Tillögur að tilnefningum til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs

26.05.22 | Fréttir
collage 2 miljøpris 2022
Photographer
norden.org

Þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2022 er náttúrumiðaðar lausnir.

Fjöldi fræðimanna, nýr landbúnaðarskóli, græn byggingarstarfsemi og fyrirtæki sem kaupir upp elstu skóga í Svíþjóð. Alls bárust tillögur um 68 verkefni þar sem unnið er með náttúrumiðaðar lausnir. Hér er listinn í heild.

Tillögurnar bárust víðs vegar að á Norðurlöndum og veita spennandi innsýn í þau ótrúlega fjölbreytilegu verkefni sem er að finna á sviði náttúrumiðaðra lausna á Norðurlöndum. Hvert og eitt þeirra vill með sínum hætti leggja lóð sín á vogarskálarnar til að leysa þann loftslags- og umhverfisvanda sem að okkur steðjar.

„Öllum er frjálst að stinga upp á tilnefningum til verðlaunanna og því fáum við einstaka og breiða mynd af verkefnum frá Norðurlöndum öllum. Það er alltaf áhugavert að fara yfir listann og ég mæli eindregið með því að fólk geri það,“ segir Sauli Rouhinen, formaður dómnefndar umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs.

Fjöldi fræðimanna, nýr landbúnaðarskóli, græn byggingarstarfsemi og fyrirtæki sem kaupir upp elstu skóga í Svíþjóð. Alls bárust tillögur um 68 verkefni þar sem unnið er með náttúrumiðaðar lausnir.

Hvað eru náttúrumiðaðar lausnir?

Náttúrumiðaðar lausnir eru alltaf háðar eða innblásnar af náttúrunni. Dæmi um það er „rewilding“ sem felst í að endurvekja gróður- og dýralíf sem ekki er lengur til staðar með náttúrulegum hætti á tilteknu svæði. Annað dæmi er að láta náttúruna sjá um sig sjálfa svo náttúruleg ferli móti lönd og höf, græði löskuð vistkerfi og endurheimti ofnýtt land. Í bæjum og borgum geta náttúrumiðaðar lausnir nýst við að jafna hita, draga úr hávaða og hreinsa frárennslisvatn, taka upp rigningarvatn og verja íbúabyggð fyrir flóðum af völdum rigninga.

„Hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og skaðleg áhrif hennar á heilsu og velferð fólks kemur æ betur í ljós. Það fer ekki á milli mála að vaxandi þörf er á lausnum þar sem náttúran er í brennidepli,“ sagði Saulu Rouhinen, formaður dómnefndar umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs fyrr í ár þegar tilkynnt var um þemað.

Hér má lesa nánar um þema ársins

Náttúran er grundvallarforsenda allra mannlegra athafna. Þannig tengjast skógar okkar, bersvæði, almenningsgarðar, húsagarðar og önnur vistkerfi hlýnun jarðar, orkuöflun, vatnsöflun, matvælaframleiðslu, skipulagi byggðar og heilbrigði.

Oft er litið svo á í umræðu um umhverfismál að við verndun, varðveislu og eflingu náttúrunnar halli á hina félagslegu eða efnahagslegu hlið en þannig þarf það alls ekki að vera. Kórónuveirufaraldurinn sem hófst árið 2020 hefur til dæmis aukið vitund okkar um mikilvægi aðgengis að náttúrunni og líffræðilegrar fjölbreytni fyrir velferð okkar og afkomu.

Þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2022 er náttúrumiðaðar lausnir. Með þessu þema viljum við vekja athygli á því að náttúran og náttúrustjórnun getur lagt lóð sín á vogarskálarnar með alhliða lausnum við loftslagsvandanum og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni ásamt því að tryggja árangursríka loftslagsaðlögun í borgarumhverfi og um leið bæta heilbrigði og velferð fólks.

Markmiðið með náttúrumiðuðum lausnum er vitaskuld misjafnt á milli landa, svæða og verkefna en að inntaki eru þær alltaf háðar eða innblásnar af náttúrunni. Dæmi um það er aðgerð sem líkir eftir náttúrunni með tilliti til forms, uppbyggingar eða ferlis við framleiðslu loftslagsvænna og endurnýtanlegra efna. Annað dæmi er „rewilding“ sem felst í að endurvekja gróður- og dýralíf sem ekki er lengur til staðar með náttúrulegum hætti á tilteknu svæði, ásamt því að láta náttúruna sjá um sig sjálfa svo náttúruleg ferli móti lönd og höf, græði löskuð vistkerfi og endurheimti ofnýtt land. Í bæjum og borgum geta náttúrumiðaðar lausnir nýst við að jafna hita, draga úr hávaða og hreinsa frárennslisvatn, taka upp rigningarvatn og verja íbúabyggð fyrir flóðum af völdum rigninga. Jafnframt getur grænt og sjálfbært borgarumhverfi bætt velferð rétt eins og tengsl við ólíkar gerðir náttúru geta styrkt ónæmiskerfi líkamans og varið okkur gegn sjúkdómum, lækkað blóðþrýsting og bætt andlega heilsu.

Náttúrumiðaðar lausnir efla því ekki aðeins umhverfið og líffræðilega fjölbreytni heldur má einnig búa svo um að þær skapi félagslegt, menningarlegt og fjárhagslegt virði.

Náttúrumiðaðar lausnir styðja við heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun nr. 14 og 15 sem snúa að lífi í vatni og lífi á landi. Með náttúrumiðuðum lausnum er hægt að styðja við þau markmið sem t.a.m. tengjast heilsu og vellíðan (3), hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu (6), nýsköpun og uppbyggingu (9), sjálfbærum borgum og samfélögum (11) og aðgerðum í loftslagsmálum (13). Þróun náttúrumiðaðra lausna er eitt þeirra sviða sem Norræna ráðherranefndin leggur áherslu á í framtíðarsýn sinni um græn Norðurlönd.

Ferlið framundan

Tilkynnt verður um það við athöfn í Norðurlandahúsinu í Færeyjum hver þessara 68 verkefna verða tilnefnd til verðlaunanna. Tilkynnt verður um handhafa umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2022 á þingi Norðurlandaráðs í Helsingfors í nóvember. Verðlaunahafinn hlýtur að launum 300 þúsund danskar krónur.

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1995 og markmiðið með þeim er að efla vitund um náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum.