Tilkynnt um fyrstu atriði á dagskrá menningarverkefnisins Nordic Bridges

11.11.21 | Fréttir
Harbourfront Centre performance
Ljósmyndari
Harbourfront Centre
Nú hefur loksins verið tilkynnt um fyrstu dagskrárliði norræna menningarverkefnisins Nordic Bridges, sem fram fer í Kanada á næsta ári. Þetta alþjóðlega verkefni, sem mun vekja athygli á norrænni list og menningu í Kanada út árið 2022, er það stærsta til þessa.

Þetta árslanga menningarverkefni sem menningarmálaráðherrar Norðurlandanna standa fyrir og stjórnað er af Harbourfront Centre í Toronto – einni af leiðandi lista- og menningarstofnunum Kanada – mun leiða saman listafólk og aðra fulltrúa menningarlífsins frá öllum norrænum löndunum.

 

Nordic Bridges er stærsta norræna menningarverkefnið sem haldið hefur verið utan Norðurlandanna, þar sem það fer fram á tíu stöðum í Kanada og leiðir saman nærri 20 samstarfsaðila víða í landinu frá janúar til desember 2022. Menningarráðherrarnir eru fullir tilhlökkunar að sjá verkefnið fara af stað, en því var frestað um ár vegna heimsfaraldursins.

 

„Við höfum hlakkað til Nordic Bridges og við erum virkilega ánægð að sjá hvernig mikill metnaður Harbourfront Centre er að verða að veruleika í viðamikilli og lifandi dagskrá sem felur ekki aðeins í sér marga spennandi listamenn frá Kanada og Norðurlöndunum heldur einnig öfluga samstarfsaðila hvaðanæva að í Kanada. Nordic Bridges kemur á þeim tíma þegar hvað mest þörf er á alþjóðlegum samskiptum og megináhersla verkefnisins á samstarf skapar grunn fyrir langvarandi tengsl milli Norðurlanda og Kanada. Þetta er mikilvægur vettvangur til að vekja athygli því mikilvæga hlutverki sem listir og menning gegna fyrir sjálfbæra þróun,“ segir Antti Kurvinen, rannsóknar- og menningarmálaráðherra Finnlands og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál 2021.

Nordic Bridges kemur á þeim tíma þegar hvað mest þörf er á alþjóðlegum samskiptum og megináhersla verkefnisins á samstarf skapar grunn fyrir langvarandi tengsl milli Norðurlanda og Kanada. Þetta er mikilvægur vettvangur til að vekja athygli því mikilvæga hlutverki sem listir og menning gegna fyrir sjálfbæra þróun.

Antti Kurvinen, vísinda- og menningarmálaráðherra Finnlands

Hápunktar dagskrárinnar

Listræna dagskráin er byggð á fjórum grundvallaratriðum: listrænni nýsköpun, aðgengi og þátttöku, sjónarmiðum frumbyggja og viðnámsþrótti og sjálfbærni. Kanadískir samstarfsaðilar hafa umsjón með dagskránni, sem inniheldur meðal annars sviðslistir á borð við dans, leikrit og tónlist, myndræna og stafræna list, handverk og hönnun, bókmenntir og kvikmyndir.

Norrænir listamenn munu vinna og stíga fram með kanadískum listamönnum, bæði á vel þekktum hátíðum á borð við Toronto Film Festival og nýrri hátíðum, þekktum menningarstofnunum á borð við National Arts Centre í Ottawa, óháðum leikhúsum, galleríum og ýmsum viðburðum vítt og breitt um landið.

Danshöfundurinn Alan Lucien Øyen, leikstjórinn Amanda Kernell, tónskáldið Ingi Garðar Erlendsson, listamaðurinn Randi Samsonsen, hönnuðir á borð við Liss Stender og Teemu Salonen, söngvaskáldið Julia Clara og leikstjórinn Lone Scherfig eru á meðal þeirra norrænu listamanna sem hafa verið staðfestir í dagskránni.
 

Samspil og sjálfbærni

Fyrsta dagskrártilkynningin gefur forsmekk af því sem koma skal í þessu einstaka menningarverkefni sem hefur það markmið að efla samspil og miðlun milli norræns menningarlífs og Kanada.

„Við lítum á Nordic Bridges sem tækifæri fyrir fólk til að hittast aftur, ekki aðeins með því að byggja brýr milli norrænna þátttakenda heldur með því að færa okkur aftur saman með list, samræðum og samveru,“ segir Marah Braye, framkvæmdastjóri Harbourfront Centre, sem heldur áfram:

„Viðburðirnir og atriðin munu koma af stað samræðum milli Kanada og Norðurlanda um hlutverk menningar í þróun og eflingu sjálfbærra samfélaga, auk þess að auka meðvitund um sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna – og þá sérstaklega um umhverfi, þátttöku og aðgengi.

Auk lista og menningar felur Nordic Bridges einnig í sér nýtt norrænt-kanadískt verkefni um umhverfisblaðamennsku fyrir unga höfunda og árslanga viðburðaröð Nordic Talks – vettvangs fyrir samræður milli norrænna og kanadískra listamanna, hugsuða, leiðtoga, frumkvöðla og stefnumótandi aðila.

 

Við lítum á Nordic Bridges sem tækifæri fyrir fólk til að hittast aftur, ekki aðeins með því að byggja brýr milli norrænna þátttakenda heldur með því að færa okkur aftur saman með list, samræðum og samveru.

Marah Braye, framkvæmdastjóri Harbourfront Centre

Fréttir og dagkrártilkynningar Fylgstu með!

Listinn yfir viðburði, listafólk og atriði verður uppfærður út árið 2022. Fáðu nýjustu upplýsingar með því að fylgja #NordicBridges á samfélagsmiðlum:

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni: