Starfsumboð Stjórnsýsluhindranaráðsins 2022–2024
Stjórnsýsluhindranaráðið er pólitískt skipuð en óháð nefnd sem norræn stjórnvöld fólu árið 2014 að greiða fyrir fyrir frjálsri för og verslun einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda. Stjórnsýsluhindranaráðinu er ætlað að beita sér gagnvart stjórnmála- og stjórnkerfum landanna í því skyni að skapa skilyrði fyrir samþættu svæði þar sem íbúar geta með einföldum hætti unnið, flutt, stundað nám og stofnað fyrirtæki þvert á landamæri.
Norðurlönd eiga ekki að bíða eftir utanaðkomandi lausnum á áskorunum tengdum frjálsri för heldur vísa veginn til framtíðar fyrir önnur svæði. Okkar lausnir geta orðið fyrirmynd samþættingar á ESB-svæðinu.
Stjórnsýsluhindranaráðið greinir, forgangsraðar og leggur til lausnir á stjórnsýsluhindrunum. Þar sem norrænt samstarf er milliríkjasamstarf liggur ábyrgðin á því að stuðla að afnámi stjórnsýsluhindrana að mestu leyti hjá ríkisstjórnunum, ráðuneytum, þjóðþingum, stjórnvöldum og öðrum innlendum aðilum. Þá fer vinna við afnám stjórnsýsluhindrana einnig fram í nánu samstarfi við aðila á borð við upplýsingaþjónustur, landamæranefndir, aðila vinnumarkaðarins og atvinnulífssamtök.
Krísur undanfarinna ára hafa haft sín áhrif á frjálsa för og ekki síst skapað ungu fólki sem býr á landamærasvæðum erfiðleika. Því á stjórnsýsluhindranaráðið, í samvinnu við samstarfsnet sitt á Norðurlöndum og landamærasvæðunum, að afla með stuttum fyrirvara upplýsinga um vandamál í tengslum við frjálsa för og upplýsa ríkisstjórnirnar um þau ásamt því að leggja til lausnir og þekkingu sína þegar eftir því er óskað.
Verkefni Stjórnsýsluhindranaráðsins
Stjórnsýsluhindranaráðið á að vinna að því að afnema stjórnsýsluhindranir sem snerta einstaklinga og atvinnulíf ásamt því að stuðla að grænum, samkeppnishæfum og félagslega sjálfbærum Norðurlöndum. Þessum meginverkefnum má skipta niður í átta liði sem mynda kjarnann í starfi Stjórnsýsluhindranaráðsins:
- Að leggja sitt af mörkum til Framtíðarsýnar okkar 2030 og einkum að setja stjórnsýsluhindranir og frjálsa för á Norðurlöndum á dagskrá norrænu landanna til að stuðla að samþættari Norðurlöndum.
- Að ryðja úr vegi fimm til átta stjórnsýsluhindrunum árlega og leitast við að leysa stjórnsýsluhindranir í forgangi á innan við fimm árum og, auk hefðbundins starfs við afnám stjórnsýsluhindrana, forgangsraða eftir þörfum stjórnsýsluhindrunum eða öðrum vandamálum sem hafa áhrif á samþættingu á milli norrænu landanna.[1]
- Að vinna, ásamt ábyrgum fagsviðum Norrænu ráðherranefndarinnar, með almenn málefni sem valda sameiginlegum stjórnsýsluhindrunum á Norðurlöndum í því skyni að stuðla að samþættingu og frjálsri för á Norðurlöndum.
- Að afnema í gegnum þverfaglegt samstarf við fagsvið Norrænu ráðherranefndarinnar stjórnsýsluhindranir sem tengjast ákveðnum fagsviðum.
- Að hafa að minnsta kosti árlega samráð um vinnuna við afnám stjórnsýsluhindrana við MR-SAM og eftir þörfum aðrar viðeigandi ráðherranefndir og embættismannanefndir. Að öðru leyti er framkvæmdastjórinn tengiliður við ráðherranefndirnar.
- Að eiga frumkvæði að viðeigandi greinargerðum og greiningum og stuðla að lausnamiðuðum málþingum sem stutt geta við vinnuna við að ryðja úr vegi og koma í veg fyrir stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum.
- Að efla og þróa samstarfið við upplýsingaþjónusturnar[2] sem gegna mikilvægu hlutverki í vinnunni við afnám stjórnsýsluhindrana þegar kemur að því að greina stjórnsýsluhindranir og upplýsingaaðgerðir sem ýta undir frjálsa för.
- Að stuðla að bættum þekkingargrunni á krísutímum í þeim tilgangi stuðla að árangursríkari samhæfingu á Norðurlöndum varðandi vandamál í tengslum við frjálsa för með því að upplýsa ríkisstjórnir landanna og viðeigandi ráherranefndir og fagsvið um vandamál sem upp koma á Norðurlöndum, ekki síst á landamærasvæðunum, og leggja fram þekkingu og tengslanet.
Stjórnsýsluhindranaráðið hittist þrisvar til fjórum sinnum á ári og eftir þörfum. Leitast er við að halda stað- eða fjarfundi eftir því sem við á. Alla jafna eru staðfundir haldnir í Kaupmannahöfn en einu sinni á ári skal halda fund í formennskulandinu.
Starfsárið hefst með árlegum upphafsfundi þegar nýr formaður tekur við. Á upphafsfundinum er áherslan á að meta, þróa og semja forgangsáætlun fyrir árið með tilliti til gamalla og nýrra stjórnsýsluhindrana sem skipta máli fyrir frjálsa för á Norðurlöndum með hliðsjón af almennum málum sem valda sameiginlegum stjórnsýsluhindrunum á Norðurlöndum og með tilliti til forgangsröðunar formennskulands Norrænu ráðherranefndarinnar hverju sinni.
Stjórnsýsluhindranaráðið vinnur með stjórnsýsluhindranahópi Norðurlandaráðs í málum sem afskipti þingmanna geta fleytt áfram og sem stjórnsýsluhindranahópur Norðurlandaráðs telur pólitískt mikilvæg.
Að því leyti sem það þjónar tilgangi á Stjórnsýsluhindranaráðið að hafa viðeigandi ESB-löggjöf til hliðsjónar.
Stjórnsýsluhindranaráðið hittir stjórnsýsluhindranahóp Norðurlandaráðs einnig um það bil tvisvar sinnum á ári að undirlagi Norðurlandaráðs. Jafnframt fer stöðugt fram vinna við afnám stjórnsýsluhindrana í sérstökum þverfaglegum rýnihópum sem settir eru saman á grundvelli þeirrar forgangsröðunar sem fyrir liggur.
Leitast er við að hafa upplýsingaskipti og gagnsæi sem mest gagnvart stjórnsýsluhindranahóp Norðurlandaráðs.
[1] Flækjustig stjórnsýsluhindrunarinnar hefur mikið um það að segja hversu hratt er hægt að leysa hana. Sé ályktað að ekki sé hægt að leysa hindrunina er hún afskrifuð. Eftir það vinnur Stjórnsýsluhindranaráðið almennt ekki meira með viðkomandi stjórnsýsluhindrun en ef pólitískur vilji er fyrir því er hægt að setja hana aftur í forgang.
[2] Info Norden, Grensetjänsten Norge–Sverige, Øresunddirekt, Nordkalottens Gränstjänst/Grensetjeneste.
Fulltrúar eiga að greiða fyrir dagskrármálum Stjórnsýsluhindranaráðsins gagnvart stjórnmála- og stjórnkerfum landa sinna[3]. Leitast er við að hafa jafna kynjasamsetningu í Stjórnsýsluhindranaráðinu.
Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur, Svíþjóð, Færeyjar, Grænland og Álandseyjar geta hvert um sig tilnefnt einn fulltrúa. Þegar fulltrúar eru tilnefndir á, auk áherslna landanna, að leggja áherslu á að þeir:
- hafi öflugt og virkt tengslanet í ríkisstjórnum landanna, meðal ráðherra og embættismanna
- hafi reynslu af starfi á einu eða fleiri af þeim sviðum þar sem flestar stjórnsýsluhindranir er að finna (vinnumarkaði, félagsmálum, skattamálum, menntamálum, atvinnumálum eða stafvæðingu)
- hafi þær forsendur sem þarf til að leggja áherslu á starfið í Stjórnsýsluhindranaráðinu
- hafi nauðsynlegt svigrúm í starfinu við afnám stjórnsýsluhindrana til að geta lagt áherslu á og unnið að þeim stjórnsýsluhindrunum sem taldar eru skipta máli fyrir frjálsa för. Það felur m.a. í sér möguleika á að taka ákvarðanir út frá eigin mati ásamt því að halda fundi í löndum sínum með viðkomandi ráðherrum, ráðuneytum og embættismönnum.
