Covid19 bitnar á andlegri heilsu barna og ungmenna sem standa höllum fæti

07.09.21 | Fréttir
Skolebørn
Photographer
Karin Beate Nøsterud
Covid19 hefur bitnað sérstaklega illa á ungu fólki sem stendur höllum fæti fyrir. Þetta kom fram á sameiginlegum fundi Norðurlandaráðs milli Lenu Hallgren, félagsmálaráðherra Svíþjóðar og Norrænu velferðarnefndarinnar sem hefur óskað eftir ítarlegri greiningu á málinu, fyrirbyggjandi aðgerðum til framtíðar, áherslu á aðgerðir innan skólakerfisins og nánara norrænu samstarfi.

Lokanir í heimsfaraldrinum hafa haft slæm áhrif á geðheilsu. Að mati Magnusar Jägerskog, framkvæmdastjóra Bris og dr. MaiBritt Giacobini, sérfræðings í geðlækningum barna og ungmenna, bitnar þetta sérlega illa á þeim sem eiga í erfiðleikum fyrir. Þau tóku bæði þátt í sameiginlegum fundi Norrænu velferðarnefndarinnar og Lenu Hallgren, félagsmálaráðherra Svíþjóðar, en hún ræddi áskoranirnar í Svíþjóð. Ráðherrann gerði grein fyrir því að geðheilbrigði hefði verið vaxandi vandi í allnokkur ár fyrir Covid19 og benti á að heimsfaraldurinn hefði ýtt undir neikvæða þróun og að þetta hefði komið verst niður á börnum og ungmennum sem standa höllum fæti. Ráðherrann vill grípa til aðgerða til að sporna við þessu:

 „Ríkisstjórn Svíþjóðar leggur ríka áherslu á geðheilsu og að koma í veg fyrir sjálfsvíg og þar eru börn og ungmenni í algerum forgangi,“ segir Lena Hallgren en hún telur að lausnin liggi í stefnumótandi aðgerðum til lengri tíma á ýmsum sviðum.

Sum börn voru ekki valin í vinahópinn

Bente Stein Mathisen, formaður Norrænu velferðarnefndarinnar, er henni hjartanlega sammála um mikilvægi þess að forgangsraða með þessum hætti.

„Börn og ungmenni hafa fundið til einmanakenndar og einangrunar í faraldrinum. Vinahópar hafa talið um það bil fjóra. En sum voru bara aldrei valin í slíka hópa. Þau standa utan við og verða enn meira einmana. Félagsstarf og tómstundastarf lá líka niðri þannig að í þá starfsemi var enga hjálp að sækja,“ segir Bente Stein Mathisen.

Áhyggjur af að andleg vanlíðan og einmanaleiki geti leitt til sjálfsvíga

Norræna velferðarnefndin hefur litið á geðheilsu barna og ungmenna sem standa höllum fæti sem forgangsmál, einnig áður en Covid19 kom til. Nefndin hefur sérstaklega horft til hárrar sjálfsvígstíðni á Norðurlöndum þar sem 10 svipta sig lífi dag hvern. Nefndin hefur áhyggjur af því að börnum og ungmennum sem stytta sér aldur fari fjölgandi vegna einmanaleika og annarrar andlegrar vanlíðunar í heimsfaraldrinum. Þess vegna samþykkti nefndin fyrir ári markmið um að sjálfsvíg verði 25% færri á Norðurlöndum árið 2025. Langtímamarkmiðið er að útrýma sjálfsvígum.

Mín fyrsta hugsun þegar samfélaginu var lokað var að nú yrðu allir nemendur mínir þvingaðir til einsemdar

Eva Lindh, Norrænu velferðarnefndinni

Skólinn skiptir miklu máli 

Nina Sandberg varaformaður Norrænu velferðarnefndarinnar og Eva Lindh fulltrúi í nefndinni tóku einnig þátt í umræðunum. Báðar horfa til framtíðar og til þess hvað nú beri að gera.

„Í kjölfar heimsfaraldursins verðum við sameiginlega að grípa til aðgerða til að lágmarka afleiðingarnar og koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig í komandi kreppum,“ segir Nina Sandberg. Eva Lindh er sammála og bendir á að ekki megi vanmeta mikilvægi skólans:

„Mín fyrsta hugsun þegar samfélaginu var lokað var að nú yrðu allir nemendur mínir þvingaðir til einsemdar. Ég hef verið námsráðgjafi í mörg ár og veit hversu miklu máli skólinn skiptir fyrir börn og ungmenni – sérstaklega þau sem búa við erfiðar aðstæður,“ segir Eva Lindh en hún, formaður nefndarinnar og varaformaður kalla eftir ítarlegri greiningu til að auka þekkingu á þessu sviði, miðla áhrifaríkum aðgerðum og sameiginlegum norrænum forvarnaraðgerðum.

Leiðtogafundur um geðheilsu framundan 

Norræna ráðherranefndin gengst fyrir leiðtogafundi í Helsinki í nóvember um geðheilsu og Norræna ráðherranefndin hefur úthlutað fé til þess að Norræna velferðarmiðstöðin geti unnið norrænt samstarfsverkefni með áherslu á rétt barna og ungmenna til þess að hlustað sé á þau á tímum Covid19.