Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2024 snúast um sjálfbæra byggingarstarfsemi

30.01.24 | Fréttir
miljøpris 2024 bæredygtig byggeri

Ted Lindroos / Midjourney AI genererad bild

Photographer
Ted Lindroos / Midjourney AI genererad bild
Í ár rennur verðlaunafé umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs, sem nemur 300 þúsundum danskra króna, til aðila á Norðurlöndum sem lagt hefur eitthvað sérstakt að mörkum til þess að stuðla að sjálfbærni í byggingariðnaði. Frá og með deginum í dag og fram til 30. apríl getur almenningur sent inn tillögur að tilnefningum til verðlaunanna.

Í ár snúast umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs um sjálfbæra byggingarstarfsemi og er sérstök áhersla lögð á aðlögunarhæfan, endurnýtandi og endurnýjandi arkítektúr.

„Um öll Norðurlönd má finna mörg eftirbreytnarverð dæmi um sjálfbæra og loftslagsvæna byggingarstarfsemi. Verðlaunanefnd umhverfisverðlaunanna vonast til þess að verðlaunin geti átt þátt í að vekja athygli á þeim og verið innlegg í opinbera umræðu um mikilvægi þess að minnka kolefnisfótspor byggingariðnaðarins,“ segir Hólmfríður Þorsteinsdóttir, formaður verðlaunanefndar umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs.

Rekja má um 40 prósent allrar kolefnislosunar í heiminum til byggingarstarfsemi. Þetta leiðir til ósjálfbærni á tímum þegar þörf er á því að byggja meira. Í lýsingu sinni á þema ársins leggur verðlaunanefndin einkum áherslu á þau skilyrði sem við sköpum komandi kynslóðum.

Hér má lesa nánar um þema ársins.

Þema 2024: Sjálfbær byggingarstarfsemi (smellið til að lesa)

Í ár snúast umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs um sjálfbæra byggingarstarfsemi með sérstaka áherslu á aðlögunarhæfan, endurnýtandi og endurnýjandi arkítektúr. Tekið er við tillögum um bæði byggingar og innviði og einstaklinga eða fyrirtæki.

Íbúum heims heldur áfram að fjölga og samhliða því þarf að byggja nýtt íbúðarhúsnæði og aðrar byggingar sem krefjast æ meira landsvæðis og náttúruauðlinda. Í dag má rekja fjörutíu prósent allrar kolefnislosunar í heiminum til byggingarstarfsemi. Þessi þróun er ekki sjálfbær. Til þess að geta tekist á við loftslagsbreytingar og stöðvað hnignun líffræðilegrar fjölbreytni um leið og við tryggjum komandi kynslóðum grunnskilyrði til lífs, svo sem aðgengi að vatni, matvælum og orku, verðum við að breyta því hvernig við byggjum, búum og lifum.

Á síðustu áratugum hafa margvíslegar leiðir verið farnar til þess að auka sjálfbærni á sviði samfélagsskipulags, arkítektúrs og byggingarstarfsemi með það fyrir augum að koma í veg fyrir ofnýtingu náttúruauðlinda og umhverfisspjöll. En í nýbyggingum er markið sjaldan sett hærra en að gera byggingarnar skárri. Í ljósi þess að farið er yfir þolmörk jarðar á mörgum sviðum duga slík markmið ekki til.

Ef við ætlum okkur að ná loftslags- og umhverfismarkmiðum heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og um leið stuðla að félags- og umhverfislegri sjálfbærni nægir ekki að reisa bara nýjar og umhverfisvænar byggingar. Það er ekki nóg að viðhalda ástandinu í umhverfismálum. Við þurfum líka að draga úr losun, endurnýta efni og nota endurnýjanlegar auðlindir. Grundvallarbreyting þarf að verða á nálgun okkar til þess að viðskiptalíkön og regluverk styðji við breytingarnar. Ýta þarf undir aðlögunarhæfan, endurnýtandi og endurnýjandi arkítektúr.

Endurnýtandi arkítektúr gengur út á að nýta byggingar sem fyrir eru með nýjum hætti til þess að aðlaga þær að nýjum þörfum í stað þess að rífa þær.

Endurnýjandi byggingar eru hannaðar með það fyrir augum að lágmarka neikvæð áhrif á vistkerfið og ná í heildina fram jákvæðum áhrifum á umhverfið. Í því felst að hannaðar eru byggingar þar sem ekki er aðeins notast við takmarkaðar auðlindir heldur er einnig hægt að endurnýta. Unnið er út frá virðiskeðju hringrásar strax frá upphafi. Litið er á byggingar sem hluta af stærra kerfi þar sem tilföng á borð við hreint vatn, orku og matvæli verða til.

Verðlaunanefnd umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs vonast til þess að verðlaunin geti átt þátt í að vekja athygli á þeim og verið innlegg í opinbera umræðu um mikilvægi þess að minnka kolefnisfótspor byggingariðnaðarins.

Hólmfríður Þorsteinsdóttir, formaður verðlaunanefndar umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs

Öllum er frjálst að senda inn tillögur

Ferlið er opið og er öllum frjálst að senda inn tillögur að tilnefningum til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs.

„Við vonumst til að fá tillögur sem ná til jafnt einstaklinga sem stofnana og fyrirtækja og verkefna þar sem áherslan er á sjálfbærni og loftslagsmál, annaðhvort með því að reyna nýjar leiðir til þess að breyta byggingum og innviðum sem fyrir eru eða byggja með endurnýjun í huga,“ segir Hólmfríður.

 

Frestur til að senda inn tillögur er þriðjudagurinn 30. apríl 2024

Hver geta hlotið tilnefningu?

Verðlaunin eru veitt norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem með fyrirmyndarvinnubrögðum hefur gert tillit til náttúru og umhverfis að föstum þætti í rekstri sínum eða starfi, eða sem á annan hátt hefur unnið mikilsvert starf fyrir náttúruna og umhverfið. Verðlaunahafinn þarf að búa yfir norrænu sjónarhorni og starfa á Norðurlöndum og/eða í tengslum við aðila utan Norðurlanda. Í ár er hægt að senda inn tillögur að bæði byggingum og innviðum.

 

Fyrri verðlaunahafar:

  • 2023 Renewcell (Svíþjóð)
  • 2022 Sveitarfélagið Mariehamn fyrir Nabbens våtmark (Álandseyjar)
  • 2021 Den Store Klimadatabase frá hugsmiðjunni Concito (Danmörk)
  • 2020 Jens-Kjeld Jensen (Færeyjar)
  • 2019 Greta Thunberg (Svíþjóð) (Thunberg afþakkaði verðlaunin)

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1995 og markmiðið með þeim er að efla vitund um náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum. Þema verðlaunanna er breytilegt frá ári til árs. Árið 2024 er þemað sjálfbær byggingarstarfsemi. Norðurlandaráð veitir einnig bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, kvikmyndaverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Verðlaunafé nemur 300 þúsundum danskra króna.