COP27: Norðurlönd geta rutt brautina fyrir sjálfbært mataræði

16.11.22 | Fréttir
Sustainable food for climate action at cop27
Ljósmyndari
Andreas Omvik
Heilnæmt og sjálfbært mataræði þarf að vera kjarninn í loftslagsaðgerðum til að takmarka hnattræna hlýnun við 1,5 °C og ná markmiðum um sjálfbæra þróun. Þetta voru skilaboðin frá pallborðsumræðum háttsettra norrænna embættismanna á umhverfisráðstefnunni COP27.

Það sem við borðum og hvernig við framleiðum matvæli veldur ekki aðeins miklum skaða á umhverfi okkar og loftslagi, heldur skaðar það líka heilsu okkar. Til að leggja áherslu á mikilvægi sjálfbærra matvælakerfa sem leið til aðgerða gegn loftslagsbreytingum var Norræna skálanum í Sharm el-Sheikh breytt í Matvælakerfaskálann 12. nóvember. 


„Til þess að ná árangri þurfum við leiðandi lönd eins og Norðurlönd, sem draga vagninn á öllum stigum og eru fordæmi fyrir önnur aðildarríki,“ segir dr. Brent Loken, yfirmatvælafræðingur hjá World Wildlife Fund (WWF). 
 

Sjálfbærniútgáfa norrænu næringarráðlegginganna er lykilverkfæri

Gagnreyndu norrænu næringarráðleggingarnar hafa hlotið mikið lof víða um heim svo áratugum skiptir og í júní 2023 verður nýju sjálfbærniútgáfunni hleypt af stokkunum. Pallborðsumræðurnar um loftslagsvænt mataræði og breytingar á atferli gáfu vísbendingu um forystuhlutverkið sem Norðurlönd geta gegnt næstu árin í gegnum norrænu næringarráðleggingarnar til að sýna fram á mikilvægt hlutverk fæðukerfa fyrir heilbrigði og loftslag jarðar.


„Norrænu næringarráðleggingarnar geta verið verkfæri því þær heimila aðildarríkjunum að hrinda æskilegum stefnum í framkvæmd. Ef það er einhvers staðar hægt að gera þetta, þá er það á Norðurlöndum,“ segir Brent Loken frá WWF.

 

Norrænu næringarráðleggingarnar fela í sér alla þrjá þætti sjálfbærni

Þetta er í fyrsta sinn sem sjálfbærni er hluti af ráðleggingunum -  og það verður tekið tillit til allra þátta sjálfbærni: umhverfislegra, efnahagslegra og félagslegra þátta. Verkefnisstjóri væntanlegra norrænna næringarráðlegginga, Rune Blomhoff, prófessor við Oslóarháskóla, hefur miklar væntingar til alþjóðlegs samstarfs um heilbrigt og sjálfbært mataræði til heilsubótar fyrir okkur sjálf og plánetuna alla: 

„Við vonum að vísindalega samstarfið við gerð norrænu næringarráðlegginganna geti orðið fyrirmynd að alþjóðlegu samstarfi milli annarra landa og svæða og, það sem mikilvægast er, að innleiðing heilsusamlegs og sjálfbærs mataræðis á Norðurlöndum geti einnig orðið fyrirmynd að framkvæmd í öðrum löndum.“  

Pekka Kosonen, sendiherra Finnlands í Egyptalandi, bendir líka á hvernig ráðleggingarnar geti hjálpað fólki við að taka sjálfbærari ákvarðanir í daglegu lífi:

„Norrænu næringarráðleggingarnar eru nauðsynlegar því án þeirra, og vísindalegra gagna, skilur fólk ekki að þetta er það sem þarf þegar kemur að loftslagsbreytingum.“
 

Norrænu næringarráðleggingarnar geta verið verkfæri því þær heimila aðildarríkjunum að hrinda æskilegum stefnum í framkvæmd. Ef það er einhvers staðar hægt að gera þetta, þá er það á Norðurlöndum

Dr. Brent Loken, yfirmatvælafræðingur hjá WWF

Matvælakerfi eru grundvallarþáttur loftslagsaðgerða

Enda þótt fyrsti opinbera matvæla- og landbúnaðarskálinn hafi verið kynntur til sögunnar á COP27 á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), samráðshóps um alþjóðlegar landbúnaðarrannsóknir (CGIAR) og Rockefeller-stofnunarinnar eru matvælakerfi enn ekki grundvallarþáttur í loftslagsmálum. Ákall um breytingar á COP28-ráðstefnunni kom frá mörgum samtökum og stefnumótendum sem sátu ráðstefnuna í Egyptalandi, auk þátttakenda í pallborðinu í Norðurlandaskálanum. Að lokum nefnir Brent Loken það sem hann telur vera næstu nauðsynlegu skref: 


„Það er viðurkennt að nálgun byggð á matvælakerfum er algjörlega nauðsynleg ef við ætlum að ná markmiðum okkar.  Hún er forsenda fyrir svo mörgu öðru. Koronivia-ályktunin* er innleidd fyrir aðferðir í landbúnaði en í stað þess að einblína á matvælaframleiðslu er litið til matvælakerfa í heild sinni.“

Meiri áhersla á COP28 

Elena Villalobos Prats, sviðsstjóri heilbrigðis- og loftslagsbreytingamála við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) er sammála því að þörf sé á ríkari áherslu á heilbrigð og sjálfbær matvælakerfi:

„Það eru miklar væntingar um enn meiri áherslu á heilbrigði á COP28-ráðstefnunni. Miklu máli skiptir að taka tillit til næringar og heilbrigðs mataræðis þegar staða mála á alþjóðavísu er vegin og metin. Ef Norðurlönd geta byggt á framkvæmd norrænu næringarráðlegginganna og deilt árangrinum með öðrum þjóðum, sem hyggja á álíka verkefni, á COP28-ráðstefnunni er hægt að koma þessum málum á mikið skrið.“

Dagskráin í norræna matvælakerfaskálanum var undir stjórn Katy Harris, yfirmaður rannsókna við umhverfisstofnun Stokkhólmsháskóla.