Brottfall úr skóla er áskorun fyrir Norðurlönd í heild sinni

12.12.18 | Fréttir
 Rundabordssamtal om skolavhopp

Bild från rundabordssamtalet om förebyggande folkhälsoarbete för att minska skolavhopp i Norden. Stortinget i Oslo den 7 december.

Ljósmyndari
Peter Mydske / Stortinget.no

Hringborðsumræður um fyrirbyggjandi lýðheilsuaðgerðir til að draga úr brottfalli úr skóla

Fyrirbyggjandi lýðheilsuaðgerðir, í formi snemmtækra íhlutana, geta skipt sköpum í að draga úr brottfalli nemenda úr menntaskólum á Norðurlöndum. Þannig hljóma meginniðurstöður úr hringborðsumræðum sem norræna velferðarnefndin og norræna þekkingar- og menningarnefndin stóðu fyrir á Stórþinginu í Osló þann 7. desember.

Við höfum séð að skólar þurfa að búa yfir starfsfólki úr fjölbreyttum starfsgreinum, til dæmis félagsráðgjöfum, iðjuþjálfum, markþjálfum og sjálfboðaliðum úr félagasamtökum. Þetta fólk þarf að geta unnið með það sem á ensku kallast „supported education“. Sé þetta tryggt, geta kennararnir frekar einbeitt sér að sjálfri kennslunni. Þetta er álit Bente Stein Mathisen, formanns norrænu velferðarnefndarinnar.

Anne-Berit Kavli, verkefnisstýra „0-24 – Þverfagleg samþætting úrræða fyrir börn og ungmenni í áhættuhópum“, – verkefnis á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar – lagði í erindi sínu áherslu á þverfaglegar aðgerðir á hinu pólitíska sviði, sem og mikilvægi þess að hagsmunir barnsins séu alltaf settir ofar hagsmunum atvinnulífsins.

 

Á bilinu 20 til 30 prósent hætta í skóla

Brottfall úr mennta- og framhaldsskólum er áskorun fyrir Norðurlönd í heild sinni. Á bilinu 20 til 30 prósent ungmenna hætta í skóla áður en þau hafa lokið námi sínu við 20 ára aldur. Sérstaklega er brýn þörf á því að draga úr brottfalli úr starfsnámi. Ungmenni sem hætta snemma í námi eiga gjarnan mjög erfitt með að komast inn á vinnumarkaðinn, en slíkt hefur afleiðingar fyrir einstaklinginn sem og samfélagið.

Ástæður þess að ungmenni hætta snemma í námi geta verið margvíslegar:

  • persónuleg vandamál eða vandamál innan fjölskyldunnar,
  • námsörðugleikar eða
  • bág félagsleg og efnahagsleg staða.

Síaukin tíðni andlegra veikinda meðal ungs fólks hefur áhrif. Það er því mikilvægt að vinna á breiðum grundvelli að fyrirbyggjandi lýðheilsuaðgerðum. Menntakerfið, skólaumhverfið og hlutfall kennara miðað við nemendur eru einnig veigamiklir áhrifaþættir. Til að hægt sé að bregðast við þessum áskorunum er mikilvægt að aðilar á félagsmála- og menntamálasviði vinni saman og taki saman ábyrgð á að draga úr brottfalli úr skóla.

Fyrirbyggjandi aðgerðir skipta sköpum

Okkur vantar vettvang þar sem við getum safnað saman hinum ýmsu hagsmunaaðilum. Pólitísk forysta er mjög mikilvæg til þess að hægt sé að hrinda hlutum í framkvæmd, segir Inger Christin Torp, hjá fylkisstjórn Østfold-fylkis.

Norræna velferðarnefndin og norræna þekkingar- og menningarnefndin kölluðu því saman stjórnmálafólk úr félags- og menntamálanefndum landanna, ásamt sérfræðingum, til að ræða hvernig draga má úr brottfalli úr skóla með fyrirbyggjandi, þverfaglegum aðgerðum.

Niðurstöðurnar úr þessum umræðum verða svo frekar ræddar og unnið með þær áfram í báðum norrænu nefndunum.

Okkur vantar vettvang þar sem við getum safnað saman hinum ýmsu hagsmunaaðilum. Pólitísk forysta er mjög mikilvæg til þess að hægt sé að hrinda hlutum í framkvæmd

Inger Christin Torp, hjá fylkisstjórn Østfold-fylkis.
Tengiliður