Brexit opnar á aukið samstarf Norðurlanda um ESB

08.04.19 | Fréttir
EU-debatt under Nordiska rådets temasession 2019.

EU-debatt på temasessionen i Köpenhamn 2019. Medverkande: Margrete Auken, Mette Bock, Kimmo Sasi, Jessica Polfjärd och Morten Løkkegaard.

Photographer
Matts Lindqvist

Þau Margrete Auken, Mette Bock, Kimmo Sasi, Jessica Polfjärd og Morten Løkkegaard tóku þátt í Brexit-umræðunum.

Þörf er á auknu samstarfi Norðurlanda innan ESB nú þegar Bretland hyggst ganga úr bandalaginu. Þetta er meðal þess sem fram kom í umræðum um Evrópuþingskosningarnar sem haldnar voru í tengslum við þemaþing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn á mánudaginn.

Þetta var í fyrsta sinn sem frambjóðendur frá öllum þremur norrænu ESB-ríkjunum, Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð, mættust í umræðum tengdum Evrópuþingskosningunum. Umræðurnar skiptust í þrennt eftir málaflokkum: Norðurlönd eftir Brexit, loftslagsmál og varnar- og öryggismál.

Í umræðum um Brexit voru pallborðsþátttakendurnir sammála um að með útgöngu Bretlands úr ESB væru Norðurlönd að missa mikilvægan vin og félaga.

- Við missum með þessu náinn bandamann. Við Norðurlandabúar deilum sögu og svipuðum gildum en ef við viljum að rödd okkar sé sterk innan ESB þurfum við að starfa saman í meira mæli, sagði Mette Bock, menningarmálaráðherra Danmerkur, en hún leiðir lista Liberal Alliance í Evrópuþingskosningunum.

Mette Bock fékk góðar undirtektir, meðal annars frá Kimmo Sasi úr Samlingspartiet í Finnlandi. Hann sagði Norðurlönd nú verða að leita stuðnings úr öðrum áttum og meðal annars ættum við að starfa nánar með Eystrasaltsríkjunum og Þýskalandi.

- Og skoðum tölfræðina. Norðurlönd skara fram úr á mörgum sviðum og við gætum tekið okkur meira leiðtogahlutverk innan ESB. Við getum kynnt norræna líkanið betur í Evrópu.

Norðurlönd standa einnig frammi fyrir áskorunum

Nokkrir frambjóðendanna sáu einnig tækifæri á auknu samstarfi í loftslagsmálum. Skilaboðin voru á þann veg að Norðurlönd hefðu mikið fram að færa til Evrópu og alls heimsins þegar kemur að því að sýna hvernig grænu umskiptin geta skapað störf og hagvöxt.

En við ættum ekki að líta á Norðurlönd einungis sem forystusvæði, sagði Rasmus Nordqvist, frambjóðandi fyrir Alternativet í Danmörku.

- Norðurlönd eru ekki bara með frábærar lausnir við loftslagsvandanum, þau standa einnig frammi fyrir stórum áskorunum, sagði hann. 

Í umræðum um varnar- og öryggismál voru skiptar skoðanir á ýmsum málefnum, að hluta til eftir flokkalínum og að hluta til vegna þess að norrænu ríkin hafa valið sér mismunandi bandamenn í þeim málaflokki.

Sendinefnd Danmerkur í Norðurlandaráði stóð fyrir umræðunum og fundarstjóri var Anna Gaarslev, Evrópumálafréttaritari fyrir danska ríkissjónvarpið (DR).

Umræðurnar voru hliðarviðburður við þemaþing Norðurlandaráðs sem haldið er í Kaupmannahöfn 8.-9. apríl.