Krísur settu mark sitt á störf stjórnsýsluhindranaráðsins árið 2022

24.03.23 | Fréttir
Gränshinderrådets medlemmar Sven-Erik Bucht och Vibeke Hammer Madsen, ordförande 2022.

Gränshinderrådets medlemmar Sven-Erik Bucht och Vibeke Hammer Madsen, ordförande 2022.

Ljósmyndari
Lisa Wikstrand / Norden.org

Sven-Erik Bucht, fulltrúi í stjórnsýsluhindranaráðinu og Vibeke Hammer, formaður ráðsins árið 2022.

Störf norræna stjórnsýsluhindranaráðsins árið 2022 voru að miklu leyti helguð fjórum sviðum sem skipta miklu máli fyrir frjálsa för. Jafnframt setti ný krísa, innrás Rússlands í Úkraínu, mark sitt á starfið. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í ársskýrslu ráðsins fyrir árið 2022.

Hinn 1. janúar 2022 fékk stjórnsýsluhindranaráðið, sem vinnur að frjálsri för á Norðurlöndum, aukið umboð til starfa á krísutímum. Samkvæmt starfsumboðinu á stjórnsýsluhindranaráðið að gera ríkisstjórnunum viðvart um vandamál í tengslum við frjálsa för sem koma upp á krísutímum og einnig vinna að lausn slíkra vandamála.

Hið nýja starfsumboð kom í kjölfar þeirra vandamála sem upp komu í faraldrinum. Fram til janúar 2022 hafði samkvæmt ársskýrslunni verið tilkynnt um 121 röskun á frjálsri för sem rekja mátti til kórónuveirufaraldursins og enn gætir töluverðar áhrifa þeirra.

Bréf til sænsku ríkisstjórnarinnar

Í ársskýrslunni kemur fram að strax í mars hafi ráðið þurft að bregðast við í samræmi við nýtt starfsumboð sitt. Það gerðist þegar sænska ríkisstjórnin lagði til að á ný yrði tekið upp landamæraeftirlit við Eyrarsund. Tilgangurinn var að standa vörð um öryggi landsins í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu.

Nýtt landamæraeftirlit hefði verið banabiti vinnusamgangna á milli Svíþjóðar og Danmerkur. Því sendi stjórnsýsluhindranaráðið ríkisstjórninni bréf þar sem hún var hvött til þess að láta af áformum sínum um landamæraeftirlit.

Fallið var frá áformunum en ný ríkisstjórn sem tók við völdum eftir kosningar í september hefur blásið lífi í þau að nýju. Því hefur stjórnsýsluhindranaráðið á ný sent bréf sama efnis og áður.

„Við sáum það bæði í kórónuveirufaraldrinum og nú eftir innrás Rússa í Úkraínu að sífellt fleiri hagsmunaárekstrar verða þegar norrænu löndin vilja vernda íbúa sína og innra öryggi. Þess vegna lagði stjórnsýsluhindranaráðið mikla áherslu á það í fyrra að frjáls för á milli landa okkar, sem er grundvallaratriði, gjaldi ekki fyrir landamæraeftirlit á landamærasvæðunum,“ segir Vibeke Hammer Madsen sem gegndi formennsku í stjórnsýsluhindranaráðinu árið 2022.

Áhersla á mikilvæga málaflokka

Á árinu 2022 lagði stjórnsýsluhindranaráðið einnig aukna áherslu á vinnuna við fjögur svokölluð áherslusvið sem öll eru gríðarlega mikilvæg með tilliti til frjálsrar farar en sem einnig skapa miklar áskoranir í tengslum við samþættingu á Norðurlöndum.

Þetta eru skattalegar stjórnsýsluhindranir, viðurkenning á starfsréttindum í lögvernduðum starfsgreinum, stafvæðing og samstarf um skráningu í þjóðskrá.

„Takist okkur að finna sameiginlegar norrænar lausnir á þessum málum munum við leysa mörg vandamál sem standa í vegi fyrir frjálsri för á milli landa okkar. Þess vegna setjum við mikinn kraft í þessa vinnu á næstu árum,“ segir Siv Friðleifsdóttir, formaður stjórnsýsluhindranaráðsins árið 2023.

Ársskýrslan sýnir að á árinu 2022 vann stjórnsýsluhindranaráðið að 33 „hefðbundnum“ málum tengdum beinum stjórnsýsluhindrunum sem hafa mikið að segja fyrir fólk og fyrirtæki sem vinna þvert á landamærin. Fimm málanna hefur verið lokað. Fjögur voru leyst og eitt hefur verið afskrifað sem óleysanlegt.

Staðreyndir:

  • Stjórnsýsluhindranaráðið er pólitískt skipuð en óháð nefnd sem norræn stjórnvöld hafa falið að greiða fyrir fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda. Stjórnsýsluhindranaráðið hóf störf árið 2014.
  • Stjórnsýsluhindranaráðið vinnur meðal annars með upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar, Infor Norden, og upplýsingaþjónustunum þremur á landamærasvæðunum, Gränstjänsten Sverige-Finland-Norge, Grensetjänsten Norge-Sverige og Øresunddirekt.
  • Markmiðið er að afnema fimm til átta stjórnsýsluhindranir á ári.
  • Fulltrúar í Stjórnsýsluhindranaráðinu árið 2023: Siv Friðleifsdóttir, Íslandi, Annette Lind, Danmörku, Vibeke Hammer Madsen, Noregi, Kimmo Sasi, Finnlandi, Sven-Erik Bucht, Svíþjóð, Jens Heinrich, Grænlandi, John Johannessen, Færeyjum Max Andersson, Álandseyjum, Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Kjell-Arne Ottosson, fulltrúi Norðurlandaráðs