liite U“ („Viðhengi U“) að fylgja með. Á því koma fram upplýsingar um störf og búsetu í öðru landi. Hafir þú starfað í öðru landi borgar sig að sækja um lífeyristöku 6-9 mánuðum áður en þú vilt byrja að fá lífeyrisgreiðslurnar.

Ef þú býrð í öðru norrænu landi

Búir þú í öðru norrænu landi getur þú sótt um lífeyri frá Finnlandi um leið og lífeyri frá búsetulandinu. Ef þú hefur ekki náð ellilífeyrisaldri í búsetulandi þínu en vilt hefja lífeyristöku í öðru norrænu landi getur þú líka sótt um finnskan lífeyri gegnum lífeyrisstofnun í búsetulandinu. Nánari upplýsingar eru á síðu um lífeyri í þínu heimalandi.

Er hægt að fá finnskan lífeyri greiddan til annars norræns lands?

Finnskan starfstengdan lífeyri og lífeyri úr almannatryggingasjóði er líka hægt að fá greiddan til annars norræns lands. Húsnæðisstyrkur lífeyrisþega er þó ekki greiddur til annarra landa en Finnlands.

Lágmarkslífeyrir er aðeins greiddur þeim sem búa í Finnlandi. Lágmarkslífeyrisþegi getur þó dvalið tímabundið í öðru landi án þess að fyrirgera lífeyrisrétti sínum.

Vinna samhliða lífeyristöku

Launþegar þurfa að hætta í vinnu sinni áður en þeir geta hafið töku ellilífeyris. Verktakar þurfa ekki að hætta starfsemi til þess að geta hafið töku ellilífeyris.

Þegar taka ellilífeyris er hafin er hægt að halda áfram að vinna, ýmist sem launþegi eða verktaki. Hægt er safna starfstengdum lífeyri áfram fram að aldurshámarki tryggingarskyldu. Nánari upplýsingar eru á síðunni Työeläke.fi.

Skattlagning ef þú býrð í öðru landi en þiggur lífeyri frá Finnlandi

Upplýsingar um skattlagningu lífeyris eru á vefsvæði norrænu skattagáttarinnar  (Nordisk eTaxin).

Hvernig er ellilífeyrir greiddur út eftir andlát?

Þegar ellilífeyrisþegi deyr stöðvast greiðsla ellilífeyris um næstu mánaðamót eftir andlátið. Ellilífeyrir er því ekki greiddur aðstandendum hins látna. Eftirlifandi maki og börn undir lögaldri geta fengið fjölskyldulífeyri eftir hinn látna, en um hann þarf að sækja sérstaklega.

Hafi lífeyrisþegi ekki verið finnskur ríkisborgari eða búsettur í Finnlandi berast upplýsingar um andlátið yfirleitt ekki beint til finnskra yfirvalda. Í slíkum tilvikum þarf að tilkynna þeirri stofnun sem greiðir lífeyrinn um andlátið eins fljótt og hægt er, símleiðis eða bréfleiðis.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna