Bréf til Inger Andersen, framkvæmdastjóra umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna

Stuðningsyfirlýsing Norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfis- og loftslagsmál við Inger Andersen, framkvæmdastjóra umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna í kjölfar ráðherrafundar hinn 3. maí 2022.

Kæra Inger,

Við, norrænu löndin, viljum enn á ný færa þér og öllu starfsliði UNEP þakkir fyrir þrotlausa vinnu ykkar á sögulegri umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í mars.

Að loknum fundi okkar hjá Norrænu ráðherranefndinni í dag, 3. maí, í Ósló getum við tekið undir þau markmið og þá knýjandi þörf sem skín í gegn í tilskipun um lagalega bindandi samning um plastmengun og skuldbindum okkur til að styðja við störf milliríkjasamninganefndarinnar sem stofnuð var á UNEA5.2.

Jafnframt styðjum við þá ákvörðun að setja á fót vísindastefnuráð í því skyni að stuðla frekar að traustri meðhöndlun efna og efnablandna, úrgangs og mengunar. Með því að koma í veg fyrir mengun stuðlum við betur að alþjóðlegu samkomulagi um plastmengun með því að efla þekkingargrundvöll fyrir stefnumörkun í þágu þess að binda endi á plastmengun.

Norðurlönd hyggjast áfram taka virkan þátt í milliríkjasamninganefndinni með því að taka pólitíska forystu til að setja markið hátt í samningaviðræðunum. Til þess að nálgast plast út frá vistferilslegu samhengi þurfum við að finna aðgerðir í virðiskeðju plastvara eins og hún leggur sig. Sérstaklega er áríðandi að finna árangursríkar aðgerðir á heimsvísu hvað örplasti viðvíkur. Eigi okkur að takast að koma upp hnattrænu hringrásarhagkerfi fyrir plast verðum við að tryggja að hættuleg efni sem skaðað geta heilsu manna og umhverfið séu ekki í hringrás.

Í dag höfum við, ráðherrar umhverfis- og loftslagsmála á Norðurlöndum, ákveðið að skuldbinda okkur áfram til norræns samstarfs til stuðnings milliríkjasamninganefndarinnar í þágu lagalega bindandi samnings um plastmengun. UNEP hefur fengið skýrt umboð frá UNEA til að styðja við þetta starf og verður lykilaðili í vinnu okkar. Við hlökkum til frekari samskipta við þig og starfsfólk þitt um það hvernig við sem Norðurlönd getum með sem bestum hætti stutt þetta mikilvæga starf.

Við erum þess fullviss að alþjóðasamfélagið muni standa undir þeim væntingum sem við gerum okkur og að alþjóðasamningur um plastmengun verði mikilvægasti samningur um umhverfismál frá árinu 2015. Þú getur áfram reitt þig á stuðning okkar.

 

Virðingarfyllst, fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfis- og loftslagsmál,

 

Espen Barth Eide

umhverfis- og loftslagsáðherra Noregs og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfis- og loftslagsmál