Hin fimm verðlaun Norðurlandaráðs veitt í Ósló

30.10.18 | Fréttir
Vinneren av Nordisk Råds priser 2018

 

 

Photographer
Sara Johannessen
Auður Ava Ólafsdóttir, Bárður Oskarsson, Nils Henrik Asheim, Benedikt Erlingsson, Ólafur Egill Egilsson, Marianne Slot og Carine Leblanc, auk Per Ole Frederiksen, Pâviârak Jakobsen og Nette Levermann frá Náttúruauðlindaráðinu í Attu hlutu verðlaun Norðurlandaráðs við stjörnum prýdda athöfn í Óperu- og balletthúsinu í Ósló á þriðjudagskvöld.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Auður Ava Ólafsdóttir hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2018 fyrir skáldsöguna Ör. Auður Ava hlýtur verðlaunin fyrir verk sem einkennist af útsmognum húmor og leiftrandi fjörugu tungumáli en spyr jafnframt áleitinna spurninga um lífið og dauðann.

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Færeyski rithöfundurinn Bárður Oskarsson hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2018 fyrir myndabókina Træið. Oskarsson hlýtur verðlaunin fyrir frásögn sem þorir að fara sér hægt í veruleika sem einkennist af stöðugu áreiti.

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs

Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson, leikstjóra, handritshöfund og framleiðanda, Ólaf Egil Egilsson handritshöfund og framleiðendurna Marianne Slot og Carine Leblanc hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2018. Frábær kvikmynd sem er leiftrandi skemmtileg í meðferð sinni á hápólitísku viðfangsefni, svo og einkalífi 48 ára gamallar konu sem er hin óvænta hasarhetja myndarinnar.

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs

Norska tónskáldið Nils Henrik Asheim hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2018 fyrir verkið Muohta. Asheim hlýtur verðlaunin fyrir tónverk sem að mati dómnefndar er „einkar nútímalegt en býr jafnframt yfir sögulegri meðvitund“.

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Per Ole Frederiksen, Pâviârak Jakobsen og Nette Levermann tóku við Umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs 2018 fyrir hönd Náttúruauðlindaráðsins í Attu við vesturströnd Grænlands, fyrir ötult starf að skrásetningu upplýsinga um hafsvæði og fyrir tillögur að leiðum til stjórnunar hafsvæða.