Bein útsending: Tilkynnt um tilnefningar til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2022

25.08.22 | Fréttir
Miljøpris 2022 tyr
Ljósmyndari
Scanpix.dk

Þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2022 er „Náttúrumiðaðar lausnir – alhliða svar við hinum stóru umhverfisáskorunum samfélagsins“.

Tilkynnt verður um tilnefningar til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs fimmtudaginn 1. september og hægt verður að fylgjast með beinu streymi hér á Norden.org.

Sjáið þau einstöku norrænu verkefni sem hljóta tilnefningu. Þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2022 er „Náttúrumiðaðar lausnir – alhliða svar við hinum stóru umhverfisáskorunum samfélagsins“. Athöfnin þar sem tilkynnt verður um tilnefningar ársins 2022 fer fram í Norðurlandahúsinu í Færeyjum, fimmtudaginn 1. september klukkan 14 að íslenskum tíma og hægt verður að fylgjast með beinu streymi hér á Norden.org.

Hér má fylgjast með athöfninni í beinni útsendingu:

Seminar on Nature-based solutions

Þegar tilnefningarnar hafa verið tilkynntar verður haldið 90 mínútna málþing um náttúrumiðaðar lausnir. Á málþinginu koma saman sérfræðingar, ungt fólk og fulltrúar stjórnvalda til að ræða mikilvægi náttúrumiðaðra lausna fyrir líffræðilega fjölbreytni, loftslagið og velferð mannkyns – og hvernig verið er að innleiða þær í norrænu löndunum. Einnig verður fjallað um fjögurra ára áætlun um náttúrumiðaðar lausnir sem Norræna ráðherranefndin stendur fyrir.

„Hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og skaðleg áhrif hennar á heilsu og velferð fólks kemur æ betur í ljós. Það fer ekki á milli mála að vaxandi þörf er á lausnum þar sem náttúran er í brennidepli. Með þema ársins viljum við varpa ljósi á góð dæmi og verkefni á Norðurlöndum til þess að miðla aðferðum og veita fleirum innblástur til að hugsa í samhengi við náttúrumiðaðar lausnir,“ segir Sauli Rouhinen, formaður dómnefndar umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs.

Málþingið verður haldið í Norræna húsinu á Íslandi og Norðurlandahúsinu í Færeyjum í samvinnu við Stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands.

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs eru ár hvert veitt einstaklingi, samtökum eða verkefni á Norðurlöndum sem lyft hefur grettistaki í þágu umhverfisverndar. Þema verðlaunanna er mismunandi frá ári til árs. Þema ársins er: Náttúrumiðaðar lausnir – alhliða svar við hinum stóru umhverfisáskorunum samfélagsins

Norðurlandaráð veitir fimm verðlaun ár hvert: bókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Vinningshafarnir hljóta að launum verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur.