Ungir blaðamenn frá Norðurlöndum og Kanada segja fréttir af loftslagsvánni

22.06.22 | Fréttir
Bootcamp in Norway Nordic-Canadian Fellowship programme
Photographer
Joel Ndgomi

Styrkþegarnir Meral Jamal og Diellza Murtezaj með leiðbeinanda sínum og Mi 'kmaw blaðamanninum Trinu Roache á fyrsta degi æfingabúðanna í Tromsø í Noregi. 

Aldrei hefur verið brýnna að skrásetja hvernig loftslagsbreytingar hafa áhrif á samfélög, menningu og plánetuna okkar — og hvað við getum gert til að sporna við þróuninni. Á meðal þess sem Nordic Bridges býður upp á er norræn-kanadíski styrkurinn fyrir umhverfisblaðamennsku, þar sem ungum og efnilegum blaðamönnum frá Norðurlöndum og Kanada býðst að kafa djúpt ofan í helstu ógnirnar sem steðja að umhverfinu.

Á 18 mánaða tímabili taka styrkþegarnir þátt í æfingabúðum í blaðamennsku, fara í fréttaferðir og eru með í sýningu á vegum norræna menningarverkefnisins Nordic Bridges í desember 2022.

Styrkþegarnir fóru nýverið til Tromsø og Ósló í Noregi til að eiga samskipti við aðra styrkþega frá Norðurlöndum og Kanada, ræða um samstarf á Norðurslóðum og læra af reyndum loftslagsfréttamönnum og vísindamönnum um þörfina fyrir trúverðugar upplýsingar og hvernig hægt sé að greina frá staðreyndum  um loftslagsvána. 

Tækifæri til að auka hæfni

Við ræddum nýlega við kanadíska blaðamanninn og styrkþegann Meral Jamal, norrænu blaðakonuna og styrkþegann Söru Tingström og Lex Harvey, blaðamann og einn skipuleggjenda styrkjaáætlunarinnar, til að heyra hvað þau hafa að segja um þetta mikilvæga verkefni og fræðast meira um styrkjaáætlunina og áhrif hennar.

„Þessi áætlun er mikilvæg því hún tekur á brýnasta alþjóðlega verkefni okkar tíma — loftslagsbreytingum — um leið og hún býður upp á tækifæri fyrir nýja blaðamenn til að byggja upp færni, þróa tengslanet þvert á landamæri og segja fréttir frá samfélögum á Norðurlöndum eða í Kanada á árangursríkan og næman hátt,“ segir Harvey.

Styrkjaáætlunin hefur sýnt fram á mikilvægi blaðamennsku — og þá sérstaklega umhverfisblaðamennsku — þvert á landamæri.“

Lex Harvey, blaðamaður og skipuleggjandi styrkjaáætlunarinnar

Falsfréttir, villandi framsetning og upplýsingaóreiða

Menningarátakið Nordic Bridges hvílir á fjórum meginstoðum: nýsköpun í listum, aðgengi og þátttöku, sjónarmiðum frumbyggja og þrautseigu og sjálfbærni, en allt eru þetta mikilvæg málefni jafnt í Kanada sem á Norðurlöndum. Þessir áherslupunktar endurspeglast jafnframt í starfsemi og verkefnum styrkjaáætlunarinnar.

 „Styrkjaáætlunin hefur aukið færni mína í blaðamennsku til muna,“ segir Jamal. „Það hefur líka verið gagnlegt að læra af öðrum sem taka þátt í þessu verkefni. Þegar við dvöldum saman í æfingabúðunum í Noregi lærði ég mikið um menningarleg líkindi og mismun á milli Kanada og Norðurlanda og mikilvægi þess að læra og flytja fréttir í samstarfi hvert við annað.“  

Norræni blaðamaðurinn og styrkþeginn Sara Tingström bætir við: „Merking orða er líka mikilvæg. Umræðan verður erfið og þýðingarlítil ef ekki eru til staðar skilgreiningar á hugtökum á borð við græn orkuskipti, sjálfbærni eða loftslagsvá. Við lærðum að greina falsfréttir, villandi framsetningu og upplýsingaóreiðu.“

Ég lærði mikið um menningarleg líkindi og mismun á milli Kanada og Norðurlanda og mikilvægi þess að læra og flytja fréttir í samstarfi hvert við annað.

Meral Jamal, blaðamaður og styrkþegi

Langvarandi áhrif styrkjanna

Aðspurð um varanleg áhrif styrkáætlunarinnar segist Harvey vera „viss um að færnin og vináttan sem byggist upp í gegnum Nordic Bridges muni vara mun lengur en út árið. Hver og einn styrkþegi hefur haft einstakt sjónarhorn og hæfileika og þannig auðgað upplifunina fyrir alla. Eftir ferðalagið til Tromsø og Osló síðastliðna viku finn ég fyrir svo miklum tengslum við þennan hóp og veit að við verðum öll í nánu sambandi. Styrkjaáætlunin hefur sýnt fram á mikilvægi blaðamennsku — og þá sérstaklega umhverfisblaðamennsku — þvert á landamæri.“ 

„Sem ungur blaðamaður á dagblaði á kanadíska norðurskautssvæðinu vonast ég til að þetta verkefni og reynslan af því að segja fréttir frá Norðurlöndum auki skilning minn á umhverfisblaðamennsku, samstarfi og samfélagslegri blaðamennsku,“ segir Jamal.

„Fyrir mig persónulega veitir verkefnið mér dýrmæt verkfæri til að búa mig undir þá áskorun og ábyrgð blaðamanna að flytja fréttir af umhverfis- og loftslagsvandamálum, og mögulegum lausnum á þeim, um leið og þeir gæta hlutleysis og forðast að falla í gryfju hræðsluáróðurs eða málflutnings,“ segir Tingström og bætir við: 

„Með fleiri og fjölbreyttari sjónarmiðum, dýpri skilningi og tengiliðum í Kanada og víðsvegar um Norðurlönd verður vonandi hægt að flytja dýpri, víðsýnni og sanngjarnari fréttir sem varða fleira fólk.“
 

Verkefnið veitir mér dýrmæt verkfæri til að búa mig undir þá áskorun og ábyrgð blaðamanna að flytja fréttir af umhverfis- og loftslagsvandamálum, og mögulegum lausnum á þeim.

Sara Tingström, blaðamaður og styrkþegi

Fréttir af málum í Kanada og Norðurlöndum

Æfingabúðirnar í Noregi hafa búið styrkþegana undir fréttaferðirnar sem farnar verða í sumar, aukið skilning þeirra á bestu starfsvenjum í fréttaflutningi á vettvangi og gert þeim betur kleift að ráða fram úr upplýsingaóreiðu til að tryggja að fréttir af loftslagsmálum byggist á staðreyndum. Fréttir verða sagðar af eftirfarandi þremur málum. 

  • Loftslagsaðgerðir undir stjórn Inúíta á Grænlandi: Meral Jamal vinnur fréttina í samstarfi við tvo aðra styrkþega, danska háskólanemann Diellza Murtezaj og færeyska menntaskólanemann Silju af Reyni Wennerström. Saman vinna þau að verkefni um loftslagsaðgerðir undir stjórn Inúíta á Grænlandi og áskoranirnar og árangurinn í eftirliti með villtu dýralífi í óbyggðum. 
  • Munur á skógrækt í Kanada og á Íslandi: Tveir styrkþegar, Ólöf Rún Erlendsdóttir frá Íslandi og Fern Marmont frá Kanada, bera saman skógrækt í Kanada og á Íslandi, hvernig verið er að höggva niður gamla regnskóga í öðru landinu á meðan reynt er að endurheimta skóga í hinu. 
  • Sjálfbær tísku- og textíliðnaður: Annað tvíeyki, Erica Ngao frá Kanada og Andrea Kunz Skrede frá Noregi, fara til Finnlands, Svíþjóðar og Danmerkur til að ræða við forsprakka í sjálfbærum tísku- og textíliðnaði og athuga hvort þessi lönd séu jafnmiklir frumkvöðlar á þessu sviði og sagt er.

Um norræn-kanadíska styrkinn fyrir umhverfisblaðamennsku

Norræn-kanadíski styrkurinn fyrir umhverfisblaðamennsku veitir ungum og efnilegum blaðamönnum frá Norðurlöndum og Kanada vettvang til að læra og vinna saman. Styrkjaáætlunin nýtur sameiginlegs stuðnings Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál og samstarfsráðherra Norðurlanda og ert stýrt af Harbourfront Centre í Toronto sem hluta af menningarverkefninu Nordic Bridges.