Norrænir og kanadískir ráðherrar taka höndum saman í baráttu gegn skaðlegu efni á netinu

Ráðherrafundur kanadíska arfleifðarráðuneytisins og Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál í Toronto 19. maí.
Norræna ráðherranefndin um menningarmál, undir forystu Annette Trettebergstuen, menningar- og jafnréttisráðherra Noregs, fundaði með fulltrúum kanadíska arfleifðarráðuneytisins í Toronto í maí í tengslum við alþjóðlega samkomu vegna menningarátaksins Nordic Bridges.
„Norrænu löndin eru ein þau stafvæddustu í heimi en þau eru lítil og eru háð samstarfi við önnur lönd til að hafa stjórn á áhrifum stórra tæknifyrirtækja. Það gleður okkar að hinn árangursríki fundur með kanadískum kollegum okkar í Toronto hafi skilað sér í þessari sterku yfirlýsingu og skuldbindingu um náið samstarf á þessu erfiða sviði,“ segir Trettebergstuen.
Norrænu löndin eru ein þau stafvæddustu í heimi en þau eru lítil og eru háð samstarfi við önnur lönd til að hafa stjórn á áhrifum stórra tæknifyrirtækja.
Stuðlað að gagnsæi og ábyrgð
Í yfirlýsingu sinni benda norrænu og kanadísku ráðherrarnir á það hve hröð og umfangsmikil tæknileg og stafræn þróun er og heita því að stuðla að gagnsæi og ábyrgð stórra netfyrirtækja þegar kemur að skaðlegu efni sem dreift er á vettvangi þeirra til að tryggja öruggara og meira inngildandi umhverfi á netinu.
„Almenningur um allan heim hefur séð stafræna vettvanga og aðra netþjónustu skipa æ mikilvægari sess í lífi sínu. Þótt slík kerfi hafi marga kosti geta þau einnig valdið miklum og raunverulegum skaða. Þess vegna hefur ríkisstjórn Kanada leitt þróun alþjóðlegra viðmiðunarreglna um fjölbreytileika í efni á netinu til að hvetja stjórnvöld, iðnað og borgaralegt samfélag til að leggja sitt af mörkum til að koma upp heilbrigðu og öruggu stafrænu vistkerfi. Við þurfum öll að grípa til aðgerða til að tryggja að fólk geti alls staðar tjáð sig með frjálsum hætti í hinu stafræna rými, sér að skaðlausu,“ segir Pablo Rodriguez, ráðherra kanadískrar arfleifðar.
Þörf á traustum upplýsingum á erfiðleikatímum
Kórónuveirufaraldurinn og innrás Rússlands í Úkraínu sýna þörfina á traustum upplýsingum á erfiðleikatímum og minna okkur jafnframt á að tjáningar- og fjölmiðlafrelsi eru grundvallarþættir í lýðræðissamfélögum.
Ráðherrarnir leggja áherslu á að sjálfbærar og óháðar fréttaveitur gegni mikilvægu hlutverki í því að styðja við lýðræðið með því að flytja fréttir sem byggðar eru á staðreyndum, sem er nauðsynlegt til að berjast gegn upplýsingaóreiðu.
Við þurfum öll að grípa til aðgerða til að tryggja að fólk geti alls staðar tjáð sig með frjálsum hætti í hinu stafræna rými, sér að skaðlausu.
Ráðherrafundur í Toronto
Ráðherrafundur kanadíska arfleiðfðarráðuneytisins og Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál var haldinn í Toronto þann 19. maí í tengslum við alþjóðlega samkomu vegna menningarátaksins Nordic Bridges 2022. Áhrif tæknifyrirtækja á tjáningarfrelsi, endurreisn menningargeirans eftir faraldurinn og efling norræns-kanadísks menningarsamstarfs var ofarlega á dagskránni.