Norræn sendinefnd heimsækir Nordic Bridges í Kanada
Frá því þessu eins árs langa menningarátaki, sem Harbourfront Centre í Toronto fer fyrir með stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar, var ýtt úr vör í janúar hafa metnaðarfullar frumsýningar, verk og viðburðir farið fram um allt landið.
„Við, menningarmálaráðherrarnir á Norðurlöndum, erum ánægð að sjá hvernig Nordic Bridges fær á sig mynd með einstöku listafólki frá öllum norrænu löndunum. Það er uppörvandi að sjá svona mikinn áhuga á norræni list og menningu,“ segir Anette Trettebergstuen, menningar- og jafnréttismálaráðherra Noregs och formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál 2022.
Nordic Bridges fer fram á tugum staða í landinu með aðkomu tæplega 20 kanadískra menningarstofnana á árinu og skapar einstakt tækifæri fyrir þau hundruð norrænu listamanna sem taka þátt. Þeir kynna list sína í samstarfi við kanadískt listafólk á nýjum vettvangi og ná til nýs hóps með sýningum, innsetningum, tónleikum, upplestri og vinnustofum.
Kröftug tengslamyndun
Í vikunni tekur norræna sendinefndin, sem skipuð er fulltrúum frá menningarráðuneytum, faggreinasamtökum og menningarmálayfirvöldum, þátt í spennandi dagskrá í Toronto. Sendinefndin fær tækifæri til að bæði upplifa norræna list og hitta listafólk, fulltrúa menningarstofnana og stefnumótandi aðila frá Norðurlöndum og Kanada til að skiptast á reynslu, koma upp tengslaneti og ræða samstarf.
„Við viljum að Nordic Bridges sé vettvangur fyrir listafólk að kynnast nýju samstarfsfólki, fá nýjar hugmyndir og skapa alþjóðleg sambönd til langs tíma. Þessi skipti á list, menningu og hugmyndum hafa jákvæð áhrif á öllum sviðum menningargeirans á Norðurlöndum: Frá listamönnum og framleiðendum til ráðamanna,“ segir Anette Trettebergstuen um markmiðið með menningarátakinu Nordic Bridges.
Alþjóðasamstarf
Alþjóðlegt samstarf er gegnumgangandi áhersluatriði þessa daga í Kanada og það á einnig við þegar fulltrúar Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál hitta fulltrúa kanadíska menningarmálaráðuneytisinns Canadian Heritage á fimmtudaginn, undir forystu formanns nefndarinnar og menningarmála- og jafnréttisráðherra Noregs, Anette Trettebergstuen.
Menningargeirinn og sjálfbærni
Menningarátakið Nordic Bridges er byggt á fjórum hornsteinum: listrænni nýsköpun, aðgengi og inngildingu, sjónarhorni frumbyggja ásamt viðnámsþoli og sjálfbærni – mikilvægum málefnum jafnt í Kanada sem á Norðurlöndum. Meðal þess sem er á dagskránni eru hringborðsumræður þar sem listamenn, loftslagsaðgerðasinnar og ráðamenn koma saman til að ræða hlutverk listar og menningar í sjálfbærri þróun.
„Bæði Kanada og Norðurlönd taka sjálfbærni mjög alvarlega. Hér gefst okkur því líka færi á vitundarvakningu og að deila með okkur því sem við höfum lært og komist að í tengslum við það hvernig við drögum úr umhverfisáhrifum og ýtum undir inngildandi menningarviðburði,“ segir Anette Trettebergstuen að lokum.
Fyrir blaðamenn
Tækifæri gefst til að hitta fulltrúa sendinefndarinnar í Toronto þann 19. maí. Hafið samband við Elisabet Skylare: Elisabet Skylare, elisky@norden.org, +45 21 71 71 27
Markmiðið er að menningarátakið Nordic Bridges verði kolefnishlutlaust. Ferðir vegna skipulagningar og framkvæmdar listrænnar dagskrár eru kolefnisjafnaðar og það á einnig við um heimsókn norrænu sendinefndarinnar.