Efst á baugi í Nordic Bridges víðs vegar um Kanada

Sara Ajnnak frá Svíþjóð sem tilnefnd var til Grammy-verðlauna kemur fram í The National Art Centre í Ottawa og Harbourfront Centre í Toronto.
Harbourfront Centre í Toronto, með stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar, stýrir þessu árslanga verkefni þar sem norrænir og kanadískir listamenn skiptast á list, menningu og hugmyndum og listamenn frá öllum Norðurlöndum sýna og koma fram víðs vegar um Kanada.
„Nú þegar Nordic Bridges er meira en hálfnað hafa samstarfsaðilar okkar, 22 talsins, tekið á móti rúmlega 195 norrænum listamönnum og hópum á sviðum, kvikmyndatjöldum og sýningarrýmum sínum. Það er ljóst að þetta eru erfiðir tímar fyrir menningarlíf um allan heim en við vitum jafnframt að listræna samstarfið á milli kanadískra og norrænna listamanna í ár á eftir að geta af sér fjölda listaverka og viðburða um land allt, og um allan heim, á komandi árum,“ segir Iris Nemani, aðaldagskrárstjóri við Harbourfront Centre og aðalframkvæmdastjóri Nordic Bridges.
Norrænir tónleikar og sýningar um allt Kanada
National Arts Centre í Ottowa, alþjóðlega rithöfundahátíðin í Toronto, BreakOutWest í Calgary og fleiri menningarstofnanir og -hátíðir bjóða upp á ótrúlegan fjölda tónleika, leiksýninga, danssýninga og listviðburða með norrænum listamönnum á komandi mánuðum. Þetta er á meðal þess sem hæst ber í júlí, ágúst og september:
- Á hátíðinni TOHU Montréal Complètement Cirque Festival koma fram sirkuslistamenn frá öllum heimshornum, þar á meðal Dansateliers frá Noregi og Portmanteau frá Svíþjóð.
- Leikfélagið Artistic Fraud of Newfoundland setur upp heimsfrumsýningu á leikritinu I Forgive You með tónlist eftir íslensku hljómsveitina Sigur Rós.
- Færeyska söngkonan og lagahöfundurinn, og handhafi tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs, Eivør kemur ekki aðeins fram á sumartónleikaröð Harbourfront Centre heldur einnig í National Arts Centre í Ottawa.
- Þekktir tónlistarmenn og rísandi stjörnur koma fram á tónlistarhátíðum víða um land og má þar nefna GusGus og Vök frá Íslandi, leoblu frá Álandseyjum, sem þreytir þar með frumraun sína í Norður-Ameríku, Nive and the Deer Children frá Grænlandi, Grammy-tilnefndu listakonuna Söru Ajnnak, The Magnettes frá Svíþjóð og dúettinn VILDÁ frá Lapplandi/Finnlandi.
- Í Harbourfront Centre í Toronto verður líka frumflutt nýtt tónverk eftir danska tónskáldið Jakob Kullberg og „Songs of the Ice“ eftir finnska tónskáldið Outi Tarkiainen verður flutt á tónleikum undir yfirskriftinni „Become Ocean“ í National Arts Centre í Ottawa.
- Á norrænu dansstuttmyndahátíðinni í National Arts Centre í Ottawa er kastljósinu beint að frjórri sköpun norrænna dansara og kvikmyndagerðarmanna.
- Alþjóðlega myndlistarsýningin Arctic Highways, þar sem list frumbyggja er í fyrirrúmi, verður sett upp í Yukon Arts Centre (Whitehorse)
- Norrænir rithöfundar koma jafnframt fram á stærstu bókmenntahátíð Kanada, Toronto International Festival of Authors, sem nú er haldin í 43. sinn.
- Ókeypis fyrirlestraröðin Nordic Monthly Talks fer fram í Harbourfront Centre, og svona mætti lengi telja.
Framúrskarandi norrænir og kanadískir listamenn í Ottawa
Tónleikar, leiksýningar, kvikmyndasýningar, danssýningar og fleiri viðburðir á vegum Nordic Bridges verða jafnframt í boði í National Arts Centre í Ottawa á næstu mánuðum. Á meðal þeirra sem koma fram eru margverðlaunaða söngkonan og lagahöfundurinn Eivør, sænska hljómsveitin Kolonien og Grammy-tilnefnda listakonan Sara Ajnnak, svo það allra helsta sé nefnt.
„Það er heiður að fá að bjóða upp á framúrskarandi norræna og kanadíska listamenn í National Arts Centre fyrir tilstilli Nordic Bridges, og við deilum gildum verkefnisins um sköpun, nýjungar, inngildingu, þrautseigju og sjálfbærni“ segir Christopher Deacon, framkvæmdastjóri National Arts Centre í Ottawa.
Fylgist með
Dagskráin yfir viðburði, listamenn og listhópa verður uppfærð reglulega út árið 2022. Fáið nýjustu fréttir með því að fylgjast með #NordicBridges á samfélagsmiðlum.
Um Nordic Bridges
Norræna ráðherranefndin um menningarmál hleypti af stokkunum árslöngu menningarátaki undir forystu einnar fremstu lista- og menningarstofnunar Kanada, Harbourfront Centre í Toronto, og með aðkomu listafólks og þátttakenda í menningarlífi frá öllum Norðurlöndum. Lykilstoðir í dagskrá Nordic Bridges snúast um listræna nýsköpun, aðgengi og inngildingu, sjónarhorn frumbyggja, viðnámsþrótt og sjálfbærni.
Þetta alþjóðlega verkefni, sem miðar að því að vekja athygli á norrænni list og menningu í Kanada á árinu 2022, er hið viðamesta nokkru sinni.
Annað á dagskrá Nordic Bridges er meðal annars norrænn-kanadískur styrkur til umhverfisblaðamennsku og fyrirlestraröðin Nordic Talk.