Gagnagrunnurinn Den Store Klimadatabase hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2021

02.11.21 | Fréttir
Vinder af Nordisk Råds miljøpris 2021

Vinder af Nordisk Råds miljøpris 2021

Ljósmyndari
Norden.org/Magnus Fröderberg

Michael Minter, verkefnisstjóri  matvælaverkefnis Concito

Glaðbeittur verkefnisstjóri matvælaverkefnis Concito tók við umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs á sviðinu í Skuespilhuset í Kaupmannahöfn á þriðjudagskvöld.

Hugmyndasmiðjan hlýtur verðlaunin fyrir þróun gagnagrunnsins Den Store Klimadatabase. Í gagnagrunninum eru 500 algengustu matvælavörur flokkaðar og kolefnisspor þeirra reiknað út.

 

Verkefnið hefur breiða samfélagslega skírskotun og nýtist almenningi jafnt sem stjórnvöldum og fyrirtækjum. Stærstu tækifærin sem fólgin eru í gagnagrunninum eru þannig hið opna aðgengi að honum á netinu. Lykillinn að valdi liggur í þekkingu og með gagnagrunni Concito er almenningi færður sá lykill. Hugmyndasmiðjan hlýtur því verðlaunin fyrir þá möguleika sem hún býður upp á til breyttrar hegðunar neytenda.

 

Þema umhverfisverðlaunanna í ár var verkefni sem stuðla að þróun sjálfbærra matvælakerfa.

Rökstuðningur dómnefndar

Hér um bil fjórðungur af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum stafar af matvælaframleiðslu. Aðgangur að upplýsingum um kolefnisspor matvöru skiptir því sköpum til að þoka bæði framleiðslu og neyslu matvæla í sjálfbærari átt.

Þekki neytendur kolefnisspor matvöru geta þeir tekið upplýsta ákvörðun um það hvort þeir kjósi að nota hana á eigin heimili. Slík þekking á – vonandi – eftir að skila sér í því að matarvenjur hafi minni neikvæð áhrif á loftslagið. 

Gagnagrunnurinn Den Store Klimadatabase hlýtur umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2021 fyrir mikla möguleika til að skapa grundvöll að sjálfbærari neyslu matvæla á Norðurlöndum.

Gagnagrunnurinn veitir innsýn í kolefnisspor ýmiss konar matvöru með einföldum og greinargóðum hætti og að auki eru allar upplýsingarnar í gagnagrunninum aðgengilegar án endurgjalds.

Skipulegar aðferðir við gagnasöfnun, mikið magn matvæla sem unnið er með og rík áhersla á matvælageirann er það sem helst einkennir Den Store Klimadatabase. Gagnagrunnurinn er einfaldur að gerð og hönnun og auðvelt er að aðlaga þær aðferðir til útreikninga sem hann byggir á svo að einnig megi nýta hann í sjálfbærniverkefnum í öðrum löndum og málaflokkum. Í stuttu máli sýnir gagnagrunnurinn fram á það hvernig einföld og aðgengileg miðlun á upplýsingum sem mikil eftirspurn er eftir getur orðið að stökkbretti fyrir neytendur til að breyta neysluhegðun sinni.

Sökum hinna miklu möguleika sem gagnagrunnurinn býður til að breyta hegðun neytenda hefur dómnefndin ákveðið að veita grænu hugmyndasmiðjunni Concito umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2021.

Sjáið Concito taka við umhverfisverðlaununum í Kaupmannahöfn

Verðlaun Norðurlandaráðs

Norðurlandaráð veitir fimm verðlaun ár hvert: bókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Verðlaunahafinn hlýtur að launum verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur og eru verðlaunin afhent í tengslum við árlegt þing Norðurlandaráðs.