Hver fulltrúi á að njóta stuðnings innlends samstarfsnets sem nota má til að upplýsa um stjórnsýsluhindranastarfið, önnur mál og til að fá álit meðlima.
Samstarfsnetið getur m.a. samanstaðið af eftirfarandi aðilum:
- fulltrúum í Stjórnsýsluhindranaráðinu
- embættismönnum frá skrifstofu Norrænu samstarfsnefndarinnar (NSK) í viðkomandi landi
- embættismönnum frá viðkomandi ráðuneytum og stofnunum o.fl.
- fulltrúum frá upplýsingaþjónustum landamærasvæðanna og Info Norden
- fulltrúum frá viðkomandi landamæranefndum
- viðkomandi þingmönnum frá sendinefnd landsins í Norðurlandaráði
- aðilum vinnumarkaðarins og samtökum atvinnurekenda/atvinnulífsins
- embættismönnum frá skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar
Einstakir fulltrúar upplýsa samstarfsráðherra síns lands jafnóðum um vinnuna við afnám stjórnsýsluhindrana og gera honum grein fyrir þeim árangri sem næst. Upplýsingar eru einnig veittar skrifstofunni.
Einstakir fulltrúar leggja til upplýsingar fyrir ársskýrslu þar sem árangur ársins er kynntur ásamt því að grein er gerð fyrir stöðu þeirra stjórnsýsluhindrana sem eru í forgangi.
Samstarfsráðherrann og fulltrúi geta kallað til fundar með viðkomandi ráðherrum til að ræða þær stjórnsýsluhindranir sem eru í forgangi hjá Stjórnsýsluhindranaráðinu.
[3] Með löndum og fulltrúum landanna er í þessu umboði átt við Danmörku, Finnland, Ísland, Noreg, Svíþjóð, Færeyjar, Grænland og Álandseyjar og fulltrúa frá þessum löndum.
Löndin skiptast á að gegna formennsku í Stjórnsýsluhindranaráðinu og fylgir hún formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.
Formaður Stjórnsýsluhindranaráðs á að leiða starfið í samvinnu við framkvæmdastjóra og skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar.
Formaður Stjórnsýsluhindranaráðs á að viðhafa stöðugt samráð við samstarfsráðherrann og fulltrúa viðkomandi lands í norrænu samstarfsnefndinni (NSK) til að tryggja að starf Stjórnsýsluhindranaráðsins sé í samræmi við áherslur formennskulandsins.
Formaður Stjórnsýsluhindranaráðs á að vera forsætisráðherrunum innan handar ef formennskuland Norrænu ráðherranefndarinnar hverju sinni telur að færa skuli starfið upp á stig forsætisráðherranna.
Formaður Stjórnsýsluhindranaráðs á að tryggja að forgangsmálum fyrra árs sé fylgt eftir.
Formaður Stjórnsýsluhindranaráðs á að bjóða fulltrúa frá Norðurlandaráði æskunnar til fundar á starfstímabilinu til að tryggja að mið sé tekið af sjónarmiðum barna og ungmenna.
Formaður Stjórnsýsluhindranaráðs á að bjóða fulltrúa frá norræna ráðinu um málefni fatlaðra æskunnar til fundar á starfstímabilinu til að tryggja að mið sé tekið af fötlunarsjónarmiðum.
Formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins getur falið þingmönnum frá Færeyjum, Grænlandi eða Álandseyjum að leiða fundi samkvæmt Álandseyjayfirlýsingunni.
Auk fulltrúa landanna á framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs sæti í Stjórnsýsluhindranaráðinu. Við forföll tekur skrifstofustjóri framkvæmdastjórans sæti í hans stað.
Hlutverk framkvæmdastjórans er að koma áfram málum úr starfi Stjórnsýsluhindranaráðsins til viðkomandi ráðherranefnda og embættismannanefnda í Norrænu ráðherranefndinni ásamt því að tryggja að Stjórnsýsluhindranaráðið sé upplýst um pólitíska forgangsröðun og ákvarðanir sem kunna að hafa áhrif á starf Stjórnsýsluhindranaráðsins.
Framkvæmdastjóri sér Stjórnsýsluhindranaráðinu fyrir skrifstofuaðstoð frá Norrænu ráðherranefndinni vegna starfsins.
Fyrir tilstuðlan framkvæmdastjóra er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar, Info Norden, skrifstofunni og fulltrúum Stjórnsýsluhindranaráðs innan handar við starfið við afnám stjórnsýsluhindrana og aðgerðir tengdar því.
Hlutverk skrifstofunnar er að sjá Stjórnsýsluhindranaráðinu fyrir skrifstofuþjónustu.
Skrifstofan samræmir starfið, útvegar fundargögn og sér um praktíska hlið starfsins með skipulagningu og framkvæmd funda.
Skrifstofan ber ábyrgð á gagnagrunni um stjórnsýsluhindranir og sér um samræmingu starfsins við gæðaeftirlit á stjórnsýsluhindrunm sem tilkynnt er um hjá ráðuneytum landanna.
Skrifstofan greinir og flokkar stjórnsýsluhindranir sem tilkynnt er um og nýtur við það aðstoðar fagsviðanna og fulltrúa Stjórnsýsluhindranaráðs eftir þörfum. Í samstarfi við viðkomandi fulltrúa landanna í Stjórnsýsluhindranaráði kynnir skrifstofan tillögur að lausnum á stjórnsýsluhindrunum.
Skrifstofan sér um samræmingu varðandi upplýsingaþjónusturnar og verkefni þeirra og greiðir fyrir samstarfi þeirra á milli.
Skrifstofan er í samskiptum við fagsviðin og í samráði við þau greinir hún og setur af stað þverfaglegar aðgerðir og verkefni í tengslum við starfið við afnám stjórnsýsluhindrana.
Skrifstofan tekur þátt í að undirbúa og setja starfið við afnám stjórnsýsluhindrana á dagskrá viðeigandi ráðherranefnda og embættismannanefnda.
Skrifstofan sér ásamt skrifstofu Norðurlandaráðs um samræmingu starfsins við afnám stjórnsýsluhindrana og samstarfsins við stjórnsýsluhindranahóp Norðurlandaráðs.
Árlega tekur skrifstofan saman grunn að greinargerð samstarfsráðherranna á þingi Norðurlandaráðs um stjórnsýsluhindranir ásamt því að taka saman ársskýrslu sem byggð er á upplýsingum frá fulltrúum Stjórnsýsluhindranaráðsins, fagsviðum og öðrum ráðherranefndum, ráðuneytum, upplýsingaþjónustum og öðrum aðilum. Ársskýrslan er kynnt á þemaþingi Norðurlandaráðs.
Fagsvið Norrænu ráðherranefndarinnar eru hvött til þess að vinna með, fylgja eftir og gefa skýrslu um þær stjórnsýsluhindranir sem snerta viðkomandi fagsvið ásamt því að taka þátt í afnámi stjórnsýsluhindrana.
Fagsviðin eru hvött til þess að miðla upplýsingum um fyrirhugað og yfirstandandi löggjafarstarf sem kann að hafa áhrif á fyrirliggjandi stjórnsýsluhindranir eða hefur í för með sér hættu á að til verði nýjar stjórnsýsluhindranir.
Fagsviðin eru hvött til að taka þátt í þverfaglegu samstarfi og verkefnum sem gagnast í starfinu við afnám stjórnsýsluhindrana.
Fagsviðin eru hvött til að vera skrifstofunni og fulltrúum Stjórnsýsluhindranaráðsins innan handar eftir þörfum varðandi mál sem tengjast stjórnsýsluhindrunum.
Löndin styðja við starf Stjórnsýsluhindranaráðsins með lögfræðiaðstoð og annarri sérfræðiaðstoð þegar þörf krefur.
Hvert land tilnefnir einn tengilið í öllum ráðuneytum sem málinu tengjast sem getur aðstoðað fulltrúa viðkomandi lands við það sem nauðsynlegt er í starfinu við að greina, kanna og finna lausnir á stjórnsýsluhindrunum.
Löndin eru ábyrg fyrir þjónustu við fulltrúa landsins og hvert land tilnefnir tengilið sem samræmir upplýsingaskipti og hugsanlega fundi með innlendu samstarfsneti. [4]
Löndin bera ábyrgð á könnun og gæðaeftirliti þeirra stjórnsýsluhindrana sem tilkynnt er um í norrænan gagnagrunn um stjórnsýsluhindranir, bæði á tilkynningarstigi og í sambandi við árlegar uppfærslur á gagnagrunninum.
Það ætti að vera hluti af vinnu landanna að framtíðarsýninni að leitast við að komast hjá því að nýjar stjórnsýsluhindranir verði til á Norðurlöndum í tengslum við nýja löggjöf í löndunum og við innleiðingu ESB-/EES-reglna.
[4] Löndin ákveða hvort tengiliðurinn sé fulltrúi landsins í norrænu samstarfsnefndinni eða einhver annar.
Upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar, Info Norden, og upplýsingaþjónusturnar þrjár á landamærasvæðunum, Grensetjänsten Norge–Sverige, Øresunddirekt og Nordkalottens Gränstjänst/Grensetjeneste, leika lykilhlutverk í Framtíðarsýn okkar 2030 og vinnunni við afnám stjórnsýsluhindrana.[5]
Upplýsingaþjónusturnar auðvelda frjálsa för innan Norðurlanda, stafrænt og með persónulegri aðstoð, með því að halda til haga upplýsingum fyrir íbúa og fyrirtæki sem vilja vinna, flytja, stunda nám og stofna fyrirtæki á milli norrænu landanna.
Upplýsingaþjónusturnar greiða fyrir hreyfanleika og samþættingu á milli norrænu landanna með markvissum verkefnum og upplýsingaátökum.
Upplýsingaþjónusturnar greina og tilkynna um hugsanlegar stjórnsýsluhindranir ásamt því að vekja athygli á öðrum vandamálum sem kunna að hindra eða hefta frjálsa för á Norðurlöndum eða landamærasvæðunum.
Árlega eiga upplýsingaþjónusturnar að leggja til upplýsingar fyrir greinargerð samstarfsráðherranna um stjórnsýsluhindranir og til skýrslu Stjórnsýsluhindranaráðsins um starfsemi sína.
Upplýsingaþjónusturnar eiga að vera í reglulegu sambandi við skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar.
[5] Markmið og verkefni Info Norden, sem eru önnur en upplýsingaþjónustanna á landamærasvæðunum, eru skilgreind í sérstöku umboði. Verkefni upplýsingaþjónustanna á landamærasvæðunum eru nánar skilgreind í samningum þeirra.
Samstarf við Norðurlandaráð
Auk nefndarmanna landanna og framkvæmdastjórans er einnig einum af þingmönnum Norðurlandaráðs boðið sæti í Stjórnsýsluhindranaráðinu. Viðkomandi þingmaður getur einnig átt sæti í stjórnsýsluhindranahóp Norðurlandaráðs.
Verkefni hans er að samræma, í samstarfi við skrifstofuna, samstarfið á milli Stjórnsýsluhindranaráðsins, Norðurlandaráðs og stjórnsýsluhindranahópsins og meðal annars forgangsraða hugsanlegum sameiginlegum aðgerðum með áherslu á að vekja athygli á stjórnsýsluhindrunum á þjóðþingum allra Norðurlandanna.
Stjórnsýsluhindranaráðið fundar um það bil tvisvar sinnum á ári með stjórnsýsluhindranahópi Norðurlandaráðs að frumkvæði Norðurlandaráðs. Vinna við afnám stjórnsýsluhindrana getur einnig farið fram í sérstökum þverfaglegum rýnihópum.
Stjórnsýsluhindranahópurinn getur boðið Stjórnsýsluhindranaráðinu að koma að sameiginlegum verkefnum og rannsóknum.
Fjárhagsáætlun, laun o.fl.
Í norrænu fjárhagsáætluninni er veitt fé til starfs Stjórnsýsluhindranaráðsins, m.a. til að panta greiningar og rannsóknir frá utanaðkomandi aðilum, og til allra þriggja upplýsingaþjónustanna á landamærasvæðunum.
Framkvæmdastjórinn hefur ráðstöfunarrétt yfir fjármagni Stjórnsýsluhindranaráðsins.
Fulltrúar landanna í Stjórnsýsluhindranaráði fá greidd árleg laun úr norrænu fjárhagsáætluninni fyrir verkefni sín og störf. Ef reglur viðkomandi lands koma í veg fyrir launagreiðslur, t.d. ef fulltrúinn er embættismaður, eru launin greidd til vinnuveitanda viðkomandi.
Viðkomandi land ber kostnað við ferðalög og gistingu í tengslum við fundi og ráðstefnur á Norðurlöndum og utan þeirra sem tengjast verkefnum fulltrúa á vegum Stjórnsýsluhindranaráðsins.
Fulltrúar í Stjórnsýsluhindranaráðinu bera sjálfir ábyrgð á að bóka ferðir og annarri skipulagningu í tengslum við verkefni sín.
Skrifstofa Norðurlandaráðs sér þó um að bóka ferðalög og gistingu í sambandi við árlegan upphafsfund og ber af þeim kostnað.