Efst á baugi í Nordic Bridges víðs vegar um Kanada

10.08.22 | Fréttir
Sara Ajnnak Nordic Bridges
Photographer
Photo courtesy of the artist Sara Ajnnak

Sara Ajnnak frá Svíþjóð sem tilnefnd var til Grammy-verðlauna kemur fram í The National Art Centre í Ottawa og Harbourfront Centre í Toronto.

Nú þegar árið er hálfnað er spennandi sumardagskrá menningarátaksins Nordic Bridges í fullum gangi og varir raunar langt fram á haust. Á meðal þess sem helst ber að nefna eru tónleikar með Eivøru, Sigur Rós, Kolonien, og VÍLDA, myndlistarsýningin Arctic Highways, norræna dansstuttmyndahátíðin og viðburðir með nokkrum af fremstu sirkuslistamönnum heims.

Harbourfront Centre í Toronto, með stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar, stýrir þessu árslanga verkefni þar sem norrænir og kanadískir listamenn skiptast á list, menningu og hugmyndum og listamenn frá öllum Norðurlöndum sýna og koma fram víðs vegar um Kanada.

„Nú þegar Nordic Bridges er meira en hálfnað hafa samstarfsaðilar okkar, 22 talsins, tekið á móti rúmlega 195 norrænum listamönnum og hópum á sviðum, kvikmyndatjöldum og sýningarrýmum sínum. Það er ljóst að þetta eru erfiðir tímar fyrir menningarlíf um allan heim en við vitum jafnframt að listræna samstarfið á milli kanadískra og norrænna listamanna í ár á eftir að geta af sér fjölda listaverka og viðburða um land allt, og um allan heim, á komandi árum,“ segir Iris Nemani, aðaldagskrárstjóri við Harbourfront Centre og aðalframkvæmdastjóri Nordic Bridges.

Norrænir tónleikar og sýningar um allt Kanada

National Arts Centre í Ottowa, alþjóðlega rithöfundahátíðin í Toronto, BreakOutWest í Calgary og fleiri menningarstofnanir og -hátíðir bjóða upp á ótrúlegan fjölda tónleika, leiksýninga, danssýninga og listviðburða með norrænum listamönnum á komandi mánuðum. Þetta er á meðal þess sem hæst ber í júlí, ágúst og september:

  • Á hátíðinni TOHU Montréal Complètement Cirque Festival koma fram sirkuslistamenn frá öllum heimshornum, þar á meðal Dansateliers frá Noregi og Portmanteau frá Svíþjóð.
  • Leikfélagið Artistic Fraud of Newfoundland setur upp heimsfrumsýningu á leikritinu I Forgive You með tónlist eftir íslensku hljómsveitina Sigur Rós.
  • Færeyska söngkonan og lagahöfundurinn, og handhafi tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs, Eivør kemur ekki aðeins fram á sumartónleikaröð Harbourfront Centre heldur einnig í National Arts Centre í Ottawa.
  • Þekktir tónlistarmenn og rísandi stjörnur koma fram á tónlistarhátíðum víða um land og má þar nefna GusGus og Vök frá Íslandi, leoblu frá Álandseyjum, sem þreytir þar með frumraun sína í Norður-Ameríku, Nive and the Deer Children frá Grænlandi, Grammy-tilnefndu listakonuna Söru Ajnnak, The Magnettes frá Svíþjóð og dúettinn VILDÁ frá Lapplandi/Finnlandi.
  • Í Harbourfront Centre í Toronto verður líka frumflutt nýtt tónverk eftir danska tónskáldið Jakob Kullberg og „Songs of the Ice“ eftir finnska tónskáldið Outi Tarkiainen verður flutt á tónleikum undir yfirskriftinni „Become Ocean“ í National Arts Centre í Ottawa.
  • Á norrænu dansstuttmyndahátíðinni í National Arts Centre í Ottawa er kastljósinu beint að frjórri sköpun norrænna dansara og kvikmyndagerðarmanna.
  • Alþjóðlega myndlistarsýningin Arctic Highways, þar sem list frumbyggja er í fyrirrúmi, verður sett upp í Yukon Arts Centre (Whitehorse)
  • Norrænir rithöfundar koma jafnframt fram á stærstu bókmenntahátíð Kanada, Toronto International Festival of Authors, sem nú er haldin í 43. sinn.
  • Ókeypis fyrirlestraröðin Nordic Monthly Talks fer fram í Harbourfront Centre, og svona mætti lengi telja.

Framúrskarandi norrænir og kanadískir listamenn í Ottawa

Tónleikar, leiksýningar, kvikmyndasýningar, danssýningar og fleiri viðburðir á vegum Nordic Bridges verða jafnframt í boði í National Arts Centre í Ottawa á næstu mánuðum. Á meðal þeirra sem koma fram eru margverðlaunaða söngkonan og lagahöfundurinn Eivør, sænska hljómsveitin Kolonien og Grammy-tilnefnda listakonan Sara Ajnnak, svo það allra helsta sé nefnt.

„Það er heiður að fá að bjóða upp á framúrskarandi norræna og kanadíska listamenn í National Arts Centre fyrir tilstilli Nordic Bridges, og við deilum gildum verkefnisins um sköpun, nýjungar, inngildingu, þrautseigju og sjálfbærni“ segir Christopher Deacon, framkvæmdastjóri National Arts Centre í Ottawa.
 

Fylgist með

Dagskráin yfir viðburði, listamenn og listhópa verður uppfærð reglulega út árið 2022. Fáið nýjustu fréttir með því að fylgjast með #NordicBridges á samfélagsmiðlum.  

Um Nordic Bridges

Norræna ráðherranefndin um menningarmál hleypti af stokkunum árslöngu menningarátaki undir forystu einnar fremstu lista- og menningarstofnunar Kanada, Harbourfront Centre í Toronto, og með aðkomu listafólks og þátttakenda í menningarlífi frá öllum Norðurlöndum. Lykilstoðir í dagskrá Nordic Bridges snúast um listræna nýsköpun, aðgengi og inngildingu, sjónarhorn frumbyggja, viðnámsþrótt og sjálfbærni. 
Þetta alþjóðlega verkefni, sem miðar að því að vekja athygli á norrænni list og menningu í Kanada á árinu 2022, er hið viðamesta nokkru sinni. 


Annað á dagskrá Nordic Bridges er meðal annars norrænn-kanadískur styrkur til umhverfisblaðamennsku og fyrirlestraröðin Nordic Talk.