„Skylda okkar til að vinna saman að loftslags- og umhverfismálum teygir sig langt út fyrir landamæri okkar“

01.11.23 | Fréttir
miljøministre klimaministre

De nordiske klima- og miljøministre på møde i Oslo d. 1. november 2023.

Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Norrænu umhverfis- og loftslagsráðherrarnir vilja að markið verði sett hátt í komandi alþjóðlegum viðræðum um plast og loftslagsmál á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28. Þetta lá fyrir að loknum fundi ráðherranna í dag á þingi Norðurlandaráðs í Ósló.

„Norrænu löndin geta flýtt fyrir innleiðingu og hækkað rána í alþjóðlegum ferlum með því að vinna saman. Skylda okkar til að vinna saman að loftslags- og umhverfismálum teygir sig langt út fyrir landamæri okkar,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Íslands að loknum fundinum í dag.

 

Norrænu löndin hafa unnið að því í mörg ár að efla alþjóðlegar skuldbindingar um að draga úr plastmengun, bæði í gegnum norrænt samstarf og nú síðast sem aðilar að bandalagi um að stöðva plastmengun undir forystu Noregs og Rúanda.

 

„Plastmengun er alls staðar. Verði ekki gripið til nýrra og árangursríkra eftirlitsaðgerða mun plastmengun næstum því tvöfaldast á næstu 20 árum. Norðurlönd eru samstíga um að setja markið hærra í viðræðum um alþjóðlegan samning um plast. Við verðum að draga úr plastframleiðslu og -notkun, tryggja örugg umskipti yfir í hringrásarkerfi og stöðva plastmengun fyrir árið 2040 til þess að vernda umhverfið og heilsu fólks,“ segir Andreas Bjelland Eriksen, loftslags- og umhverfisráðherra Noregs.

 

Með það fyrir augum að afla víðtæks stuðnings við alþjóðlegan samning skrifuðu ráðherrarnir undir norræna ráðherrayfirlýsingu um að kalla eftir því að markið verði sett hátt í viðræðum um alþjóðlegan samning um plastmengun.

Norrænu löndin geta flýtt fyrir innleiðingu og hækkað rána í alþjóðlegum ferlum með því að vinna saman. Skylda okkar til að vinna saman að loftslags- og umhverfismálum teygir sig langt út fyrir landamæri okkar.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Íslands

Loftslagsaðlögun og áhyggjur af málefnum hafsins

Norrænt samstarf um loftslagsaðlögun og hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna voru einnig á dagskrá. Í ljósi öfgakennds veðurs síðastliðið sumar ræddu ráðherrarnir loftslagsaðlögun og hvernig norrænu löndin geta unnið saman að því að efla viðbúnað og auka viðnámsþrótt svæðisins.

 

„Það er eilífðarverkefni og öryggismál að vera vel undir hugsanlegar náttúruhamfarir búin. Undanfarið höfum við fundið fyrir miklum breytingum í loftslaginu um allan heim, einnig hér í norðri. Það sýnir að við verðum að setja afleiðingar loftslagsbreytinga ofar á dagskrá hér á Norðurlöndum. Við verðum að leggja meiri áherslu á loftslagsaðlögun og þar býður norrænt samstarf upp á mikil tækifæri,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Íslands.

 

Ráðherrarnir ræddu jafnframt hvernig norrænu löndin geti flýtt fyrir fullgildingu hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni í hafinu utan lögsögu ríkja, Biodiversity Beyond National Jurisdiktion, (BBNJ). Samningurinn inniheldur mikilvæg ákvæði um verndun umhverfisins á opnu hafi, ekki síst hvernig við getum náð markmiðinu um að vernda 30 prósent hafsvæða fyrir 2030.

 

„Ég er ánægður með metnaðinn í kringum samning Sameinuðu þjóðanna um verndun og sjálfbæra nýtingu hafsins sem gerir það kleift að vernda svæði á stórum hluta heimshafanna. Við berum sameiginlega ábyrgð á hafinu enda skiptir ástand þess okkur öll gríðarlega miklu máli. Þess vegna viljum við á Norðurlöndum þrýsta á að fleiri lönd gerist aðilar að samningnum sem fyrst,“ segir Magnus Heunicke, umhverfisráðherra Danmerkur.

Markið sett hátt fyrir COP28

Ráðherrarnir ræddu sameiginlega viðleitni norrænu landanna til að tryggja að metnað og góðan árangur af loftslagsviðræðunum sem fram undan eru.

Norræni skálinn á COP28 ýtir undir slíkan metnað með því að sýna að hægt sé að ná árangri með því að setja markið hátt þegar kemur að aðgerðum til að draga úr losun, aðlögun og grænum umskiptum. Umræður í skálanum munu sýna að grænu umskiptin kalla ekki bara á fórnir heldur leiði einnig til betra lífs fyrir margt fólk.

UPPLÝSINGAR

Á fundinum voru kynntar niðurstöður eftirfarandi skýrslna:

 

  • Towards ending plastic pollution

Skýrslan inniheldur meðal annars „sviðsmynd með alþjóðlegum reglum“ fyrir árið 2040 og tillögur að 15 hugsanlegum aðgerðum sem draga úr plastmengun um allt að 90 prósent. Skýrslan er hluti af verkefninu „Norrænn stuðningur við viðræður um nýjan alþjóðasamning um plastmengun 2023–2024“. Hér má lesa skýrsluna:

  • Nordic Stocktake and Visions

Verkefnið sýnir hversu langt norrænu löndin eru komin á vegferð sinni í átt til loftslagshlutlausra samfélaga og kynnir framtíðarsýn um hvernig loftslagshlutlaust samfélag gæti litið út. Hér fyrir neðan eru tenglar á þrjár skýrslur frá verkefninu.

  • Comparison and analysis of national climate change adaptation policies in the Nordic region

Greining á stöðunni í loftslagsaðlögun í norrænu löndunum. Verkefnið felst í að greina lykilþætti í því að ná árangri með aðlögunaraðgerðum.

  • Eldra fólk og loftslagið – hagur beggja

Verkefnið kortleggur vinnu eldra fólks á Norðurlöndum í tengslum við loftslagsmál og settar eru fram tillögur um aukið samstarf. Niðurstöður verkefnisins hafa ekki verið kynntar.